10.03.1976
Neðri deild: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Geirþrúður H. Bernhöft:

Virðulegur forseti. Tilgangur frv. þess, sem hér hefur verið lagt fram, er, eins og segir í 1. gr. frv„ að stuðla að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum. Í lögum um Jafnlaunaráð, sem samþ. voru á Alþ. í apríl 1973, en það voru merk lög sem mörkuðu tímamót, er fjallað um að körlum og konum skuli greidd jöfn laun fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Starfsemi jafnlaunaráðs hefur gefið góða raun svo langt sem það nær. Enn ríkir þó nokkurt misrétti milli karla og kvenna á ýmsum sviðum. Það er ósköp eðlilegt, því að ríkjandi viðhorfi á þessu sviði sem öðrum verður ekki breytt snögglega með neinni lagasetningu, hversu réttmæt og sanngjörn sem sú lagasetning kann að vera.

Lagafrv. því, sem hér er til umr. um jafnstöðu kvenna og karla, er ætlað, ef að lögum verður, að stuðla að og flýta fyrir því að fullt jafnrétti kynjanna á öllum sviðum náist í reynd.

Í 2. gr. frv. er rætt um jafna möguleika til atvinnu, menntunar og launa. Segja má að konur og karlar hafi nú þegar lagal. rétt á þessu sviði. Sennilega á þó nokkuð langt í land að jafnrétti ríki í raun. Þessi lagagr., ef samþ. verður, mun þó hafa mikil áhrif í þá átt að breyta ríkjandi viðhorfum. Með lögum er hægt að tryggja jafnan rétt til vinnu og launa og stuðla að jöfnum rétti til menntunar með því að allar námsbrautir séu opnar fyrir bæði kynin með jöfnum rétti til námslána, námsstyrkja, fyrirgreiðslu í húsnæðismálum o. s. frv. Líklega breytir þó engin lagasetning viðhorfum foreldra til menntunar barna sinna í skjótri svipan, en smám saman mun lagasetning þó hafa sín áhrif, — ef vilji er fyrir hendi og markvisst er unnið að því að hún nái tilgangi sínum. Komið hefur fram í skýrslu námsbrautar í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands að konur hafa almennt minni og einhæfari menntun en karlar. Í niðurstöðum þessarar skýrslu kemur einnig fram að nýrra aðgerða sé þörf sem stuðli að því að breyta ýmsum ríkjandi viðhorfum ef jafnrétti eða jafnstaða kynjanna í raun eigi að nást í náinni framtíð.

Í 3. gr. frv. segir að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að setja lög sem telja megi að tryggi jafnrétti í þessum efnum, þ.e. um vinnumöguleika, bæði með fullgildingu samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá júní 1958, sem var samþ. hér 1964, og einnig má benda á alþjóðasáttmála Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem Ísland undirritaði í árslok 1968. Eðlilegt er því að þetta ákvæði verði lögbundið.

Í 4. gr. segir að starf, sem auglýst er til umsóknar, skuli standa opið jafnt konum sem körlum. Svo til öll störf í atvinnulífi landsmanna hafa til skamms tíma verið aðgreind í kvennastörf og karlastörf. Hin hefðbundna hlutverkaskipting kynjanna á heimilunum er sennilega þyngst þar á vogaskálunum. Sú kynbundna verkaskipting á heimilunum fylgir svo einstaklingum fjölskyldunnar út af heimilunum inn í skólana og út í atvinnulífið og á vinnumarkaðinn. Hins vegar ættu allir þjóðfélagsþegnar í lýðræðislegu þjóðfélagi að hafa sama rétt til að velja sér námsleið og í framhaldi af því að velja sér lífsstarf. Flestir munu vera þeirrar skoðunar að konur eigi að hafa þetta valfrelsi ekki síður en karlar. Rótgróin hlutverkaskipan kynjanna hefur þó verið og er enn þarna þrándur í götu. Ef bæði hjóna, heimilisfaðir og húsmóðir, vinna fullan vinnudag utan heimilis og annað þeirra, þ.e. húsmóðirin, á svo að bæta við sig öllum heimilisstörfunum, þegar heim kemur, minnkar og þrengist valfrelsi hennar af eðlilegum ástæðum. Ég tel þó að hin hefðbundna hlutverkskipan á heimilinu hafi tekið miklum breytingum hér á landi á s.l. 10–15 árum. Margir ungir heimilisfeður telja nú jafnsjálfsagt að taka þátt í heimilisstörfum eins og feðrum þeirra þótti það fráleitt.

Það er staðreynd að konur eru yfirleitt langlífari en karlar. Margir telja að aðalorsökin sé sú að konur hafi yfirleitt meiri hreyfingu, þar sem þær vinni öll almenn heimilisstörf meðan heilsa og starfsþrek leyfir. Skv. þessu yrðu karlmenn bæði heilsubetri og langlífari ef þeir tækju þátt í heimilisstörfunum og væri það vel.

Einnig segir í 4. gr. frv. að í auglýsingu sé óheimilt að gefa til kynna að vinnuveitandi óski frekar eftir starfsmanni af öðru kyninu en hinu. Frv. þessu er ætlað að vinna að því að breyta rótgrónum og ríkjandi viðhorfum. Varla getur það sakað neinn þótt umsóknir um auglýst starf berist frá báðum kynjum. Vinnuveitandinn fær fleiri umsóknir og þar af leiðandi meiri valmöguleika. Ekki er heldur ólíklegt að margur fari að gera sér betur grein fyrir að við ýmis störf, sem hingað til hafa verið unnin eingöngu af körlum eða eingöngu af konum, eru bæði kynin jafnfær að inna starfið vel af hendi. Ef að er gáð kemur einnig í ljós að hæfni til að gegna ýmsum störfum er einstaklingsbundin, en ekki kynbundin.

5. gr. frv. er í beinu áframhaldi af 4. gr. og fjallar um upplýsingaskyldu atvinnurekenda. Tilgangurinn með þessu ákvæði er einungis sá að koma í veg fyrir mismunun kynjanna. Ákvæðið um upplýsingaskyldu á aðeins við í þeim tilvikum þar sem sú skylda getur haft þýðingu við framkvæmd laganna. og karlar hafa auðvitað sama, rétt til að óska eftir upplýsingum.

Í 6. gr. segir að konur og karlar, sem vinna hjá sama vinnuveitanda, skuli hafa sama rétt til starfsþjálfunar, áframhaldsmenntunar o.s.frv. konur hafa oft minni menntun eða starfsþjálfun en karlar. Mikilvægi þjálfunar og menntunar er óumdeilanlegt. Í 2. gr. frv. er m.a. fjallað um jafna möguleika til menntunar við allar menntastofnanir. Ef konur eiga að hafa sömu möguleika og karlar, t.d. til stöðuhækkunar í starfi, er nauðsynlegt að þær hafi sömu möguleika eða jafnan rétt til framhaldsþjálfunar eða til að sækja námskeið.

Í 7. gr. er kveðið á um, að í skólum og öðrum menntastofnunum skuli veita fræðslu um jafnstöðumál kvenna og karla, enda kemur það fram í 7. gr. laga um skólakerfi frá 1974. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í öllu starfi skóla skulu konur og karlar njóta jafnréttis í hvívetna, jafnt kennarar sem nemendur.“

Augljóst er að öll kennsla, kennslutæki og fræðsla, sem fram fer í skólunum, hefur mikil áhrif á mótun viðhorfs barna til jafnstöðumála kvenna og karla. Þess vegna er mjög eðlilegt að þess sé krafist að öll fræðsla, kennslubækur og kennslutæki, sem notuð eru við kennslu séu þannig að þau stuðli að jafnstöðusjónarmiði, en ekki öfugt. Ljóst er að allt tekur sinn tíma. T.d. má nefna að í Noregi er í gangi sífelld endurskoðun námsbóka. Þetta mun taka sinn tíma hér sem annars staðar.

8. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Auglýsendum er óheimilt að birta nokkrar þær auglýsingar í orðum eða myndum, er orðið geti öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar.“

Grein þessi höfðar, tel ég, fyrst og fremst til dómgreindar og sjálfsvirðingar hvers og eins. Í öllu því auglýsingaflóði í myndum og orðum, sem yfir okkur dynur dag hvern, er vandfundinn mælikvarði á hvað sé til minnkunar og lítilsvirðingar. Er því vandi að setja auglýsendum skorður um hversu langt megi ganga í að setja, fram aðstæður í auglýsingum sem geta virst lítillækkandi eða til minnkunar fyrir konur eða karla. E.t.v. er besti mælikvarðinn sá að hver og einn spyrji sjálfan sig hvort hann kysi að selja sig eða sína nánustu inn í sumar þær auglýsingar er okkur birtast. Nefna mætti dæmi. Það virðist t.d. vera vinsælt að auglýsa hjólbarða með því að skreyta myndina með fáklæddri stúlku. Sú hugsun læðist að manni hvern sé verið að lítilsvirða. Væntanlega kaupanda hjólbarða með því eð draga athyglina frá vörunni, sem verið er að auglýsa, og gera tilraun til að slæva dómgreind hans — eða einstaklinginn sem notaður er sem tálbeita. Einnig læðist sú hugsun að manni hvort gæði hjólbarðans séu í réttu eða öfugu hlutfalli við fönguleik fatafellu.

9.–13. gr. í þessu frv. eru að mestu leyti samhljóða lögum um Jafnlaunaráð, enda er í þeim lögum lögð rík áhersla á að konur og karlar standi jafnt að vígi með tilliti til launa. Lög um Jafnlaunaráð fólu í sér staðfestingu á því að lögin frá 1961 um almennan launajöfnuð karla og kvenna, sem tóku endanlegt gildi 1967, höfðu ekki náð tilgangi sínum til fulls, áréttingar var þörf og lögin um Jafnlaunaráð voru slík árétting. Frv. til l. um jafnstöðu karla og kvenna gengur lengra en lögin um Jafnlaunaráð og er það eðlileg þróun mála. Má nefna 4. gr. þar sem skýlaust er kveðið á um að öll störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum, 5. og 6. gr. þar sem konum er tryggður sami réttur til starfs, starfsþjálfunar, áframhaldsmenntun og körlum, enn fremur 7. gr. þar sem vinna á markvisst að því að tryggja að ekki verði viðhaldið venjubundinni verkaskiptingu milli karla og kvenna, — verkaskiptingu sem á sér aðeins að litlu leyti stoð í því þjóðfélagi sem við búum við í dag. Jafnrétti til atvinnu, menntunar og launa er í eðli sínu mannréttindamál. Lagafrv. því, sem hér er til umr., er ætlað að stuðla að og flýta fyrir því að konur ekki síður en karlar njóti þeirra mannréttinda.

Á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin var s.l. sumar í Mexíkó, var samþ. framkvæmdaáætlun til næstu 10 ára. Í þessari áætlun voru ríkisstj. hvattar til að stuðla að jafnrétti kynjanna, m.a. með lagasetningu sem stuðli að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum, vinnumálum, menntamálum o.s.frv.

Hæstv. forseti. Ef þetta verður samþ. mun það flýta fyrir því að fullt jafnrétti kynjanna í reynd nái fram að ganga. Ég fagna því að frv. þetta skuli vera fram komið. Ég vil styðja þetta frv., þótt ég áskilji mér rétt til að stuðla að eða stuða einhverja þá brtt. sem kynni fram að koma síðar í þessum umr.