10.03.1976
Neðri deild: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2489 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem mun fá þetta frv. til athugunar, og mun því ekki ræða að þessu sinni hin einstöku atriði þess, en ég vil þó að það komi skýrt fram hér við 1. umr. að ég fagna þessu frv. Ég fagna því að það er fram komið, og styð það heilshugar.

Kjarni þessa frv. eru lög um Jafnlaunaráð, og fyrir mér er þetta svipuð reynsla og að sjá barnið mitt eftir nokkra fjarveru og komast að raun um mér til ánægju að það hefur þroskast og dafnað og því hefur farið vel fram í fjarveru sinni. Það gekk ekki alveg þrautalaust á sínum tíma að koma fram frv. um Jafnlaunaráð. Mörgum, bæði utan þings og innan, fannst algjör óhæfa að reyna að tryggja jafnrétti með lögum. Þeim fannst sóun á fjármunum að stuðla að stofnun ráðs eða stofnunar til þess að framfylgja þeim lögum, og margir gátu engan veginn hugsað sér að þetta gæti á nokkurn hátt stuðlað að jafnrétti kynjanna. Ég man eftir því að þegar ég var að vinna að frv. um Jafnlaunaráð, þá átti ég tal við einn ágætan dómara hér í bæ og hann spurði mig hvort það væri virkilega ætlun mín að ætla að fara að leiða það í lög að atvinnurekandi mætti ekki mismuna kynjum. Ég sagði já, það væri ætlun mín. Og hann sagði: Ja, segjum svo, að það stæði næst að hækka konu í starfi, hún hefði starfsaldur til þess, hún hefði hæfni til þess, en ef atvinnurekandanum þætti hún svo ljót að hann gæti ekki hugsað sér að hafa hana nálægt sér, ætti þá virkilega eð skikka hann til þess með lögum? — Ég sagði þessum ágæta dómara að ef málum væri komið svo, þá væri ekki lengur um að ræða jafnrétti í atvinnumálum, heldur fegurðarskyn atvinnurekandans. Ég gæti fallist á það með honum að slíkt væri ekki hægt að leiða í lög.

Þetta er barn eitt dæmi um ýmislegt skemmtilegt sem menn létu sér um munn fara þegar Jafnlaunaráð var hér á döfinni. Það þurfti að yfirvinna ýmsa tregðu af margs konar tagi sem nú er til allrar hamingju ekki fyrir hendi því að það hafa orðið þær umr. um þessi mál á síðustu árum. Íslenskar konur hafa veríð mjög samhentar í því að þoka sínum málum áleiðis og ég hygg að þetta frv. sé einn árangurinn af þeirri samvinnu. Ég lít svo á að þetta frv. sem hér liggur fyrir til umr., sé sönnun þess að grundvöllurinn hafi verið réttur. Þau ákvæði. sem hér koma til viðbótar lögum um Jafnlaunaráð, eiga tvímælalaust rétt á sér. Hin auknu verkefni, sem ráðinu er ætlað að inna af hendi, eru nokkuð umfangsmikil og sannarlega mikilvægt að leiða þessi ákvæði í lög.

Ég vil hins vegar benda á það, að til þess að ráð af þessu tagi geti rækt starf sitt á þann veg að það beri árangur og veki traust, þá verður að koma til nægilegt fjármagn. Góður vilji ráðsmanna dugir ekki til ef fjármagnið vantar til þess að unnt sé að framfylgja lögunum til fulls. Jafnlaunaráð hefur því miður ekki haft nægilegt fé, og því brýnna er að hvetja til þess að fjármagnið sé veitt þegar þessi verkefni bætast við.

T.d. er í þessu frv., í 10. gr.. enn þá ætlast til þess að ráðið fylgist með þjóðfélagsþróun sem varðar þetta lagaefni. Til þess að geta gert bað þarf vitaskuld starfsmann eða starfsmenn. Það er ekki hægt að ætlast til þess að ráðsmenn geti gefið sig að þessu verkefni og öðrum, sem ætlast er til af þeim, í hjáverkum því að hér er um oft flóknar rannsóknir að ræða, tímafrekar athuganir og mikið starf. Ég nefni sem dæmi eitt atriði sem hefur nýlega komið fyrir og ég hef áður nefnt úr þessum ræðustól í öðru samhengi.

Það gerðist í jan. s.l. að Fiskvinnsluskólanum voru sett skilyrði. Ef rannsóknarstofur ættu að taka nemendur þaðan til þjálfunar, eins og gert hefur verið undanfarin ár, þá voru þau skilyrði sett að það yrði eingöngu karlkyns nemendur, stúlkur voru útilokaðar og þetta tel ég að hafi verið, ef ekki brot á lögum um skólakerfi, þá vissulega brot á lögum um Jafnlaunaráð og hér hefði Jafnlaunaráð átt að grípa inn í. Það eru slík atvik sem ráð af þessu tagi, hvort sem þau heita Jafnlaunaráð eða Jafnstöðuráð, eiga að skipta sér af og kippa til betri vegar. Hér eiga sannarlega persónulegir fordómar ekki að fá að ráða þar sem við eigum skýr lög sem banna slíkt.

Hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um orðið jafnstöðu og ég hef velt því nokkuð fyrir mér. Það er vissulega rétt myndað orð, en ég verð að játa að mér finnst það ekki fallegt orð og ég hefði fremur kosið að þarna stæði frv. til l. um jafnrétti og orðið jafnréttisráð verið notað frekar en Jafnstöðuráð. Ég mun síðar í ræðu minni víkja að meginrökum mínum fyrir þessu, en láta nægja að þessu sinni að benda á að ég hygg að það sé ekki alveg rétt hjá hæstv. ráðh. að jafnrétti þýði aðeins lagalegur réttur. Ég hygg að til sé réttur þó að hvergi sé bundinn í lögum og sá réttur geti ef til vill verið öllu dýrmætari en lagalegur réttur. Það er réttur sem byggist á siðferði og siðgæðisþroska og að því leyti til held ég að við þurfum ekki að einskorða orðið jafnrétti eingöngu við Lagasafnið.

Hins vegar felst í þessu orði, jafnstaða, að kynin eigi að standa jafnt að vígi í menntakerfinu og í atvinnulífinu. En spurningin er í mínum huga hvort orðið í þessu samhengi sé ekki beinlínis villandi, því að þó að öll þessi ákvæði séu góð og gild sjálfsögð, eðlileg og nauðsynleg, þá eru það ekki þessi ákvæði ein sem tryggja jafnstöðu, sem tryggja það að kynin standi jafnt að vígi í menntakerfi og í atvinnulífinu. Hér þarf vissulega meira að koma til.

Ég vil minna á það að vorið 1971 var gerð samþykkt hér á hinu háa Alþ. um rannsókn á jafnrétti þegnanna. Eins og hæstv. ráðh. vék að, kom út úr þeirri rannsókn bók sem námsbraut í þjóðfélagsfræðum við Háskóla Íslands samdi. En ég vil minna á það að sú bók var ekki niðurstaða samþykktarinnar allrar. Samþykktin var lengri. Samþykktin var á þá leið að gerð skyldi rannsókn á jafnrétti þegnanna og jafnframt skyldi rannsakað hvaða breytingar þyrfti að gera á gerð þjóðfélagsins til þess að raunverulegt jafnrétti næðist. Þessa rannsókn er eftir að gera. Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. ráðh. að hann athugi hvort það sé ekki tímabært að framfylgja þessum þætti samþykktarinnar. Þessi bók, Jafnrétti kynjanna, var ansi svartsýn. Höfundar hennar drógu þá ályktun, að eins og nú væri háttað væri ekki séð að breyting yrði í átt til aukins jafnréttis um ófyrirsjáanlegan tíma. Ég hygg að þessi niðurstaða þjóðfélagsfræðideildar hafi ekki verið nægilega rædd, og ég held að við ættum ekki að gera okkur ánægð með að ljúka umr. þarna, heldur reyna að finna leiðir.

Það, sem hér þarf að koma til, eru vitanlega ýmsar þjóðfélagslegar umbætur, — þjóðfélagslegar umbætur sem stuðla að jafnrétti og hafa þannig áhrif á einkalíf manna. Ég er alveg sammála hæstv. ráðh. um að ekki sé hægt að leiða í lög hvernig menn skuli haga sér á heimilum. En hitt er annað mál, að ýmsar þjóðfélagslegar úrbætur geta með óbeinum hætti bætt úr misrétti sem tíðkast á heimilum. Ég vil í fyrsta lagi nefna dagvistunarheimilin, leikskóla, dagheimili og skóladagheimili. Við ættum að setja okkur það mark að fullnægja þörfum fyrir dagvistunarheimili á vissu árabili. Skortur á dagvistunarheimilum er tvímælalaust hinn mesti þrándur í götu jafnréttis. Það er vissulega uppeldi barnanna sem kemur í veg fyrir að konu nýtist menntun, vegna þess að hún hefur ekki hjálp við uppeldið, og enn þá er miklu hagkvæmara fyrir föðurinn að vinna úti heldur en hitt. Með þessu er ég sannarlega ekki að segja að foreldrarnir eigi að koma uppeldinu öllu yfir á dagvistunarheimilið og fóstrur. Ég hef rætt það oft um þessi mál að ég hygg að það fari ekki á milli mála að ég lít á dagheimili og fóstrur sem ákaflega mikla hjálp við heimilin, — að þau eigi að starfa með foreldrunum að uppeldi barnanna. En til þess að geta komið þessum málum áleiðis þarf vissulega mikið fjármagn. En því miður fór svo í vetur að hv. stjórnarsinnar sviptu dagvistunarheimilin öllu ríkisframlagi til rekstrar og gerir það sveitarfélögum miklu erfiðara fyrir að reka þessi heimili. Ég frétti af því fyrir skömmu að einn kaupstaður úti á landi hefði sem beina afleiðingu af þessari lagabreytingu ríkisstj. — sem beina afleiðingu hennar hækkað daggjöldin á einu bretti úr 7000 kr. upp í 17 000 kr. Og ef þróunin á að vera þessi, þá er vitaskuld svo komið að það getur ekki nokkur maður notað sér dagheimilin nema hann hafi mjög háar tekjur. Þarna er komin mismunun á þjóðfélagsþegnum eftir efnum og ástæðum. Annað atriði, sem er öllu flóknara, sem þarf að gerast í þjóðfélaginu til þess að raunverulegt jafnrétti komist á, er stytting vinnutímans. Ég geri mér það vitanlega alveg ljóst að hér þarf að komast á samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins til þess að svo geti orðið, en styttri vinnutími gerir hvort tveggja í senn: hann minnkar vinnuálag konu sem býr oft við tvöfalt vinnuálag, allt of langan starfsdag, hann minnkar þann tíma sem barnið er á dagheimilinu og hann eykur tímann sem fjölskyldan öll getur verið saman og starfað þá samtímis að heimilisstörfum. Svíar eru að hugsa um að fara inn á þessa braut og taka upp 6 stunda vinnudag í stað 8, einmitt með jafnrétti kynjanna í huga.

Auk þessara atriða mætti nefna ýmiss konar þjónustu til heimilanna sem er mjög ábótavant hér hjá okkur. En öll þessi atriði: styttri vinnutími, fleiri dagvistunarheimili, betri þjónusta við heimilin, þau falla undir það sem norðurlandabúar kalla familiepolitik eða fjölskyldupólitík og eiga öll að stuðla að því að taka alla þætti inn í myndina til þess að bæði lagalegt jafnrétti og þjóðfélagslegar umbætur geti haldist í hendur og þar með komið á raunverulegu jafnrétti. Það eru þessar mismunandi aðstæður, þessi atriði sem koma í veg fyrir að konur geti notfært sér nám og stundað störf til jafns við karlmenn.

Að síðustu vil ég nefna eitt atriði sem mér finnst ekki hafa verið rætt nægilega vel. Í lögum um Jafnlaunaráð er í fyrsta sinn talað um jafnverðmæt störf, fram að því var alltaf talað um sömu laun fyrir sömu vinnu. Mönnum hættir til að túlka þetta svo að karl og kona yrðu að standa hlið við hlið og vinna nákvæmlega sömu vinnuna til þess að réttlætanlegt væri að greiða þeim sama kaup. Ef þau stóðu ekki hlið við hlið og einhver mismunur var á störfum þeirra, þá þótti mönnum þeir vera lausir allra mála og réttlætanlegt að greiða þeim mismunandi laun og konum miklu lægri laun. Orðalagið jafnverðmæt störf kallar vissulega á nýtt gildismat. Hér þarf ný viðhorf. En ég held að það þyrfti að leggja áherslu á það við þá, sem vinna að starfsmati, að það er leitt í lög hér á Íslandi að konur og karlar skuli fá jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf.

Ég hef þessi orð þá ekki fleiri, hæstv. forseti, en vil ítreka ánægju mína með þetta frv.