15.03.1976
Neðri deild: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég trúi því vart að það sé meining hæstv. forseta að ætla sér að skera niður umr. um þetta mál. Ég held að það sé augljóst að nauðsynlegt er, ekki síst með tilliti til þess, sem síðast hefur gerst, að Alþ. ræði um þau viðhorf sem nú blasa við að því er varðar landhelgismálið. Núna fyrir helgina fengum við enn eina sönnun fyrir því að bretar, bresk stjórnvöld, virðast einskis ætla að svífast í þeim efnum að koma okkur á kné í sambandi við þetta mál. Það hefur verið yfirlýst stefna allra stjórnmálaflokka í landinu, að því er ég best veit, að það bæri að gera ráðstafanir til þess að efla landhelgisgæsluna svo að hún væri sem best í stakk búin til þess að svara þessum aðferðum breta. Það hlýtur því að koma mjög á óvart hversu hæstv. ríkisstj. virðist vera sein í vöfum í því að framkvæma þennan vilja — að því er ég hygg — Alþingis.

Það var vitnað áðan af hv. 2. þm. Austurl. til viðtals sem einn af skipherrum gæslunnar átti við ríkisútvarpið nú fyrir helgina. Hann sagði, ef ég man, orðrétt eða a.m.k. var efnislega hliðin á þá leið að það væri í raun og veru einsdæmi að bæði stjórn og stjórnarandstaða væru sammála um að gera allt sem hægt væri til að efla gæsluna, en framkvæmdin væri einvörðungu kjaftæði og ekkert gert raunhæft. Hvað sem mönnum finnst um þetta orðaval, þá sýnist mér að efnislega sé nokkuð rétt mat þessa skipherra á því sem gerst hefur — eða í raun og veru kannske frekar að segja á því sem ekki hefur verið gert.

Fyrir nokkru var tilkynnt af hæstv. dómsmrh., að ég hygg, að n. hafi verið skipuð til þess að kanna þessi mál og gera um það till. með hverjum hætti best væri hægt að styrkja gæsluna. Enn hefur ekki, að því ég best veit, heyrst neitt um till. frá þessari n. Það er því ekki að ófyrirsynju að mönnum fer að leiðast eftir því að eitthvað raunhæft sjái dagsins ljós.

Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að sá eini togari, sem bætt hefur verið í gæsluna, hefur að mati þeirra varðskipsmanna reynst mjög vel. Við eigum sem betur fer nóg af slíkum skipum sem hægt er að taka til notkunar í gæslunni og mundu kannske miklu frekar þjóna þar heldur en þeir gera sumir hverjir á því starfssviði sem þeir eru nú. Og þegar það liggur fyrir að ekki mun skorta fjárveitingar til þess að efla gæsluna með þessum hætti, þá ætti ekki að vera langur tími sem til þess þyrfti að taka ákvarðanir um slíkt.

Það er alveg ljóst af síðustu atburðum og hefur raunar verið ljóst fyrr, að bretar ætla sér, hvað sem tautar og raular, að halda þessu stríði áfram með það í huga að þeir vonast til þess að hægt verði að knésetja íslendinga í málinu með þessum aðferðum sem þeir beita, að laska eða jafnvel sökkva svo og svo mörgum skipum úr okkar varðskipaflota. Það er því ekki að ástæðulausu að enn einu sinni er þetta mál tekið upp hér á Alþ. og innt eftir því hvað hæstv. ríkisstj. aðhefjist í þessu máli. Ég held að öll stjórnarandstaðan hafi lýst sig til þess reiðubúna að vinna að þessu máli með hæstv. ríkisstj. til þess að ná sem farsælastri lausn á því, og það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það má raunar furðu gegna að aðeins einu skipi hafur verið bætt í flota gæslunnar á þessum stríðstímum Ég minnist þess að ekki alls fyrir löngu var það boð látið út ganga, að ég held frá hæstv. dómsmrh., að það yrði leitað til fulltrúa stjórnmálaflokkanna hér á Alþ., leitað til þeirra til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu um fjáröflun til að auka starfsemi gæslunnar. Mér vitanlega hefur þetta ekki verið gert enn, þannig að mér sýnist að hvar sem borið sé niður í þessum efnum þá sé hæstv. ríkisstj. því miður æði-aðgerðalítil í þessu máli.

Ég vænti þess að hæstv. forsrh. hann geri hér á eftir grein fyrir því, hvernig þessi mál í raun og veru standa, hvað hefur verið gert af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að auka skipakost gæslunnar og hvað hún hyggst fyrir í áframhaldi af þessu. Það fer ekki hjá því að það getur vart verið meining hæstv. ríkisstj. að sitja öllu lengur aðgerðalaus þegar slíkir atburðir eiga sér stað, margir á viku og svo til í hverri einustu viku sem líður. Ef það er rétt mat hjá hv. þm. Benedikt Gröndal, sem ég vil ekki draga í efa, að við séum búnir að vinna stríðið, þá þurfum við að búa okkur betur í stakk til þess að reka flóttann endanlega, og það verður ekki gert með öðrum hætti en þeim að bæta skipum í gæsluna. Til þess höfum við hér innanlands nægan skipakost. Hann hefur sannað sitt ágæti. Ég er ekki með þessu að draga neitt úr því að leitað sé til annarra landa með hagstæð skipakaup eða leiguskip, en ég held að við getum með sem skjótustum hætti leitað á eigin mið og nýtt þau skip sem við höfum hér í landinu og hafa sýnt sitt ágæti til að standa í þessu stríði.

Ég vil taka undir þá spurningu, sem hv. þm. Benedikt Gröndal kom inn á áðan, hvort það geti í raun og veru verið rétt, sem maður hefur heyrt æðioft sagt, að nú sé svo komið hjá Landhelgisgæslunni að hana skorti fé til brýnustu starfsemi. Ég trúi því vart að það geti verið, því að mér er ekki um það kunnugt að á neinu stigi hafi verið neitað um fjárveitingar eða fjármuni til þess að styrkja sem best starfsemi gæslunnar, þannig að mér kemur þetta mjög á óvart, sé þetta rétt, sem ég vænti að ekki sé.

Ég vil svo að síðustu taka undir það, sem í raun og veru hefur margoft komið fram hér á Alþ., að það verður ekki undan því vikist að láta á það reyna hvort NATO ætlar að sitja aðgerðalaust meðan bresk stjórnvöld halda uppi slíku stríði hér á Íslandsmiðum sem þau hafa gert nú að undanförnu. Ég tel að það verði ekki undan því vikist að láta á þetta reyna, og því fyrr sem það er gert, því betra.

Ég skal ekki, virðulegi forseti, hafa þessi orð fleiri nú. En ég tel að það sé ástæðulausi að ætlast til þess af hv. Alþ. að það gefi sér ekki nægan tíma til þess að ræða svo mikilsvert mál eins og hér er um að ræða. Þó að vissulega séu mörg mál, sem eru á dagskrá í dag, kannske mikilvæg, því held ég að þetta yfirgnæfi þó þau öll og það sé ástæða til þess að taka nægilegan tíma af fundartíma þingsins til að ræða þetta mál.