09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

311. mál, bæklunarlækningadeild Landspítalans

Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, en ég vil leggja áherslu á að aðgerðir sem þessar, það er ekki eðlilegt að þær séu framkvæmdar nema á einum stað á landinu. Við höfum á Landsspítalanum fjóra lækna mjög vel menntaða, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, mundu þeir geta gert miklu meira en helmingi fleiri aðgerðir en þeir gera ef þeir hefðu aðstöðu til. Og það er langur tími fyrir mann, sem er t.d. með skemmdan mjaðmarlið, að bíða í 2–3 ár, en það mun vera algengur Biðtími fyrir þessa menn. Það er alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að auðvitað verður bæklunardeildin að taka inn ýmis tilfelli, bæði ef slys verða og eins þegar kannske þarf að bjarga limum af því að aðgerð má ekki dragast, en t.d. þessir sjúklingar, sem eru þó mjög þjáðir oft á tíðum, verða að bíða þennan tíma. Ég efast ekkert um það sem hæstv. ráðh. segir í sambandi við biðina annars staðar, en það verður líka eitthvað að líta á þessi mál frá mannúðarástæðum. Ég var þarna í 5 vikur og ég sá hvernig þeir sjúklingar voru á sig komnir sem þarna komu inn, menn á kannske miðjum aldri, voru búnir að bíða tvö ár til þess að fara í svona aðgerð og eftir hálft ár voru þeir menn komnir í vinnu, þannig að þarna þyrfti áreiðanlega að gera stórt átak.

Ég skil ekki hæstv. ráðh. þegar hann er að miða við 100 þús. íbúa. Ég lít svo á að svona deild þurfi að þjóna landinu öllu, og eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér t.d. frá Norðurlöndum, þyrftu að vera a.m.k. 109 rúm til að sinna aðeins þeim aðgerðum sem eru nú gerðar á bæklunarlækningadeildinni. Þá á ég ekki við ýmis slys — alls ekki — því að beinbrot og þess háttar geta auðvitað önnur sjúkrahús annast.

Ég hef rætt þetta mál í rúmt ár við þessa lækna sem ég er nú orðinn málkunnugur þarna á handlækningadeildinni, og ég hef sannfærst um að það er gert þar allt sem hægt er til þess að drífa sjúklingana út, um leið og það er hægt, t.d. á aðra staði þar sem þeir geta jafnað sig, endurhæfingarstaði. Það líka sýnir það að þeir hafa gert 200 aðgerðum meira 1975 heldur en 1973. En þrátt fyrir það lengist biðlistinn alltaf stöðugt og er kominn, eins og ég sagði áðan, í 769 sem bíða eftir svona aðgerð.

Ég held að þetta mál þurfi meiri rannsóknar við, og ég vona það að hæstv. ráðh. athugi hvort ekki eru einhverjir möguleikar á því að sá læknahópur, sem þjónar þessari bæklunarlækningadeild Landsspítalans, geti fengið aukið rými þannig að biðtíminn styttist fyrir þetta fólk.