15.03.1976
Neðri deild: 76. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2546 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Þær hafa nú orðið langar, athugasemdirnar hjá sumum hv. þm., en ég skal vera stuttorður.

Oft hef ég orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögð hæstv. forsrh. áður, en þó aldrei eins og nú. Ég hugsa að það sé leitun á svarræðu hjá ráðh. í svipuðum dúr og hæstv. forsrh. flutti hér áðan.

Hann sagði, hæstv. ráðh., að sér fyndist þessir tilburðir stjórnarandstöðu bera vitni slæmum taugum. Það er merkileg árátta hjá hæstv. forsrh. að vera alltaf að tala um slæmar taugar hjá stjórnarandstæðingum í þessu máli, — það er siður en svo að það sé. Og hann bætti við að þeir menn, sem hugleitt hefðu framtíðina, hefðu mátt búast við þessum atburðum á miðunum og þessum ágangi af hálfu breta. Auðvitað er það rétt, það máttu allir búast við því. En það, sem ekki hefði átt að mega búast við, það var að hæstv. ríkisstj. skyldi svo til ekkert gera, sitja aðgerðalaus og aðhafast ekki neitt þrátt fyrir þessa atburði og viðbrögð breta. Það er það sem hér er verið að tala um fyrst og fremst. Það bjuggust auðvitað allir við þessu af hálfu breta. En ég a.m.k. hefði helst viljað vera laus við að búast við því aðgerðaleysi af hálfu hæstv. ríkisstj. sem raun ber vilni í þessu máli.

Hæstv. forsrh. segir að þessar umr. leiði ekkert nýtt í ljós af hálfu stjórnarandstöðu, þær séu gagnslausar og beinlínis skaðlegar. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti að mér finnst undarlegt að hæstv. forsrh., þessi geðprýðismaður dagsdaglega, skuli vera með slíkar yfirlýsingar hér á Alþ. þegar teknir eru til umr. málefnalega þeir alvarlegu atburðir sem verið hafa að gerast á miðunum á undanförnum vikum og mánuðum. Það er alveg öruggt mál að hann fær a.m.k. fáa íslendinga til að fallast á þá skoðun sína að það sé skaðlegt fyrir málstað íslendinga að taka þessi mál til umr. á Alþ., þegar svo til hvert einasta mannsbarn í landinu hefur velt þessu fyrir sér í vikur og mánuði og ræðir um það dagsdaglega hvað beri að gera til þess að snúast til varnar gegn þessum ágangi breta.

Svo sagði hæstv. forsrh. að hann væri undrandi á þessum umr. og viðhorfum stjórnarandstöðunnar, þ.e.a.s. að það þyrfti að bæta við skipum til gæslu á miðunum, — bann væri undrandi á þessu viðhorfi stjórnarandstöðunnar, vegna þess að hún segði í öðru orðinu að það gerði ekkert til þó að bretar væru hérna, þeir veiddu svo lítið hvort sem væri. En þótt ekkert væri annað en það, þurfum við a.m.k. að gera allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir að bretum takist það sem þeir ætla sér, að gera gjörsamlega óvirkan flota gæslunnar, kannske með tortímingu á mannslífum. Og það er alveg augljóst mál, að hvert tonnið; sem hægt er að koma í veg fyrir að bretum auðnist að stela hér á miðum, það eykur á því líkur, að þær verði færri vikurnar eða færri mánuðirnir sem það verður lagt blátt bann við því að íslensk fiskveiðiskip megi draga þorsk að landi nú á þessu ári, eins og hér hefur komið fram að uppi eru till. um og nú er velt fyrir sér í stjórnarherbúðunum, þ.e.a.s. að banna allar þorskveiðar í fjóra mánuði á þessu ári. Það er því ekki ástæðulaust að þess sé krafist beinlínis af hæstv. ríkisstj. að hún geri allt sem hægt er til þess að koma í veg fyrir að bretum líðist það að stela hér svo og svo miklu af afla.

Og svo í síðasta lagi lýsti hæstv. forsrh. ábyrgð á hendur stjórnarandstöðunni fyrir ábyrgðarlausan málflutning. Hver er nú þessi ábyrgðarlausi málflutningur? Það er verið að óska eftir því að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir því, hvað hún hyggst gera til andsvera við aðgerðum breta sem gerast dagsdaglega og oft á dag og beinlínis í því formi að sigla niður íslensk varðskip. Er það ábyrgðarlaus málflutningur hér á Alþ. að ræða hvað skuli gert til þess að snúast til varnar í slíkum efnum? Ef það er ábyrgðarlaus málflutningur að slíkt skuli rætt hér á Alþ., hvert stefnir þá þingræðinu og lýðræði hér á landi? Er það meining hæstv. forsrh. að fara að skerða svo lýðræðistilhneigingu íslensku þjóðarinnar að það sé einhver tiltölulega fámenn og til þess valin „grúppa“ á tilteknum stöðum, í áhrifastöðum, sem megi leyfa sér að ræða í þessu tilviki hvað íslenskum stjórnvöldum beri að gera til þess að stemma stigu við þeim stigamannahætti sem bresk stjórnvöld hafa leyft sér að halda uppi hér á fiskimiðunum á undanförnum mánuðum?

Það er full ástæða til þess að vara við slíkum málflutningi eins og hæstv. forsrh. kom hér inn á. Það er ekki ábyrgðarlaust tal af hálfu stjórnarandstöðunnar sem uppi hefur verið haft í þessu máli. En það er óviðeigandi af hæstv. forsrh. að leiða málið inn á þær brautir sem hann gerði með ræðu sinni áðan. Það er fullt svo viðeigandi og meira en það, það er sjálfsagt að ræða þetta sem og önnur mál opinskátt á Alþ. Það verður ekki það sem skaðar málstað íslensku þjóðarinnar í þessu máli. Ef það verður eitthvað, sem skaðar málstaðinn, þá verður það fyrst og fremst sú linkind og það aðgerðaleysi sem hæstv. ríkisstj. hefur haft í þessu máli allt frá upphafi. Það er því tími til kominn að hún taki á sig rögg, söðli um og hafi forustu í því sem gera skal, taki höndum saman við stjórnarandstöðuna í því að gera róttækar ráðstafanir og sýna viðbrögð sem verða til þess að bretar hætti þeim yfirgangi sem þeir hafa sýnt hér á miðunum á undanförnum mánuðum.