08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég hygg að um það mál, sem hér liggur fyrir til umr., frv. til l. um viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi, séu í grundvallaratriðum ekki mjög skiptar skoðanir um að eðlilegt væri að þessi þáttur framhaldsmenntunar komi inn í skólakerfið með sama hætti og aðrir framhaldsskólar. Það blandast engum hugur um það að menntun á viðskiptasviði er nauðsynleg og ómissandi í nútíma þjóðfélagi og fyllilega eðlilegt að ríkið komi á sama hátt inn í þarna með greiðslu kostnaðar eins og til annarra framhaldsskóla. Hins vegar vil ég segja það varðandi einmitt kostnaðarhliðina — og mér skilst að einmitt um það atriði sé hik á mönnum hér, að ég tel mig ekki geta tekið fullnaðarafstöðu til þess fyrr en ég hef fengið kostnaðaráætlun um hvað sú ráðstöfun kosti að taka Verslunarskóla Íslands og Samvinnuskólann á framfæri ríkisins að því marki sem frv. gerir ráð fyrir. Ég tel að ég geti ekki sagt minn hug allan fyrr en ég einfaldlega veit hvað það þýðir í auknum útgjöldum fyrir ríkið.

Ég á sæti í menntmn. Nd. sem fær þetta frv. til nánari umfjöllunar, — við höfum raunar haft það nú þegar, —- og ég vænti þess að n. fái þá áætlun í hendur til þess að auðvelda okkur að taka afstöðu til þessa atriðis.

Ég verð að segja að mér fannst dálítið skrýtin afstaða sem hv. síðasti ræðumaður, hv. 5. þm. Vesturl., tók Það var einna helst að skilja á honum, að hann ætlaði að styðja Samvinnuskólann af því að hann væri í kjördæminu hans og svo væri hann auðvitað miklu betri á allan hátt en Verslunarskóli Íslands. Ég legg þessa skóla alveg að jöfnu, þeir veita báðir sams konar menntun, og þess vegna tel ég eðlilegt að það sama gangi yfir þá báða í þessu efni. Ég treysti mér ekki til þess að gefa þessum skólum einkunn út á eitt eða neitt, hvort annar er betri en hinn. Þeir eiga báðir að vera góðir, eins og allir skólar eiga að vera góðir, og eðlilegt er og sjálfsagt að þarna fylgist þessir skólar að.

Ég get fyllilega tekið undir þau rök, sem komu fram hjá hv. 5. landsk., að að sjálfsögðu hljótum við að hika gagnvart því að leggja út í ný útgjöld til þessara skóla á meðan okkur tekst ekki betur en okkur tekst nú að fjármagna t.d. okkar verkmenntun sem við erum hástöfum að lofa að við ætlum að gera vel við. En að sjálfsögðu verður þetta framtíðarskipan, að viðskiptamenntunarskólarnir koma inn í menntakerfið á sama hátt og annars konar framhaldsmenntun.

Það hefur ýmislegt annað verið sagt hér um skólakerfi okkar. Hv. 8. landsk. þm. hafði allháværar umr. um það. Mér fannst satt að segja sumt af því sem þar kom fram, nokkuð vanhugsað.

Það er ekki óalgengt að heyra háværa gagnrýni um þá lengingu skólatíma sem nýju grunnskólalögin fela í sér. Ég hefði haldið að þessum hv. þm., af því að hann lét sér mjög annt um þessi mál eða svo var að heyra á hans málflutningi, ætti að vera kunnugt um að í grunnskólalögunum er ákvæði sem heimilar að stytta skólatíma í grunnskóla niður í allt að því 7 mánuði og þetta ákvæði er einmitt komið inn í lög fyrir óskir úr dreifbýlinu. Og ég get heils hugar tekið undir það sem hér hefur komið fram, bæði hjá 8. landsk. og 5. þm. Vesturl., að ég er ákaflega óhress yfir þeirri þróun sem er að verða t.d. úti í sveitum landsins, börnunum er kippt burt úr sínu umhverfi og sinni vinnu, frá sínum sveitaheimilum, til þess að setjast á skólabekk um miðjan september og þeim er haldið út maí. En þetta þyrfti ekki að vera, vegna þess að það er heimild fyrir því í lögunum að stytta skólatímann eftir hentugleikum og eftir því sem þörf þykir krefja. En auðvitað er ekki allur vandinn leystur með því. Styttri skólatími í strjálbýli útheimtir auðvitað allt aðra skipulagningu námsins. Það segir sig sjálft, námið þarf að verða miklu samþjappaðra. Það er þetta atriði sem ég hef verið dálítið hrædd um að yrði ekki gætt nógu vel að. Það er ekki nóg að stytta bara skólatímann fyrir fólkið úti um sveitirnar. Það verður að haga náminu samkv. því, þannig að nemendur þar verði ekki beinlínis á eftir, þeir verði afskiptir í því námi sem skólinn á að veita þeim, einfaldlega vegna þess að þeim er kippt á undan félögum þeirra hér í þéttbýlinu burt úr skólanum. Mér býður í grun að þarna hafi enn sem komið er ekki verið nógu vel á málum haldið. Maður heyrir mjög oft að nemendur, sem koma úr skólunum utan af landi, grunnskóla og héraðsskólunum gömlu, séu á eftir sínum félögum hér og standi ákaflega miklu verr að vígi þegar þeir eiga að ganga undir sömu próf og félagar þeirra í kaupstöðum þar sem skólatíminn er í fullri lengd.

Við vitum mætavel hve aðstæður eru gjörólíkar til sveita og svo aftur í kaupstöðum, ég tala nú ekki um Reykjavík sem hefur sérstöðu, skólatíminn þar er lengdur hreinlega — og það hefur verið viðurkennt — til þess að skapa nemendum athvarf, beinlínis að þessi börn, þegar skólanum lýkur eigi eitthvert athvarf til að hverfa að. Og þá á ég sérstaklega við það að með hinum mikla tilflutningi íslendinga úr strjálbýli í þéttbýli er að verða úr sögunni að fólk í kaupstöðum eigi sína nánustu, fjölskylduna eða náið ættfólk úti á landsbyggðinni. Þegar verið er að tala um að það eigi að stytta skólana og láta börnin fara út í sveitirnar og vinna, þá er það ákaflega miklu hægara sagt en gert. Bændur eru ekki við því búnir nú orðið að taka við hópi óviðkomandi barna bara til þess að kenna þeim að vinna og lofa þeim að njóta sveitalífsins. Bændur hafa orðið að laga sig að breyttum tímum. Búin eru vélvædd. Þeir þurfa ekki lengur á léttastrákum og stelpum að halda í sama mæli og áður fyrr þegar mannshöndin var virkari en hún er í dag. Forsendan fyrir langri skólavist í þéttbýli er því til komin af skiljanlegum ástæðum, út af gerbreyttu þjóðfélagi. Þetta verðum við að hafa í huga. Og einmitt vegna þess hefur þetta ákvæði, að ég hygg, komið inn í grunnskólalögin, að þarna megi ríkja sveigjanleiki og þeim, sem treysti sér til að hafa skólatímann styttri, sé það leyfilegt. En þá megi þeir, sem úti í strjálbýlinu búa, ekki kvarta á sama tíma og segja: Okkar börn fá minna námsefni. Þarna verður að vera jafnræði. — Það verður það ekki nema skólanámið úti um hinar strjálli byggðir landsins verði skipulagt með þeirri viðmiðun að tíminn er styttri.

Hv. 8. landsk. ræddi nokkuð um fjölbrautaskólaun og spurði: Hvað er fjölbrautaskóli? Ég held að honum sé ekki nægilega ljóst sjálfum hvað fjölbrautaskóli er og kannske er mér það ekki heldur. Þetta er, eins og hann sagði, tilraunaskóli, — tilraunaskóli sem á þó að vinna í þeim anda sem við öll teljum æskilegt, að gera hinni verklegu menntun jafnhátt undir höfði og bóknáminu og lofa þessu námi að fara fram undir sama þaki og hvað verklega námið snertir í mjög nánu sambandi við þá verklegu skóla sem fyrir eru.

Það hefur í þessu sambandi mikið verið talað um gerbreytingu iðnmenntunar, það eigi að leggja meistarakerfið niður og allt eigi að byggjast upp frá grunni. Mér er kunnugt um að hugmyndir um verklegt nám í fjölbrautaskólanum miða m.a. að því að nýta iðnskólana sem fyrir hendi eru, nýta kennslukraftana sem þar eru, og jafnvel, meðan fjölbrautaskólanum hefur ekki vaxið fiskur um hrygg, að nýta þar þá verkstæðisaðstöðu sem fyrir hendi er á hverjum stað. Við þurfum ekki að ímynda okkur að fjölbrautaskólinn rísi upp fullmótaður á fáeinum árum. Þetta er langtímaverkefni sem þarf að fá að þróast með jákvæðu hugarfari þeirra manna er að menntamálum standa.

Ég skal heils hugar taka undir það, að það er hæpið að gína við öllum nýjungum í skólamálum. Við skulum taka þeim með vara og reyna að byggja enn sem fyrr á okkar gömlu reynslu og okkar gamla skólakerfi, því að það átti marga kosti umfram það nýja sem veríð er að lofsyngja nú stundum með þeim hætti að ekki er mjög trúverðugt. En ég held líka að með tilliti til þeirra feiknalegu breytinga og byltinga á sumum sviðum sem okkar þjóðfélag hefur gengið í gegnum, þá sé ákaflega hættulegt að ímynda sér að skólakerfið standi í stað og það getur boðið hættunni heim um afturhaldssemi og stöðnun. En hitt er alveg rétt, að það hefur komið upp stundum oftrú á alls konar tískufyrirbæri í skólakerfinu, einhverjar patentlausnir sem hafa átt að leysa allan vanda. Það hefur átt að ýta til hliðar öllu því gamla. Ég þekki af eigin reynslu úr kennarastarfi t.d. það, sem talið var það eina rétta í tungumálakennslu fyrir eins og einum áratug, en nú með fenginni reynslu af því er að koma greinilegt afturhvarf til hinna eldri hátta og það hefur sýnt sig að það leysir ekki allan vanda, langt frá því. Hér verðum við að fara að með gát, vinsa úr það sem er til gagns af nýjungum, en hafna hinu. Hér sem annars staðar er það hinn mikli vandi. Sama máli gegnir um stærðfræðikennslu. Mengi þótti það eina sem vit var í fyrir nokkrum árum. Foreldrar stóðu ráðþrota. Þeir gátu ekki og máttu ekki lengur kenna börnum sínum margföldunartöfluna, af því að það varð að gerast eftir allt öðrum leiðum en þeir höfðu lært upp á gamla mátann. En að sjálfsögðu megum við ekki hafna öllu því sem nýtt er og frá öðrum þjóðum komið sem fyrir fram óhæfu og einskis nýtu. Þarna verðum við að beita okkar gagnrýni og umfram allt að reyna að tileinka okkur það sem jákvætt er og heppilegt fyrir okkar aðstæður. Það vil ég líka leggja áherslu á, að við í okkar litla þjóðfélagi þurfum, ekki hvað síst í menntamálunum, að miða okkar skólakerfi við okkar sérstæðu aðstæður, og það á ekki hvað síst við um hinn mikla mun, sem ríkir á aðstöðu á þéttbýlum landssvæðum og hins vegar í útkjálkahéruðum landsins, þar sem allar aðstæður eru eins gjörólíkar og hugsast getur. En ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Mér finnst 9. gr. umrædds lagafrv. þurfa nánari athugunar við, og ég sem meðlimur í menntmn. vænti þess að við fáum eitthvað frekar til að fóta okkur á hvað kostnaðinum viðvíkur áður en við þurfum að taka endanlega afstöðu.