10.03.1976
Neðri deild: 75. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2498 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

192. mál, jafnrétti kvenna og karla

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég fagna mjög þessu fram komna frv. Mér finnst það ákaflega jákvætt að hæstv. félmrh. skuli þannig sýna vilja í verki og ég vil þakka honum það. Þótt ég efist ekki um hæfni og góðan vilja þeirra, sem falið var að semja frv., verð ég að harma að ekki skyldi vera leitað víðara samstarfs, ekki skipuð fjölmennari n. til þess að undirbúa þetta frv. og leitað álits og ábendinga þeirra aðila t.d. sem hæstv. ráðh. segist nú hafa sent frv. til kynningar. Í bréfi frá rn., sem fylgdi frv. til þessara aðila til kynningar, er ekki beðið um umsögn, en vonandi verður bætt úr því við meðferð málsins í n. og fengið álit sem flestra aðila sem málið varðar.

Í sambandi við þetta frv., svo ágætt sem það er að þessi mál skuli nú tekin hér á dagskrá, langar mig að mæla fáein varnaðarorð.

Skilyrði til jafnstöðu kynjanna eða jafnréttis kynjanna, hvort sem fólk kýs nú að nefna það, — ég ætla ekki að blanda mér í þá deilu, — er að bæta í raun stöðu kvenna með ákveðnum aðgerðum, m.a. með því að tryggja konum atvinnu í námunda við heimili sín, e.t.v. með styttri vinnutíma, einkum þó fyrir foreldra ungra barna, og með nægum dagvistunarplássum fyrir börn þeirra foreldra sem það kjósa, aukna þjónustu við heimili og fullkomið sjálfræði kvenna varðandi barneignir. Hér er þörf aðgerða á ýmsum sviðum, og almenn formleg lög um jafnrétti eða jafnstöðu mega ekki skyggja á þessa þörf eða leiða athyglina frá henni.

Í umr. um þáltill. um skipun n. til þess að semja jafnréttisfrv. fyrr á þessu þingi benti ég á að e.t.v. væri árangursríkara að fá fremur löggjöf gegn misrétti, eins og ýmsir þeir álíta sem fjallað hafa um sams konar frv. sem nú liggja fyrir þingum víða á Norðurlöndum. Í frv. því, sem nú liggur fyrir framan okkur, er varla kveðið nógu sterkt á um ýmis atriði til þess að koma í veg fyrir mismunun, en slíka annmarka má vafalaust laga í meðförum þingsins og í meðförum n. Það er greinilegt með samanburði að þetta frv. er að miklu leyti sniðið eftir norska frv. um sama etni og kveður á um flest sömu atriði. Það er þó heldur ónákvæmara. Mér finnst frv. sýna mjög góðan vilja, en kannske ekki ná nógu langt. Ég vil nefna nokkur dæmi.

í 1. gr. er talað um að tilgangur laganna sé að stuðla að jafnrétti. Þarna álít ég að mætti segja hreint og beint „koma á“ eða „tryggja“ jafnrétti. Það er náttúrlega túlkunaratriði hvað eru jafnverðmæt og sambærileg störf og jafnir möguleikar til menntunar, ekki er nóg að segja að þeir skuli veittir. Ég hygg að svo sé kveðið á í lögum sem þegar eru gildandi í landinu og nægir þó ekki. Í þessu sambandi get ég nefnt sem dæmi ýmis ákvæði í sambandi við verkmenntun. Þar verður að líta á hver það er sem ræður. Þar gengur ekki hvaða kona eða hvaða karl sem er og segir: Ég vil læra þessa iðn. — Það gengur hreinlega ekki, vegna þess að eins og nú er, þá eru það ekki fræðsluyfirvöld, heldur meistarar, sem ráða hverjum er hleypt inn í viðkomandi námsbraut.

Ég er samþykk atriðum 3., 4. og 5. gr., þótt allt slíkt sé túlkunaratriði og verði það ætíð í framkvæmd, en þá er bara eftir að sjá hvernig fer. Ég vil gera smáathugasemd við 6. gr. Þar er talað um möguleika til þess að sækja námskeið og fá starfsþjálfun í þeim tilgangi að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings annarra og betri starfa. Ég tel dálítið hættulegt að fara að meta störf betri eða verri. Ég býst við að þarna sé átt við betur launað starf og tel líka hæpið að tala um slíkt. Ég held að það, sem í raun og veru vakir fyrir þeim sem samið hafa frv., og hugsunin, sem þarna liggur að baki, sé að fólk geti fengið tækifæri til þess að nýta þá hæfileika sem það hefur áunnið sér með þeirri þjálfun, sem það hefur þegar fengið í starfinu, og með viðbótarþjálfun, en ekki endilega til þess að fá meira kaup.

Í 1. gr. er kveðið á um að veita skuli fræðslu um jafnstöðu kvenna og karla í skólum og að kennslubækur og kennslutæki, sem þar eru notuð, skuli þannig úr garði gerð og hönnuð að kynjum sé ekki mismunað. Þetta hygg ég að muni eiga að vera skilningurinn í 7. gr. laga um skólakerfi líka, en þar er ekki kveðið nógu hart á um þetta og varla hér heldur. Ég held að þarna sé ekki nógu langt gengið og að þarna þyrfti líka að taka fram að það verði að koma í veg fyrir að viðhaldið sé að óþörfu úreltri kynskiptingu starfa og beinlínis að það þurfi að brjóta þessa tilhneigingu niður í kennslubókum.

Í sambandi við auglýsingarnar, sem ekki mega vera öðru kyninu til minnkunar eða lítilsvirðingar, er ég vissulega sammála hv. þm. Sigurlaugu Bjarnadóttur að þetta er túlkunaratriði, en ég gel ómögulega lítið á þetta sem eitthvert skop. Ég geri ráð fyrir að það, sem þarna vakir fyrir semjendum frv., séu ekki skopmyndir þar sem kannske er gert grín að karli fyrir að vera með stóra bumbu eða konu með stór brjóst, heldur auglýsingar þar sem konulíkaminn er beinlínis notaður til að selja vöru sem í raun og veru kemur konulíkamanum alls ekki neitt við. Ég held að þarna gæti misskilnings hjá hv. þm.

Í sambandi við menntastofnanir vil ég líka taka það fram, að auk þess sem ég álit að það þurfi að kveða hart á um að ekki megi viðhalda úreltri kynskiptingu, þá þurfi beinlínis að reyna að beina kynjunum inn á námsbrautir sem áður hafa einkum verið fyrir hitt kynið. Dæmi um hið gagnstæða, sem ég tel að sé mjög illa farið, er í hinum nýja fjölbrautaskóla hér í Reykjavík eða í Breiðholtinu, þar sem stúlkum er nú beint inn á svokallaða snyrtiiðnbraut. Ég hef ekki heyrt að neinum strák hafi verið boðið slíkt og þvílíkt.

Þá er það Jafnstöðuráð. Það er sjálfsagt ágætt að skipa það 5 mönnum. En ég tel að ef árangur á að nást og ef við ætlum virkilega að bæta stöðu kvenna, þá verði það að vera skilyrði, að þarna séu a.m.k. tvær konur og helst þrjár, a.m.k. þessi 10 ár sem við ætlum samkv. samþykkt Sameinuðu þjóðanna að vinna að því að kynin nái jafnstöðu. Þá vil ég líka benda á, að völd Jafnstöðuráðs eru í raun og veru mjög óljós eftir þessum lögum. Það hefur í raun og veru ekki úrskurðarvald. Þá er ekki heldur kveðið neitt á um fastan starfsmann né hvaðan þetta Jafnstöðuráð á að fá fjármagn til starfa. Af reynslunni af Jafnlaunaráði má ráða að slíkt er nauðsynlegt að taka fram strax í upphafi.

Í 11. gr. er talað um að fallist atvinnuveitandi ekki á tilmæli ráðsins um úrbætur þegar brotið er, þá sé ráðinu heimilt í samráði við hlutaðeigandi starfsmann að höfða mál. Þarna tel ég að ætti að standa hreint og beint að ráðinu sé það skylt.

Auk þeirra atriða, sem ég hef nú nefnt, finnst mér lögin ekki ná nógu langt. Þau ná t.d. ekki, eins og hæstv. ráðh. tók fram, til einkalífsins, þ.e.a.s. heimilanna væntanlega, þar sem undirokun kvenna hefur þó verið hvað mest fyrr og síðar. Ég veit ekki nema það þyrfti hér kannske sérstaka fjölskyldulöggjöf, eins og sums staðar hefur verið sett í öðrum löndum. En ég tel að það hljóti að vera krafa að heimilisstörfunum sé skipt réttlátlega á milli kynjanna eða fulltrúa kynjanna sem á heimilinu búa. Sama gildir um ýmiss konar félagsstörf, bæði einkafélög og mannúðarfélög, eins og hæstv. ráðh. nefndi. Ég tel ekki eðlilegt að ákveðin félög eða ákveðnir hópar séu undanþegnir lögunum. Það gæti gengið allt of langt. Það gæti orðið til þess, eins og er reyndar þegar í norska lagafrv., að trúfélög séu undanþegin lögunum. Þetta gæti sem sagt gengið mjög langt, og ekki síst finnst mér að þetta geti verið hættulegt í sambandi við stéttarfélög. Ég tel það vera sjálfsagða kröfu, að beinlínis sé kveðið á um það í lögunum að í stjórnum og nefndum slíkra félaga séu konur í réttu hlutfalli við fjölda þeirra af heildarfélagatölunni. En eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt, þá er langt frá því að svo sé. Síðast, en ekki síst þykir mér það galli á frv., svo gróður sem tilgangurinn er annars, að svo virðist sem gengið sé út frá að staða karla og kvenna sé jöfn nú og það sé verið að vernda hana og tryggja jafnan rétt og skyldur áfram. En eins og raunar flestir viðurkenna er langt frá því að jafnstaða sé ríkjandi nú þrátt fyrir margs konar lagaákvæði. Þess vegna þurfa þau lög, sem sett verða, ekki aðeins að viðhalda „status quo“, heldur beinlínis að verka þannig að metin jafnist, verka til hvatningar og uppörvunar fyrir konur.

Lög um kosningarrétt og kjörgengi kvenna hafa verið í gildi hér um áratugi. Það var lengi búið að berjast fyrir því áður en árangur náðist. Áreiðanlega hafa þeir, sem í fararbroddi voru í þeirri baráttu, vænst mikilla breytinga.

En hver er raunin? Hv. þm. þurfa ekki annað en að líta yfir þennan sal — svona venjulega, en ég skal taka fram að aldrei þessu vant lítur út fyrir að fleiri konur séu hér staddar nú en karlar, en líklega stafar það af áhugaleysi karla fyrir þessu máli, því miður. En það mætti spyrja: Hvar eru konurnar á Alþingi íslendinga? Eða eigum við kannske frekar að spyrja: Hvers vegna eru þær hér ekki þrátt fyrir þessi lög?

Eins og hv. þm. Geirþrúður H. Bernhöft benti á breytast viðhorf ekki á svipstundu með lagasetningu. Aldalangri kúgun og undirokun verður ekki velt af sér með einu handtaki. Vegna þess ástands, sem nú er ríkjandi, þ.e.a.s. þeirrar mismunandi stöðu sem karlar og konur búa við nú, er ástæða til að íhuga hvort ekki sé nauðsynlegt að grípa til sérstakra aðgerða til að jafna metin. Já, nú skulu hv. þm. halda sér fast. Ég er hér sem sagt að ýja að því hvort ekki skuli beita tímabundinni mismunun, þ.e.a.s. velta konum ákveðin forréttindi um tíma á meðan þær eru að ná karlmönnunum. Slíkt tímabil gæti t.d. staðið þann tíma sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér til að jafna rétt og stöðu kynjanna og væri reyndar mjög í anda þeirrar samþykktar, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa gert um þetta, bæði 10 ára starfsáætlunina, sem samþ. var á kvennaráðstefnunni í Mexíkó, og fleiri yfirlýsingar. Svo að hv. þm. verði nú ekki allt of hræddir vil ég benda á sem dæmi um slík forréttindi ákvæði gegn réttindaskerðingu kvenna vegna barneigna eða uppeldisskyldna, og eins það, sem ég reyndar kom inn á áðan, að beina konum inn á áður hefðbundnar karlanámsbrautir með vægari inntökuskilyrðum, t.d. í sambandi við tæknimenntun, og öfugt, þ.e. reyna að beina körlum inn á t.d. hjúkrunarbrautir og í fóstrumenntun o.s.frv. með vægari inntökuskilyrðum en fyrir konur. Sama gæti gilt um atvinnugreinar. Þar mætti a.m.k. biðja atvinnurekendur, — það er kannske ekki hægt að skylda þá til þess, — að taka í vinnu einhverja lágmarkstölu kvenna eða karla eftir því hver atvinnan er.

Í norska lagafrv. er aðeins ýjað að því að beita megi slíkri mismunun. Ég ætla að leyfa mér að lesa þá grein, með leyfi forseta. Þar stendur, — ég ætla nú að lesa það á norsku ef ég má: „Som forskjellsbehandling regnes ikke ulik behandling som í overensstemmelse med lovens formål fremmer likestilling mellom kjönnene“ — þ.e.a.s. að mismunun, sem beitt er til að jafna stöðu kynjanna, telst ekki misrétti. Er þar reyndar vísað í tilgangsgrein frv., þar sem tilgangurinn telst ekki aðeins vera að stuðla að jafnrétti kynjanna, heldur og að bæta stöðu kvenna. Með leyfi forseta, þá hljóðar gr. þannig: „Denne lov skal fremme likestilling mellom kjönnene og tar særlig sigte på å bedre kvinnens stilling“. Ekkert slíkt fyrirfinnst í því frv. sem liggur nú fyrir framan okkur. En vissulega má úr því bæta.

Þessu frv. var dreift hér í d. á síðasta fundi og hefur því lítill tími gefist til þess að skoða það nákvæmlega. En ég vil láta koma fram í þessum umr. að ég fagna mjög þeirri ágætu viðleitni, sem hér hefur verið sýnd, og ég vona, að leitað verði umsagna og ábendinga fleiri aðila en þegar hafa fengið um þetta frv. að fjalla, og boða, að ég mun fyrir 2. umr. leggja fram brtt.