09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (2049)

311. mál, bæklunarlækningadeild Landspítalans

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessar umr. að ráði. Það er vafalaust alveg rétt að það eru margir sem bíða tjón við það að komast ekki inn á bæklunardeild Landsspítalans. Það kom fram í svari hæstv. heilbrrh. að þessi deild mun þó ekkert einsdæmi, því miður. Sjálf rak ég mig á það s.l. sumar, er ég reyndi að greiða fyrir manni utan af landi sem að ég hygg þurfti einmitt að komast inn í þessa deild eða til svipaðrar aðgerðar og sú deild veitir og yfirlæknir þeirrar deildar sagði mér að það væru 200–300 manns sem biðu. Og þetta er slæmt ástand. Nú er það samt svo, og það vil ég sérstaklega henda á hér, að við höfum hvað eftir annað heyrt staðhæfingar fróðra manna um þessi mál um að við íslendingar ættum yfir heildina nægilegt sjúkrarými til þess að fullnægja sjúkraþörf landsmanna. Ég verð að segja, að manni hefur hnykkt við að heyra þessar upplýsingar með það fyrir augum hve oft við rekum okkur á einstök dæmi sem virðast sanna hið gagnstæða.

Ég vil þess vegna benda á það, sem ég veit að er staðreynd, að það, sem okkur vantar helst í dag, er kannske ekki fyrst og fremst fleiri sjúkrarúm, heldur breytt skipulag sjúkrahúsamála, þ.e.a.s. að það sjúkrarými, sem við eigum, sé ekki nýtt sem skyldi. Það hefur, að ég tel sem leikmaður, réttilega verið bent á að það, sem okkur vantar tilfinnanlega, eru göngudeildir við sjúkrahúsin og deildir fyrir langlegusjúklinga, því að oft á tíðum er það svo að fólk, sem í raun og veru þarf engra aðgerða við, en hjúkrunar og umönnunar, tekur upp sjúkrarými sem eru í raun og veru ætluð sjúklingum með alvarlegri sjúkdóma og jafnvel bráða sjúkdóma. Ég vil þess vegna, af því að ég veit að hæstv. heilbrrh. hefur fullan hug á að bæta þarna úr, að tekin verði til alvarlegrar athugunar uppbygging sjúkrahúsa og skipulagning í rekstri og að áhersla verði lögð á rétta þætti okkar heilbrigðisþjónustu, þá vil ég eindregið leggja áherslu á að okkar heilbrigðisyfirvöld taki þennan þátt til rækilegrar athugunar með úrbætur fyrir augum.