09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

146. mál, virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal

Fyrirspyrjandi (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir glögg svör við fsp. mínum. Það sem vakti athygli mína af hans svörum var í fyrsta lagi það að þess er að vænta í þessum mánuði eða þeim næsta að menn verði í stakk búnir til þess að taka ákvarðanir um virkjun Bessastaðaár- eða ég vildi heldur kalla Fljótsdalsheiðarvirkjunar því að þessi virkjun byggist fyrst og fremst á miðlun á Fljótsdalsheiði, kannske fullt eins mikið eða meira en á sjálfri Bessastaðaánni.

Í öðru lagi kom fram í svari hæstv. ráðh. að svo lítur út sem virkjun Bessastaðaár gæti orðið með þeim hætti að hún væri ákaflega hagstæð virkjun til þess að þjóna því markmiði að framleiða rafmagn inn á landskerfið, að hún gæti þjónað sem toppstöð á þann hátt að það yrði safnað saman vatni á Fljótsdalsheiði á þeim tímum þegar Þjórsárvirkjanirnar hafa nægilegt vatn og nota síðan á þeim tíma þegar Þjórsárvirkjanir hafa takmarkað rennsli. Á þann hátt mætti nýta Fljótsdalsvirkjun inn á landskerfið þannig að það sparaði ef til vill verulega fjármuni vegna þess að það væri hægt að fresta eitthvað stórum virkjunum sem eru fyrirhugaðar, eins og t.d. Hrauneyjarfossvirkjun.

Ég hef fengið í hendur álitsgerð ráðgefandi verkfræðinga, þeirra Helga Sigvaldasonar, Skúla Jóhannssonar og Gunnars Ámundasonar, sem hafa unnið að athugunum á þessu fyrir Rafmagnsveitur ríkisins, og þeir komast að þeirri niðurstöðu, sem er raunar í aðalatriðum sú sama sem kom fram hjá hæstv. iðnrh. þó að hann nefndi ekki alveg tiltekna möguleika af skiljanlegum ástæðum, — þeir komast að þeirri niðurstöðu að með því að virkja 60 mw. virkjun á Fljótsdalsheiði og tengja hana við landskerfið, þá væri hugsanlega hægt að fresta framkvæmd eins og Hrauneyjarfossavirkjun um 2–3 ár, en það er vitanlega stórt mál með tilliti til þess að talið er að Bessastaðaárvirkjun mundi kosta milli 5 og 6 milljarða, en aftur á móti Hrauneyjarfossvirkjun mundi kosta líklega á milli 18 og 19 milljarða. Ef hægt væri að ráðast svolítið seinna í þá virkjun, þá væri hægt að spara mikið fé af skiljanlegum ástæðum.

Auk þess er kannske vert að hafa í huga að það er auðvitað mikið öryggisleysi fólgið í því fyrir hin þéttbyggðu svæði hér í kringum Reykjavík að þurfa að byggja algjörlega á línulögnum af þessu svæði yfir Suðurlandið, allt úr einni átt, og það væri víss trygging fólgin í því fyrir þetta svæði að geta byggt að einhverju leyti á raforku sem kæmi úr öðrum áttum. — Ég vildi aðeins minnast á þetta vegna þess að mér finnst þetta mjög athyglisvert og er mjög ánægður yfir að þessi rannsókn hefur beinst einnig inn á þessar brautir, að hún er ekki einvörðungu bundin við Austurlandið, heldur einnig í leiðinni við þann möguleika að það væri hugsanlegt að virkja stærri virkjun en nauðsynleg er í svipinn fyrir Austurland með það í huga að hún gæti þjónað sem toppstöð fyrir landskerfið í heild.