09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

311. mál, bæklunarlækningadeild Landspítalans

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér. Ef mig rekur rétt minni til. þá hreyfði hv. 2. þm. Reykn. þessu sama máli í fsp. fyrir nokkru. Það kemur í ljós nú, eins og hann greindi frá þá, 2. þm. Reykn., Oddur Ólafsson læknir, að ástandið var slæmt og grátlega lítið hefur miðað í þá átt að laga hér um, og það er tæpast verjandi. Eins og fyrirspyrjandi drap á bíða margir mikið tjón bæði á líkama sínum og sál við það ástand sem skapast hjá þessum sjúklingum og er ekki sæmandi annað en taka þetta mál til alvarlegrar athugunar og reyna að mæta þeirri eftirspurn sem er þegar biðtími er að jafnaði á annað ár og sumir miklum mun lengur eftir eðli sjúkdómsins.

Fram kom í máli hæstv. ráðh. að með eðlilegri þróun virtist vanta um 30 rúm svo að lágmarksþörf væri mætt. Held ég að hv. Alþ. ætti að taka það til athugunar eða fá um það nánari skýrslu hvað það mundi kosta — og þá auðvitað í samráði við stjórnarnefnd ríkisspítalanna — að bæta úr þessu í áföngum, segjum á 2–3 árum. Það er mikið verk og búið að standa lengi yfir að gera skipulegt átak við uppbyggingu Landsspítalans og út í það er ekki hægt að fara í þessum stutta ræðutíma, en það mun rétt vera að deildar meiningar eru innan stofnunarinnar um hvar mest þörf er til úrbóta. En mér virðist sem svo að sjúklingar, er bíða lækningar með bæklunarmein, eigi sannarlega rétt á því að vera efstir eða a.m.k. mjög ofarlega á blaði.

Ég vil þakka aftur bæði fyrirspyrjanda og hæstv. ráðh. fyrir að gefa þessar upplýsingar og vænti þess að hæstv. ráðh. líti þetta mál það alvarlegum augum að úrbætur verði gerðar á næstunni og þær undirbúnar strax.