10.03.1976
Neðri deild: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

162. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Gunnlaugur Finnsson):

Virðulegi forseti. Ég mun ekki setja hér á langa tölu varðandi það frv. sem hér er flutt. Það var flutt á síðasta þingi, að vísu í þinglok sem næst, og náði þá hvorki að fá afgreiðslu úr n. né héðan af Alþ. Frv. er sem sagt flutt algjörlega óbreytt og ég leyfi mér að vísa til þeirra fáu orða sem ég þá sagði um frv.

Ég hygg að hér sé ekki um mikinn ágreining að ræða. Ákvæði frv. mundu ná til um 180 oddvita í landinu, þ.e.a.s. til þeirra sveitarfélaga þar sem sveitarstjórar eða bæjarstjórar og borgarstjóri eru ekki starfandi.

Ég vil aðeins vekja athygli á því að þetta frv. gerir raunar ekki aðra leiðréttingu en þá að innheimtukostnaður er færður til samræmis við bað sem tíðkast um alla innheimtu. Það eru orðin löngu úrelt ákvæði að þeir, sem annast raunar fjárreiður og umsýslu alla auk innheimtu, hafi ekki nema 4% af stofni sem innheimtulaun. Það má nefna ýmis fordæmi fyrir því að 6% eru hin almenna regla sem gildir í dag.

Ég vil auk þess aðeins vekja athygli á því að í grg., sem fylgir frv„ eru breyt. frá því frv. sem flutt var í fyrra. Þar er tekið mið af breyttum tölum. Þar er tekið annað úrtak en gert var í fyrra. Það úrtak, sem er hér tekið til leiðbeiningar eða til að gefa hugmynd um hvernig þetta mundi breytast, er unnið hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga. Menn hafa e.t.v. veitt því athygli að það kann að gæta nokkurs misræmis varðandi heildartekjur og íbúafjölda. Það stafar af því að úrtakið er tekið hæði úr dreifbýlishreppum eða sveitahreppum sem og þéttbýlishreppum, en í þéttbýlishreppum eru yfirleitt þyngri álögur og tekjur sveitarsjóðanna þar þess vegna meiri á íbúa heldur en í strjálbýlli sveitarfélögum. Á þessu vildi ég aðeins vekja athygli.

Ég vil svo leyfa mér, virðulegi forseti, að leggja til að málinu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og til félmn.