09.03.1976
Sameinað þing: 61. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2467 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 77 er þáltill. flutt af þm. Alþfl. og hefur nú fyrsti flm., 9. þm. Reykv., gert grein fyrir henni hér í framsöguræðu. Ég held að það sé ástæða til í tilefni af þessu máli, sem þér er nú til umr., að víkja nokkuð að sögu þess, því að það er búið að vera í gildi hér á fjórða áratug og hafa á þeim tíma setið margar ríkisstjórnir og í þeim hafa verið þm. úr öllum flokkum. Þetta kerfi hefur verið notað með mismunandi hætti, eins og fram mun koma í því sem ég ætla að segja. Ég ætla því að byrja á því, að víkja að þessu áður en ég vík að þáltill. sjálfri.

Það fyrirkomulag, sem viðhaft er, er búið að vera á fjórða tug ára, að greiða niður verð á nauðsynjavörum og þá einkum búvörum. Upphaflega var þetta gert 1943, var valið til þess kindakjöt, nýmjólk, smjör og kartöflur. Til viðbótar voru teknar upp niðurgreiðslur á smjörlíki og saltfiski 1947, en það mun hafa verið þegar stjórn Stefán Jóhanns Stefánssonar var mynduð, og nýjum fiski árið 1957. Verð á skyri og rjóma, mjólkurosti og mysuosti var byrjað að greiða niður 1956 og hélst sú niðurgreiðsla fram til 1960. Auk þess var verð á nokkrum innfluttum vörum greitt niður í tengslum við lög um efnahagsmál frá 20. febr. 1960. Niðurgreiðslur hafa komið á heildsöluverð varanna, annarra en mjólkur og rjóma, en þar kemur niðurgreiðslan á útsöluverð.

Aðeins verð á mjólk og smjöri hefur verið greitt niður óslitið frá því að niðurgreiðslur voru hafnar. Verð á öðrum vörum, sem nefndar hafa verið, hefur verið greitt niður tímabundið. Árið 1943 voru niðurgreiðslur, svo sem fyrr er nefnt, teknar upp í föstu formi. Það ár var heimilað að leggja á svonefndan verðhækkunarskatt er kom á skattskyldar tekjur manna, hliðstætt og tekjuskattur. Skatttekjurnar átti að nota annars vegar til þess að lækka vísitölu kauplags í landinu með niðurgreiðslum á búvöruverði og hins vegar til að efla alþýðutryggingar.

Í reynd voru niðurgreiðslurnar beint framhald aðgerða er miðuðu að því marki að lækka framfærslukostnaðinn í landinu og sporna gegn ört vaxandi dýrtíð. Þessar aðgerðir hófust árið 1974 með lækkun eða niðurfellingu á tollum á nauðsynjavörum og hækkun beinna skatta og tolla á lúxusvörum. Árið 1945 var ákveðið að greiða útflutningsbætur á verð útfluttra búvara ef á þyrfti að halda. Það var gert svo að ekki þyrfti að hækka verð búvaranna innanlands til að mæta lægra verði fyrir útfluttar afurðir og einnig til að tryggja að bændur fengju það verð fyrir afurðir sínar sem þeim var þá ákvarðað, til að kjör þeirra rýrnuðu ekki meira en orðið var, en þetta ár var tekin sú ákvörðun að lækka búvöruverð til landbúnaðar um 9.4%, sem kunnugt er. Á þessu ári var horfið frá að greiða verð á kindakjöti niður í baráttu stjórnvalda við dýrtíðina, en í stað þess var tekin upp bein greiðsla til neytenda. Kjötverðshækkun var ekki látin hafa áhrif á útreikning á kauplagi í landinu, en í stað þess var greiddur til fólks ársfjórðungslega styrkur úr ríkissjóði er átti að nema til hvers einstaklings verðhækkun um 40 kr. á hvert kg af kindakjöti, svo að þessi regla er ekki ný af nálinni sem hv. 9. þm. Reykv. stakk hér upp á. Þessar greiðslur fengu þó ekki þeir sem stunduðu sauðfjárrækt, vissir atvinnurekendur og aðilar með tekjur yfir ákveðnu marki. Þetta fyrirkomulag hélst fram yfir árið 1950, en þá var verð á kjöti í vísitölu framfærslukostnaðar fært til samræmis við markaðsverð og vísitalan látin hækka til samræmis.

Árið 1947 var tekin upp skömmtun á einstökum niðurgreiddum búvörum og meðan það gilti var um tvenns konar verð að ræða. Markmið þessa fyrirkomulags var að niðurgreiðslur féllu nokkuð jafnt til neytenda, en ekki meira til þeirra sem höfðu hlutfallslega meiri neyslu á niðurgreiddum vörum. Niðurgreidda verðið gilti við útreikning á vísitölu framfærslukostnaðar eftir nánari reglum þar um. Niðurgreiðsla verðs gegn skömmtunarseðlum hélst lengst á smjöri, en var felld niður 1960.

Til þess að gera ljósa þróun niðurgreiðslna á helstu búvörum eftir 1950 skal ég taka dæmi þar um. Til hliðsjónar til að meta gildi þeirra fylgir þróun vísitölu framfærslukostnaðar sömu ár. Ber þó að nefna við þann samanburð að neikvæð fylgni er milli vísitölu framfærslukostnaðar og upphæðar niðurgreiðslu hverju sinni. Háar niðurgreiðslur þýða lægri framfærsluvísitölu og öfugt. Þau ár, sem sérstaklega skera sig úr — og nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir, — þau ár, sem sérstaklega skera sig úr um samanburð á niðurgreiðslum við framfærslukostnað, eru árin 1959, er Alþýðuflokksstjórnin sat, 1964, 1967 og 1971. Öll þessi ár er gildi niðurgreiðslna verulega umfram meðaltalið. Til þess að gera hér nokkurn samanburð á verða raktar í stuttu máli orsakir þessa mismunar og gefnar nokkrar hugmyndir um reikningslega niðurfærslu á vísitölu framfærslukostnaðar hverju sinni með niðurgreiðslu á vöruverði, Þar á undan skal minnst á tvennt: Í fyrsta lagi, að grundvöllur vísitölu framfærslukostnaðar er föst stærð sem sýnir samsetningu á neyslu ákveðinnar fjölskyldueiningar ákveðið ár. Með þeirri þróun á neysluvenjum, sem var og er, hlýtur sá grundvöllur að skekkjast og einkum á þann hátt að matvöruþáttur minnkar hlutfallslega ár frá ári. Það leiðir hins vegar til þess að niðurgreiðslur á verði matvaranna fá með árunum og óbreyttum grundvelli reikningslega meira vægi í framfærslukostnaði neytenda en þær höfðu í hans daglegu neyslu. Grundvöllur þeirra vísitalna framfærslukostnaðar, sem nefndar verða, er frá 1. mars 1950, 1959 og 2. jan. 1968. Í öðru lagi, að kaupgjald og allir verðútreikningar tengdir framfærslukostnaði í landinu eru gerðir eftir vísitölu framfærslukostnaðar og því eru áhrif niðurgreiðslnanna sem hagstjórnartækis þau sömu og útreiknuð áhrif þeirra hverju sinni á reiknaðan framfærslukostnað. Við eftirfarandi útreikning á áhrifum niðurgreiðslna á framfærsluvísitölu er reiknað með að smásöluálagning héldist óbreytt þó að þær yrðu afnumdar. Í reynd var og er hins vegar höfð hliðsjón við ákvörðun smásöluálagningar á búvöru af því, að hækkandi verði fylgir meiri rýrnunarkostnaður.

Í okt. 1950 er reikningsleg áhrif niðurgreiðslna á reiknaðan framfærslukostnað þau, að með niðurgreiðslum á búvörum er greitt 4.91 vísitölustig og á öðrum neysluvörum 2.43 eða samtals 7.34 stig. Framfærslukostnaður án niðurgreiðslna hefði þá orðið 130 stig og nam niðurgreiðslan samkvæmt þessu 5.7% af honum. Lækkun útgjalda af matvörukaupum vegna, niðurgreiðslna nam hins vegar 11.2%. Þetta hlutfall hélst að miklu leyti óbreytt fram undir 1956, en þá fóru niðurgreiðslur ört hækkandi.

Árið 1959 voru niðurgreiðslur auknar mjög verulega sem líður í umfangsmiklum efnahagsráðstöfunum er hófust það ár. Sá niðurgreiðsluauki, sem ákveðinn var það ár, átti að lækka vísitölu framfærslukostnaðar úr 220 stigum í 212 stig eða um 3.6%. Árið 1960 hækkuðu niðurgreiðslur að gildi frekar en lækkuðu og voru í okt. það ár jafngildi 11.2 stiga í vísitölu framfærslukostnaðar. Lækkun á vísitölu framfærslukostnaðar vegna þessa nam 10% og lækkun á matvörum í vísitölunni 22.5%. Lækkunin skiptist þannig að með niðurgreiðslum á búvöru voru greidd 8.5 stig, með lækkun á öðrum matvörum: smjörlíki, kaffi, fisk o.fl. 2.5 stig og með niðurgreiðslu á verði innfluttra fóðurvara og áburði 1/2 stig. Þessum niðurgreiðslum, sem voru hafnar á verði innfluttra vara, var ætlað að vega á móti miklum hækkunum á verði þeirra sem urðu vegna lækkunar gengis þetta ár. Frá þeim tíma og fram á seinni hluta ársins 1964 fóru niðurgreiðslur lækkandi að verðgildi og voru í maí það ár niðurgreidd 10 vísitölustig eða 5.8%.

Eftir það fóru þær vaxandi og náðu hámarki 1967 sem bein afleiðing af verðstöðvuninni sem hófst í lok ársins á undan. Til marks um það er að í jan. 1967 voru niðurgreidd reikningslega séð 24.7 stig af vísitölu framfærslukostnaðar, en samkv. því hefði hún átt að vera án niðurgreiðslna 220 stig, lækkunin nam því 11.2%. Lækkun matvörukostnaðar í vísitölunni vegna þessara niðurgreiðslna nam hins vegar 22.6%

Í árslok 1967 hófst á ný breyting á niðurgreiðslum og í ársbyrjun 1968 var búið að lækka niðurgreiðslur ívið meira miðað við verðgildi en hækkun þeirra nam fyrrnefnt tímabil og héldust þær að því marki fram undir árslok 1970, en þá er á ný hafin verðstöðvun með hækkun á niðurgreiðslum.

Eftirfarandi tölur sýna niðurgreiðslur á framfærsluvísitölu og vísitölu matvöru í þeirri vísitölu í stigum og prósentum í febrúar ár hvert síðan 1968. Niðurgreiðslur hafa einnig komið á búvöruverð þessi ár. Í febr. 1968 eru þetta 4.14 stig eða 3.9% á framfærsluna, en hins vegar 15.50 stig á matvöruna og 13.3% 1969 eru líka 4.14, 3.3% aftur í prósentutölu, 15.50 stig í matvörunni, en 11.2% af verðgildi hennar. 1970 eru það líka 4.14 stig, þá er prósentan 2.9, 15.50 er svo stigið í matvörunni, en þá er það að verðgildi 9.7. 1971 fer þetta upp í 10.40 stig eða 6.4%, 38.9 af matvörunni og 9.7% af verðgildi hennar. 1971 eru þetta 10.40 stig, fl.4, 38.9 og 20.1 stig aftur prósenta af matvöru. 1972 er þetta 11.6 stig, 6%, 41.4, 40 stig og 20.2% af matvörunni. 1973 er þetta 16.15, 8.1%, 60.45 af matvöru og 23.4. 1974 er þetta 15.9, 5.9%, 56 af matvöru og 16.3% af henni.

Fram kemur að reikningslegt gildi niðurgreiðslnanna á niðurfærslu matvöruverðs var orðið með lægra móti í ársbyrjun 1970, enn lægra en það var í okt. 1950. Í febr. 1971 eru áhrif þeirra tvöfölduð miðað við árið á undan og vaxa fram til 1973, en dragast saman á næstu árum.

Önnur aðgerð af opinberri hálfu til að færa niður verðlag í landinu er niðurfelling söluskatts af einstökum nauðsynjavörum. Þær búvörur, sem söluskattur var felldur niður af, voru mjólk og mjólkurafurðir og kartöflur. Aðrar nauðsynjavörur, sem voru valdar, hafa verið t.d. fiskur, dagblöð, olía, heitt vatn til húshitunar o.fl.

Svo sem fram hefur komið eru breytingar á niðurgreiðslum á búvöruverði og verði annarra nauðsynja fyrst og fremst tengdar efnahagslegum ráðstöfunum hverju sinni. Niðurgreiðslur eru í eðli sínu andstæða tolla í því að með þeim er verið að lækka verð ákveðinnar vöru til neytenda á kostnað ríkisins í stað þess að leggja á tolla í tekjuöflunarskyni. Af því ætti að leiða hliðstæð sjónarmið ríki við val á vörum til niðurgreiðslu og vörum með hátollum. Þar kemur fyrst og fremst til álita hve nauðsynleg varan er neytendum, í öðru lagi hvort dreifingarkerfið getur tekið ábyrgð á að framkvæmd þessara aðgerða sé án misferla. Hvort tveggja þessara atriða mæla með, sé talin nauðsyn á að greiða niður verðlag, að mjólk og mjólkurafurðir séu valdar, og dreifingaröryggi mælir einnig með því að kindakjöt sé valið fremur en fiskur.

Áhrif af niðurgreiðslum á búvöruverð eða verð annarra neysluvara er tvenns konar. Annars vegar snerta þær hag neytenda við það að við niðurgreiðslu lækka vörurnar í verði sem magn vörunnar kostar minna en áður, en á móti því er aukin gjaldheimta ríkisjóðs. Hins vegar geta niðurgreiðslur á verði ákveðinnar vöru haft áhrif á hag framleiðenda ef um þröngan markað er að ræða fyrir viðkomandi vöru og ef kaup á vörunni er háð verðlagi hennar. Hin síðar nefndu áhrif eru yfirleitt háð því, hvort til staðar eru skyldar vörur sem neytendur geta horfið til eða frá með kaup á við verðbreytingu, og því, hvort umrædd vara er svokölluð nauðsynjavara eða háð neyslu fólksins. Hér má t.d. taka mjólk annars vegar og kindakjöt hins vegar. Áhrif verðbreytinga á neyslumjólk eru almennt talin mjög lítil þar sem ekki er um aðrar vörur að ræða hliðstæðar mjólk og mjólkin er nauðsynleg í daglegum kosti. Um kindakjöt gegnir nokkuð öðru máli. Margar tegundir kjöts, annars en kindakjöts, er um að ræða fyrir neytendur. Einnig getur fiskur komið í stað kjöts. Almennt má segja um áhrif búvöruverðs á sölu að þau séu lítil og fari lækkandi við það að kaupmáttur fólks fer sívaxandi og útgjöld til búvörukaupa af heildarútgjöldum fara því minnkandi. Hins vegar munu þessi áhrif verðsins á kaup fólksins á búvöru misjöfn hjá fjölskyldum með misjafnar tekjur til ráðstöfunar og þannig að verðbreytingar ráða meiru um kaup fjölskyldna á búvörum, sem hafa lægri tekjur, en hjá hinum tekjuhærri.

Þessu vil ég vekja athygli hv. 9. þm. Reykv. á, að neytendur komast yfirleitt ekki hjá því að kaupa mjólkina þó að hún sé í nokkuð háu verði og þess vegna hefur þetta veruleg áhrif.

Með hliðsjón af því, að tekjuöflun hins opinbera fer að miklu leyti eftir efnahag fólks, virðist hagur fyrir lágtekjufjölskyldurnar að niðurgreiðslunum. Ef meta skal jákvæð áhrif niðurgreiðslna á hag búvöruframleiðenda verður dæmið flóknara. Þá koma til álita áhrif þeirrar verðlækkunar, sem niðurgreiðslurnar valda, á það magn, sem innlendi markaðurinn tekur á móti, og hvort sú markaðshækkun er lítils eða mikils virði fyrir framleiðendur. Þar á móti vegur svo röskun á sölumagni frá einu ári til annars sem mismiklar niðurgreiðslur geta valdið ef áhrif þeirra eru veruleg á sölumagn, og einnig eru þau áhrif neikvæð bændum sem niðurgreiðslur geta haft í kaupgjaldsvísitölunni. Þá hafa áhrif niðurgreiðslna á eftirspurn og framboð búvara verið fólgin í því að sporna gegn breytingum á neysluháttum. Til dæmis má taka að ómögulegt hefði reynst að taka upp nokkra niðurgreiðslu á verði nautakjöts fyrr en það var gert í sumar þó að æskilegt hefði talist að gera það, þar sem magn af því í grundvelli fyrir vísitölu framfærslukostnaðar var verulega minni hluti þess í daglegri neyslu. Þar af leiðandi kostaði niðurfærsla á verðlagi með niðurgreiðslu margfalt meira en væri grundvöllurinn réttur. Þetta mun hafa verið þannig að stigið í nautakjötinu kostaði um 600 millj., en í kringum 200 í dilkakjötinu.

Sé litið á þróun þessara mála á s.l. áratug og reynslu er innlendur markaður og sá markaður utanlands, sem útflutningsbótum er studdur, nægur fram undir 1966 þrátt fyrir mjög öran vöxt á framleiðslu búvöru, einkum mjólkur. Að svo var má að einhverju leyti rekja til hækkunar á niðurgreiðslum fram á árið 1967, svo sem áður er fram komið. Við stórlega lækkun á niðurgreiðslum á næstu árum vegna lækkandi ráðstöfunartekna dró úr neyslu á búvörum innanlands og það svo að misvægi komst á milli framleiðslu og markaðar. Við það urðu útflutningsuppbætur ónógar verðlagsárin 1967–1968 og 1968–1969. Bændur fengu ekki grundvallarverð fyrir afurðir sinar. Á ný komst á jafnvægi milli markaðs og framleiðslu 1969–1970 og við bættan hag almennings og stórauknar niðurgreiðslur árið 1971. Jókst þá búvöruneyslan á ný svo að jaðraði við að framleiðsla á mjólk yrði ónóg þá mánuði sem hún var minnst.

Önnur áhrif á hag bænda af niðurgreiðslum eru þau að þær koma á óbeinan hátt í stað kaupgjalds. Í þau skipti sem verðlag og þar með kauphækkun hefur verið stöðvað með niðurgreiðslum hafa þær verðbætur, sem niðurgreiðslurnar eru, aðeins að hluta eða tiltölulega litið fallið til bænda. Nær allur niðurgreiðsluauki á mjólk hefur ekki komið þeim til hagsbóta sem öðrum þjóðfélagsþegnum, þar sem bændur neyttu yfirleitt mjólkur sem þeir framleiddu sjálfir, en á þessu mun nú vera einhver breyting orðin.

Af þessu má sjá að gildismat niðurgreiðslna frá einstökum sjónarhornum er erfitt. Þær raska verðhlutföllum milli einstakra vara og eðlilegum framleiðslukostnaði þeirra og hafa meiri og minni áhrif á vöruval neytenda ótvírætt, þó að notkun þeirra sem hagstjórnartækis yfirskyggi allt mat á áhrifum þeirra á öðrum sviðum, jákvæðum sem neikvæðum framleiðendum eða neytendum búvara.

Svo sem áður er nefnt var komið föstu formi á útflutningsbætur á verð útfluttra vara 1960. Það var meginsjónarmið, sem ríkti við setningu reglna þar um, að framleiðslan umfram innlenda markaðsþörf gæti verið það rúm eða afurðir sem þyrfti að greiða útflutningsbætur af, að þrátt fyrir sveiflur í markaði eða árferðisáhrif á framleiðslu, þá verði jafnan til nægilegt magn af neysluvörum innanlands. Það, sem einkum hefur ráðið upphæð útflutningsbóta hverju sinni auk magns útflutningsins, er sá hluti framleiðslukostnaðar sem greiða þarf niður, og hefur það ráðist af stöðu verðlags hérlendis og erlendis, hagkvæmni þeirra markaða á búvöru erlendis. T.d. má nefna að innganga í EFTA opnaði markaði fyrir íslenskt dilkakjöt í Svíþjóð og Noregi sem gáfu 115% hærra meðalverð en markaður í Bretlandi sem var aðalmarkaður fram að þeim tíma.

Þetta er í stuttu máli saga þessara mála sem ég hef hér vikið að og er að finna í þessari till. og fyrst og fremst í grg. þeirra hv. flm. sem að henni standa.

Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því, sem hv. 9. þm. Reykv. vék hér að, að niðurgreiðslur kæmu bændum að óbeinum notum. Það þýðir það einnig, að það verður að gæta hófs um meðferð á þeim, því að sveiflur í niðurgreiðslum eru mjög hættulegar fyrir bændastéttina sem þarf að selja sínar vörur, eins og ég hef þegar bent á. Auk þess er bað svo að fram undir þetta hafa framleiðendur orðið að kaupa þessar vörur dýrara verði en þeir sem hafa getað notið niðurgreiðslnanna.

Þá kom það fram í ræðu hv. þm. að niðurgreiðslur hér á landi væru miklu hærri en gerðist hjá öðrum löndum í nágrenni við okkur. Þær eru ekki meiri en í nágrannalöndum okkar, eins og í Noregi og Svíþjóð. Niðurgreiðslurnar hafa stöðugt sveiflast í hlutfalli við heildarverðmæti búvara. Þegar hefur þurft að hægja á verðlagshækkunum hafa þær gjarnan numið um 25%. 1960 námu þær í Noregi 27% og í Svíþjóð 22%. 1961 námu þær hins vegar 32%. 1964 voru þær aftur komnar niður í 18% og 196'9 niður í 12%.

Þá talaði hv. 9. þm. Reykv. um það hvað niðurgreiðslurnar væru orðnar mikill hluti af framfærslukostnaði og af ríkisútgjöldum núna. Það mun vera svo að ráðstöfunartekjur heimilanna í ár má ætla að verði 130–135 milljarðar. Niðurgreiðslur verða um 3.5 milljarðar miðað við það sem er á fjárl. nú. Ef litið er á þetta frá fyrri árum, þá eru niðurgreiðslur á ríkisreikningnum 1960 23.8 millj. eða 1.8%. 1961 eru þær 25 millj. eða 1.7%. 1962 eru þær 40 millj. eða 2.3%. 1963 eru þær 75 millj. eða 3.5%. 1964 209 eða 5.5. 1965 eru þær 178 eða 5:2. 1966 eru þær 21 7 eða 5.6. 1967 eru þær 229 eða 4.9. 1968 eru þær 3.7%. Þetta eru útflutningsbæturnar sem ég er hér með nú. 1970 eru þær 332 millj. eða 3.2%. 1971 eru útflutningsbætur 404 millj. eða 3%, 1972 378 millj. eða 2.l%. 1973 eru þær 438 millj. eða 1.7%. 1974 eru þær 927 millj. eða 2.3%. Og það er gert ráð fyrir því, ef þær yrðu núna um 900 millj. að þá yrðu þær 1.5%.

Þegar þetta er borið saman kemur í ljós að það er ekki rétt, sem hv. 9. þm. Reykv. reiknaði út, að hér væri um vaxandi tölur að ræða, því að auðvitað er ekki hægt að miða við krónutöluna í þessu tilfelli heldur verður það að vera hlutfallið, og ef við tökum samanlagt þessi ár niðurgreiðslur og útflutningsbætur, þá eru þær 27% 1960, 22% 1961, 22% 1962, 19% 1963, 18% 1961, 20% 1965, 21% 1966, 20% 1967, 12% 1968, 10% 1969, 10% 1970', 15% 1971, 11% 1972, 10'% 1973 og 11% 1974 og mundu verða 9% núna miðað við þær tölur sem eru í fjárlögum. Það er því ekki rétt að hér sé um vaxandi útgjöld að ræða, eins og hv. 9. þm. Reykv. vildi vera láta.

Þá kom hv. 9. þm. Reykv. að því að svína- og alifuglaframleiðsla væri ekki greidd niður eins og dilkakjöt. M.a. er það um þá vöru að segja að hún hefur ekki verið í vísítölunni. Það hefur ekki verið ákveðið verðlag á henni, heldur hefur það verið frjálst. Auk þess hefur framleiðsla á svínakjöti og alifuglakjöti notið þess að lágir tollar sem engir eru á fóðurbæti, en innfluttur fóðurbætir er aðalfóður þessara tegunda.

Út af því, sem hv. 9. þm. Reykv. talaði um að það væri betra að fólk fengi þessa peninga í hendurnar og mætti ráðstafa þeim, þá var í sambandi við það, sem aðilar vinnumarkaðarins fóru fram á í haust í þessu sambandi, reiknað út hvaða áhrif það hefði ef hætt væri að greiða niður og menn gætu notað þetta eftir frjálsu vali. Þá kom í ljós að þetta þýddi verðhækkun upp á röskar 600 millj, kr. vegna þess að það breytti álagningu og fleiru í sambandi við sölumeðferð þessara vara. Auk þess er það svo, að ég fæ ekki skilið að þetta ætti frekar að snerta lágtekjufólkið heldur en hátekjufólkið, því að mér sýnist að með því að fá þessar krónur í hendurnar væri alveg eins hægt að fara til Mallorka eða eitthvað annað því um líkt fyrir þessar krónur, sem íslenskar vörur eru keyptar fyrir, svo að við slíkt frjálsræði sem þar væri, þá værum við komnir nokkuð af leið um höfuðtilganginn um að hafa áhrif á efnahagsstefnuna.

Þá vil ég einnig benda á það, og það er að ég held að dómi allra, að það eru fjölmennustu heimilin, barnmörgu heimilin sem nota mest af mjólkinni, og hún er sú vörutegund sem mest er greidd niður. Þess vegna sé ég ekki annað að þeir, sem hafa eðlilega dýrasta heimilishaldið, njóti mest í þessu, og ég sé ekki að það sé hægt að telja þetta fráleitara en ýmsa þætti tryggingamálanna sem eru líka frjálsir og sumir njóta, en aðrir ekki. Auk þess veit ég ekki betur en að skattgreiðsla kæmi þá til af þessu, ef þetta væri greitt beint, og yrði þá sá, sem njóta ætti, að greiða aftur til ríkisins hluta af þeim tekjum sem hann þannig fengi.

Þessu vona ég að hv. 9. þm. Reykv. og þeir Alþfl.- menn átti sig á þegar þeir fara að skoða þetta mál betur en enn hefur verið gert. Ég held að það sé á algjörum misskilningi byggt að það séu þeir betur settu sem njóti meira í þessu tilfelli. Ég held að það sé alveg öfugt.

Þá kom hv. 9. þm. Reykv. að því að framleiðsía á landbúnaðarvörum hefði aukist verulega á síðustu árum. Það er um það að segja að málið stendur þannig nú að allt útlit er fyrir að við verðum að flytja smjör inn í landið. Eins og nú horfir er smjör á þrotum og það hefur verið lögð fram beiðni hjá landbrn. um leyfi til að flytja inn smjör. Það verður nú eitthvað dregið og skoðað vel áður en gert verður. En ég vil líka vekja athygli á því að þær útflutningsvörur okkar, sem mest hækkun varð á að undanteknum sjávarafurðum á s.l. ári, voru ullarvörur og skinnavörur. Og það er talið að með tiltölulega lítilli hagræðingu væri hægt að ná því magni af útfluttum ullar- og skinnavörum að það jafngilti útflutningi álverksmiðjunnar. Það þarf ekki nema að fjórfalda það til þess að ná því marki. Þetta er tiltölulega auðvelt. Eitt af því, sem er verið að athuga nú, er einmitt að reyna að hagnýta sér þetta með því að færa verð á milli ullar og gæru annars vegar og kjöts hins vegar til þess að gera þessar vörur hagkvæmari í útflutningi. En það vita allir, sem til þekkja — og þarf ekki mikið til að þekkja, að við flytjum ekki út ull eða gærur ef því fylgir ekki kjötskrokkur. Það er ekki hægt að framleiða ull og gærur án þess að kjöt sé með.

Það er einnig um kjötið það að segja, að á s.l. ári og það sem af er þessu ári hefur á vegum landbrn. verið unnið verulega að því að reyna að leita eftir markaði fyrir dilkakjötið og nú er unnið að því víðar að gera það og ég geri mér vonir um að það takist að ná þar árangri ef vel er að gengið. T.d. hefur rn. leitað eftir og er verið að athuga möguleika á þessu bæði í ítalíu, Frakklandi, Austurríki, Þýskalandi, og það er talið að verð á dilkakjöti og dilkakjötsneysla í Frakklandi og á Ítalíu sé mjög hagstæð. Að vísu er það að athuga að þetta eru Efnahagsbandalagslönd og það getur auðvitað valdið okkur verulegum erfiðleikum í framkvæmdinni, en það má samt ekki verða til þess að við reynum ekki að vinna að þessu máli eins og frekast er kostur á.

Eins og áður hefur komið fram í ræðu minni var á s.l. ári fært á milli dilkakjöts og nautakjöts til þess að gera hagkvæmari söluna hér innanlands. Nú er verið að vinna að því að færa á milli ullar og gæru og dilkakjötsins, og það er einnig verið að athuga möguleika á því hvort hagkvæmt reynist að borga niður vöruna á frumstigi eins og áburðinn, en ekki sölustigi, eins og gert hefur verið.

Áður en ég lýk máli mínu, sem ég þarf nú að fara að gera því að ég er búinn að vera nokkuð langorður, þá vil ég vekja athygli á því að ef niðurgreiðsla er borin saman við framfærslukostnað, þá var hún 1950 5.7% af framfærslukostnaði, 1959 þegar Alþfl.- stjórnin sat, var hún 10%. Seinni hluta árs 1964 var hún 5.8. Í janúar 1967 var hún 11.2 og er það hæst. 1968 er hún 3.9%. 1969 er hún 3.3%. 1970 er hún 2.9%, 1971 6.4%, 1972 6.6%, 1973 8.1%, 1974 5.9% og 1976 7.6%. Þessu vil ég vekja athygli á til að sýna fram á, að það er ekki rétt að þessi útgjöld fari vaxandi nema í krónutölu, en ef lítið er á verðmæti framfærslukostnaðar fjölskyldunnar eða á fjárl. í heild, þá eru þau lægri prósenta en verið hefur. Þetta bið ég hv. þm. að hafa í huga.

Ég verð að segja það að lokum að ég sé ekki að nefnd sú, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason og félagar hans í Alþfl. leggja til að skipuð verði, muni breyta nokkru hér um. Ég hef sýnt fram á það í ræðu minni, að sú leið, sem notuð hefur verið nú, hefur kannske hvað mest verið notuð þegar hans ráð hafa verið mest í þessum efnum. Ég hef líka sýnt fram á það, að ef ætti að greiða þetta beint til neytenda, þá yrði varan dýrari en hún er nú vegna þess að umsetningin og sölukostnaðurinn yrðu þá meiri en ella og þá yrði líka engin trygging fyrir því að þessir fjármunir yrðu notaðir til þess að styðja íslenskt efnahagslíf. Og það er mikill misskilningur að halda því fram að einmitt þeir verst settu muni njóta minna en þeir betur settu, því að ég held að það orki ekki tvímælis að þeir, sem eru betur settir, fara t.d. meira í utanlandsferðir en hinir og neyta þess vegna minna af íslenskum mat.

Það, sem skiptir mestu máli fyrir íslenskan landbúnað og íslenskt þjóðfélag er að vinna að því af alefli að gera landbúnaðarframleiðsluna sem hagkvæmasta, — vinna að því einnig að vinna upp markaði fyrir íslenska framleiðslu í öðrum löndum. Það þurfum við að gera með því að nota okkur þessa leið sem niðurgreiðslurnar eru til þess að hagræða framleiðslunni og greiðslunum miðað við það sem best er út að flytja frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Ég vil líka vekja athygli á því, að nú horfir þannig í heiminum að það er meira útlit fyrir skort á matvælum heldur en hefur verið um langt árabil og færustu sérfræðingar heimsins telja einmitt að það, sem sé framundan, sé, að menn muni líða skort vegna fæðuleysis. Það væri að fara aftan að siðunum ef við ættum hér að fara að draga úr matarframleiðsíu sem mannkynið þarf sannarlega á að halda. Ég óttast að það sé stutt í það að við höfum ekki nóg smjör handa okkar fólki af okkar framleiðslu nú í vetur. Ég vona að betur fari en á horfist. En till. sú, sem er á þskj. 77, er ekki til þess að bæta úr neinu, heldur gaf hún tilefni til þess að rifja upp þessa sögu sem menn eru e.t.v. búnir að gleyma. Hún er líka þannig gerð, að það eru jafnir partar, það eiga að vera 6 menn í henni svo að enginn á að hafa þar oddastöðu, og ríkisstj. á öll að skipa formanninn. Ekki hefði mér fundist óeðlilegt þó að það hefði tilheyrt viðskrh. og að einn maður hefði komið frá ríkisstj. inn í slíka n., ef menn tækju skipun hennar alvarlega, sem flm. munu ekki gera.