09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

311. mál, bæklunarlækningadeild Landspítalans

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Í febrúarmánuði 1972 tók til starfa á Landsspítalanum ný deild, bæklunarlækningadeild. Þær aðgerðir, sem þessi nýja deild átti að framkvæma, voru að nokkru leyti áður framkvæmdar í handlækningadeild þessa sama sjúkrahúss. Deildin hefur í þjónustu sinni mjög góða lækna sem standa fullkomlega jafnfætis læknum í þessari grein í Vestur-Evrópu. Áður en deildin tók til starfa urðu ýmsir bæklunarsjúklingar að fara til erlendra sjúkrahúsa til aðgerða. Og því má slá föstu að þeir hafi verið æðimargir sem enga læknismeðferð tókst að fá við þær aðstæður sem hér voru áður en þessi deild tók til starfa. En brátt kom í ljós að aðsóknin og þörfin var mjög mikil fyrir slíka stofnun. Þegar deildin tók til starfa fékk hún í hendur biðlista frá handlækningadeild Landsspítalans, en á þessum lista voru 236 sjúklingar. Í ársbyrjun 1973 var biðlistinn kominn upp í 430 og þó höfðu verið gerðar 465 aðgerðir 1972. Í ársbyrjun 1974 var biðlistinn orðinn 614, en aðgerðir 1973 voru 576. 1. jan. 1975 var biðlistinn orðinn 708, en aðgerðir 1974 733. Og nú er þessi biðlisti kominn upp í 769, en á síðasta ári voru framkvæmdar 777 aðgerðir eða 201 fleiri en 1973, án þess þó að deildin hefði fengið aukið húsrými til umráða.

Þegar þessi deild hóf starfsemi sína fékk hún 23 rúm til afnota og árið eftir til viðbótar 10 rúm, en síðan hefur engin viðbót fengist þrátt fyrir margendurteknar tilraunir til þess. Erlendis er talið að til slíkra aðgerða sem á þessari deild eru framkvæmdar þurfi fjöldi rúma að vera um 0.5 0/00 af þeim íbúafjölda sem deildin á að þjóna. Hér mundi því þurfa um 109 rúm. Á Borgarsjúkrahúsinu eru 15 rúm sem ætluð eru fyrir bæklunarsjúklinga, en eins og áður sagði eru á bæklunarlækningadeild Landsspítalans 33 rúm, eða samtals 48 rúm. Eftir þessu vantar 6l rúm til þess að fullnægja þörfinni á þessu sviði, enda er biðlistinn orðinn það langur til þess að komast í aðgerð á þessari deild að ekki verður við unað lengur. Munu dæmi vera til þess að sjúklingar þurfi að bíða 2 eða jafnvel 3 ár til að komast í slíkar aðgerðir.

Fólk, sem er með brjósklos eða ónýta mjaðmaliði hefur venjulega miklar og sárar þjáningar og er alveg hjálparvana og þá mun slík bið reynast flestum ofraun. Munu þess mörg dæmi að slík bið hefur brotið fólk algjörlega niður. Fyrir fólk, sem er komið um eða yfir sjötugt og veit að það þarf að bíða svo að árum skiptir til að fá sjúkrahúsvist, er alltaf sú hætta fyrir hendi að það grípi algert vonleysi og að hjálpin berist of seint. Af mannúðarástæðum er mjög brýnt, að bæklunarlækningadeild Landsspítalans fái sem allra fyrst þá aðstöðu að fólk þurfi ekki að bíða Langtímum saman eftir að komast í aðgerð, og að láta fólk, sem er á vinnualdri, bíða eftir slíkri aðgerð langtímum saman hlýtur að vera þjóðhagslega óhagkvæmt og óþolandi ástand.

Ég hef orðið þeirrar reynslu aðnjótandi að dveljast á þessari deild og sjá hvað illa margir sjúklingar hafa verið komnir er þeir lögðust þar inn, og ég var vitni að því að gerð voru hrein kraftaverk á mörgum þessum sjúklingum. Ég hef því leyft mér að bera fram þessa spurningu til hæstv. heilbr.- og trmrh: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að bæklunarlækningadeild Landsspítalans fái aukið húsrými til þess að geta án óhæfilegs dráttar gert aðgerðir á þeim sjúklingum sem til hennar leita?“