08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2427 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Stefán Valgeirsson; Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þeim umr. sem hér fara fram, en það er eitt atriði sem ég vil aðeins drepa á. Það er 7. gr. þessa frv. sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Stofna skal, eftir hví sem þörf krefur og fé er veitt til í fjárl., sérskóla á vegum ríkisins er veiti viðskiptamenntun, sbr. 6. gr. Skal fyrsti skóli þeirrar tegundar stofnaður á Akureyri.“

Það er enginn vafi á því að í sambandi við viðskiptamenntun er þörfin mjög brýn. Mér er t.d. tjáð að það fái ekki nema 1/5 skólavist á Bifröst af þeim sem sækja, og gefur það auðvitað dálitla hugmynd um hvað þörfin þarna er brýn. Síðan þetta frv. var lagt fram hafa fjölmargir haft samband við mig í sambandi við þetta atriði, um 7. gr,. og hvort það sé ekki einhver leið nú þegar að koma á fót slíkum skóla á Akureyri eða þar í grennd. Ég er einmitt með þáltill. sem ég er að reyna að ganga frá um að það verði athugað að koma slíkum skóla á í húsakynnum Húsmæðraskólans á Laugalandi í Eyjafirði. Þar er húsnæði sem er lítið eða ekkert notað, og eins og er nú ástatt hjá okkur er sjálfsagt að nota það húsnæði sem er fyrir hendi, og það væri hægt miklu fyrr en ella að koma slíkum skóla á ef til þessa ráðs yrði gripið.

Ég held að þurfi að gefa fólki tækifæri á þessu sviði eins og öðrum að undirbúa sig undir lífið, og síðasti hv. ræðumaður sannfærði mig ekki um að það þyrfti ekki meira val í þessu efni. Hitt er svo annað mál, hvernig á að koma þessu níuni fyrir.

Ég held að það sé ekkert nýtt í okkar skólamálum, það sem við þurfum nú að horfast í augu við. Ég held að það sé ekkert nýtt. Ég held það hafi ekki orðið nein skyndibreyting í þessu efni. Mér skildist á hv. síðasta ræðumanni að það væri einhver fyrirmyndarskóli, iðnskólinn hér í Beykjavík, og þar þyrfti ekki mikil breyting að verða á. Því miður hef ég aðra reynslu, — því miður og mjög á annan veg.

Ég vil beina því til hæstv. menntmrh. í sambandi við að stofna skóla á Akureyri sem allra fyrst eða þar í kring, hvort það væri ekki hugsanlegur möguleiki t.d. að nota hús Húsmæðraskólans á Laugalandi og hvort það væri ekki hægt að láta hann taka til starfa jafnvel á næsta hausti því að það er mjög mikil þörf á þessu sviði, eins og ég gat um áðan, og ástæða til þess að nýta þá möguleika sem eru fyrir hendi.