08.03.1976
Neðri deild: 74. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

153. mál, viðskiptamenntun á framhaldsskólastigi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ekki hef ég hugsað mér að blanda mér í almennar umr. um menntamál. Ég hef að vísu ekki á móti því að fram komi íhaldsöm sjónarmið í þeim efnum, en finnst fulllangt gengið þegar verið er að kalla fjölbrautaskólana tískufyrirbrigði. Enginn vafi er á því að fjölbrautaskólarnir eru ákaflega merkileg tilraun og merkilegt spor sem stigið hefur verið í menntaskólamálum, og ég er þess fullviss að við erum þar á réttri braut og þetta skólahald á eftir að þróast með jákvæðum hætti.

Ég ætlaði aðeins að segja nokkur orð um þetta frv. sem hér er á dagskrá. Ég skal viðurkenna að þegar skólar, sem maður sjálfur hefur alist upp í, eru á dagskrá, þá kunna tilfinningarnar að blandast inn í umræðuna og hafa áhrif á skoðanirnar. Ég geri ráð fyrir að svo sé um alla. Það er að einhverju leyti þess vegna sem ég hef fylgst með gangi þessa frv. á þessu þingi og tveim undanfarandi þingum með nokkurri athygli og áhuga, og það er kannske þess vegna sem mér leiðist þegar þm. reka hornin í þetta frv. og tala um viðskiptamenntun með lítilsvirðingu.

Hv. þm. Jónas Árnason féll sem oftar í þá gryfju að hræsna fyrir alþýðuhreyfingunni og upphefja Samvinnuskólann á kostnað Verslunarskóla Íslands. Þetta er að sjálfsögðu mjög ómaklegt, bæði fyrir Samvinnuskólann og Verslunarskólann. Þessir skólar eiga sér langa sögu, þeir standa á gömlum merg og hafa vissulega gegnt mjög merkilegu hlutverki í skólasögu Íslands og þá vitaskuld mest í þeirri menntun og þeim störfum sem námið þar snýst um. Ég vil taka fram vegna tilefnis frá hv. þm. Jónasi Árnasyni um að skólar eigi ekki að vera of lengi á hverju ári, sem ég er honum sammála um, þá minni ég á að í Verslunarskóla Íslands hefur það tíðkast um mjög langt árabil að hafa námið þar styttra en í öðrum skólum, og ég sem nemandi þar naut góðs af því að komast fyrstur á vinnumarkaðinn og út í sveit þegar ég var unglingur og geta verið þar lengur en aðrir nemendur á hverju ári. Ég held að sá háttur sé enn þá hafður á í þessum skóla, að hafa námið styttra en gengur og gerist í öðrum skólum, og ég held að það sé til góðs.

Ég fagna að sjálfsögðu frv. þessu, en tel að það sé fullseint á ferðinni, vegna þess að þetta frv. hefur verið hér fullmótað, eins og það a.m.k. liggur fyrir núna, á tveimur undanfarandi þingum og var komið langleiðina með að fá afgreiðslu hér á síðasta þingi, en ekki vannst til þess tími, Ég hefði því haldið að það hefði mátt flytja fyrr á þessu þingi því að það er orðið mjög brýnt að fá frv. samþykkt.

Það má vel vera að einhverjir hafi ímugust á viðskiptamenntun og telji hana vera lítilfjörlegri eða eigi minni rétt á sér en annars konar menntun í þjóðfélaginu. Ég læt mig engu varða um það, vegna þess að sjálfur er ég sannfærður um og veit að þessi menntun stendur annarri menntun fyllilega á sporði og á nákvæmlega sama rétt á sér. Ef þjóðfélagið og fræðsluyfirvöld hafa á annað borð áhuga á því að hér sé sæmilega menntuð viðskiptastétt, fólk í verslunarstörfum, verður auðvitað að kenna viðskiptafræði eins og önnur fræði í skólum landsins. Ég leyfi mér að fullyrða að ef ekki verður núna brugðist skjótt við varðandi báða þessa skóla, Samvinnuskólann og Verslunarskólann, þá er fyrirsjáanlegt að þeir munu leggjast niður. Þessir skólar munu leggjast niður vegna fjárhagserfiðleika. Svo langur er halinn orðinn og svo erfiður. Um leið og ég geri mér grein fyrir því að það kostar fé fyrir ríkið að taka þátt í rekstri þessara skóla, meira heldur en nú er, þá spyr ég: Hvað mundi það kosta fyrir ríkið ef þessir skólar yrðu lagðir niður og þá að þurfa a.ð eyða fé til að setja sambærilega skóla á stofn og til þess að reka þá alfarið? Er ekki nokkurs virði sú reynsla, sem fengist hefur í þessum skólum á undanförnum áratugum, og er það ekki nokkurs virði fyrir fræðsluyfirvöld að fá til afnota þær skólabyggingar og það starfslið sem nú þegar er fyrir hendi í þessum skólum? Ég held að svo sé. Ég held að það sé ósanngjarnt og stafi af skilningsleysi eða einhverjum öðrum annarlegum ástæðum þegar þm. fetta fingur út í þetta frv.

Á síðasta þingi gerði menntmn. Nd. breytingar á frv. og lagði fram sínar till. þér að lútandi sem komu nokkuð til móts við það sjónarmið, sem m.a. kom fram í máli hv. þm. Svövu Jakobsdóttur. (Gripið fram í.) Nei meiri hl. menntmn. lagði fram till. sem komu til móts við þessi sjónarmið. Þær snerust í fyrsta lagi um að menntmrh. tilnefndi fulltrúa í stjórn skólanna og í öðru lagi að ef þessir skólar legðust niður eða húsnæði þeirra yrði hagnýtt með öðrum hætti en í þágu skólanna, að þá fengi ríkið eignaráð yfir hlutaðeigandi húsnæði í samræmi við stofnkostnaðarframlög sín. M.ö.o.: þarna var ætlunin að tryggja að menntmrn. hefði fullkomna aðstöðu til að fylgjast með rekstri skólans og í öðru lagi að það fé, sem rynni úr ríkissjóði, kæmi þá til góða ef til þess kæmi að skólarnir yrðu lagðir niður í núverandi formi og af núverandi eignaraðilum. Þetta hlýt ég að minna á, vegna þess að ég hef talið að það hefði verið eðlilegra að frv. hefði verið lagt fram nú með þessum breytingum. Ég vona að ég þurfi ekki að skilja framlagningu frv. svo að hæstv. ráðh. hafi verið andvígur þessum breytingum.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta, herra forseti, að sinni. Ég vek athygli á því að í fréttabréfi frá menntmrn., sem dagsett er í febrúar, kemur fram að í verslunarskólum, og geri þá ráð fyrir að þar sé átt við Samvinnuskólann og Verslunarskólann, hafi verið rétt tæplega 340 nemendur á síðasta skólaári. Það er með allra hæsta nemendafjölda sem gerist í framhaldsskólum. Þessi tala mundi sennilega vera miklum mun hærri ef aðgangur að þessum skólum væri ekki mjög takmarkaður vegna rekstrarörðugleika skólanna. Þetta gefur vísbendingu um að ungt fólk sækir í þessa menntun og þjóðfélagið hefur þörf fyrir hana. Auðvitað á það, að vera hlutverk okkar hér á hinu háa Alþ. og skylda okkar að koma til móts við þessar þarfir þjóðfélagsins og greiða fyrir þessari menntun með nákvæmlega sama hætti og allri annarri menntun í þessu landi.