09.03.1976
Sameinað þing: 60. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

311. mál, bæklunarlækningadeild Landspítalans

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er sannarlega rétt að þetta er eitt af okkar stærstu heilbrigðisvandamálum og mjög torleyst vandamál. Það hefur verið rætt hér áður, eins og getið var um, og því er ekki að leyna að það liggja alveg ákveðnar ástæður til þess að úrbætur hafa ekki orðið. Í fyrsta lagi er það, að það eru þrír hópar af sjúklingum sem hér er um að ræða, sem koma til meðferðar þarna. Það eru slysin, það eru meðfædd örkuml og það eru gamalmenni. Allir þessir hópar eiga það sameiginlegt að þeir eru stækkandi: Öryrkjum vegna slysa fer fjölgandi eins og við vitum, meðfæddum örkumlum sömuleiðis, vegna þess að nú lifa miklu fleiri hlutfallslega en áður var af þeim sem fæðast með örkuml, og í þriðja lagi verður fólkið eldra og skapast hafa möguleikar á síðustu árum til þess að gera ýmislegt fyrir það sem áður var talið óhugsandi. Allt þetta veldur því að þörfin fyrir bæklunaraðgerðir hefur á fáum árum stórvaxið. Og það er að sjálfsögðu ekki bara hjá okkur sem erfiðleikar eru með að leysa úr þessum vanda. Það er líka í nágrannalöndunum, enda þótt þau séu vel stödd með sjúkrarúm. Það er rétt, að við eigum að eiga nægilega mörg sjúkrarúm í þessu landi fyrir okkar fólk, en þrátt fyrir það er ástandið slíkt að biðlistinn lengist í raun og veru alltaf á þessu sviði.

Ég er ekki sammála hv. 3. þm. Norðurl. e. í því að við eigum aðeins að gera þetta á einum stað. Það held ég að sé algjör misskilningur. Við eigum á öðrum sjúkrahúsum en Landsspítalanum bæklunarlækna sem hafa unnið áratugum saman við þetta starf og unnið það mjög vel. Ég held að ef við ætlum eitthvað að höggva skarð í biðlistann sé einasta leiðin að víkka þetta út þannig að það sé gert viðar og lögð meiri áhersla á þessar aðgerðir einmitt á þeim stöðum þar sem þær hafa verið gerðar áður, sérstaklega á Landakoti og við bæklunarlækningadeildina, og svo að til séu staðir sem þetta fólk getur komist á til endurhæfingar eins fljótt og unnt er eftir uppskurð.

Verið að gera og hafa verið gerðar verulegar tilraunir í þá átt að leysa þetta. En þörfin er mikil og þetta er sem sagt mikill annmarki í okkar heilbrigðisþjónustu. Það tekur langan tíma að byggja upp þannig að við fáum fleiri sjúkrarúm. Hitt er rétt, sem hæstv. ráðh. gat um, að ef við fáum stækkuð sjúkrahúsin í Keflavík, á Akureyri, Ísafirði og viðar úti um landið, á Selfossi, þá er enginn vafi á því, að það má vinna viss verk, sem nú eru unnin á bæklunarlækningadeild Landsspítalans, á þessum stöðum og þar með bæta ástandið í þessu efni. Ég vona að það verði gert allt sem unnt er til lagfæringa á þessu sviði á næstu árum.