04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

25. mál, húsnæðismál

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Norðurl. v., gerði leiguíbúðirnar að umtalsefni og taldi að þær hefðu orðið hornreka í kerfinu. Ég er honum sammála um það, að í því sambandi þarf mjög margt að endurskoða, bæði varðandi lagasetninguna og þá reglugerð sem um það gildir.

Því er ekki að neita að lagaákvæðin um leiguíbúðir, sem sett voru fyrir þremur árum, voru því miður ekki nægilega vel undirbúin. Þar var ákveðið að reisa skyldi á 5 árum 1000 leiguíbúðir og að húsnæðismálastjórn — Byggingarsjóður — skyldi lána 80% af byggingarkostnaði. Fyrsti annmarkinn á þessu var sá að það var ekki hugsað fyrir neinum nýjum tekjustofni. Það er mikill misskilningur eða misminni hjá hv. fyrirspyrjanda, 7. landsk. þm., Helga F. Seljan, að tryggður hafi verið sérstakur tekjustofn í þetta. Það var ekki gert, þannig að leiguíbúðunum var aðeins bætt ofan á Byggingarsjóð án þess að honum væri aflað viðbótartekna. Þetta hefur að sjálfsögðu valdið Byggingarsjóði ákaflega miklum erfiðleikum, en eins og kom fram í upplýsingum mínum hefur þó bæði 1974 og 1975 verið gerð veruleg úrlausn í þessum efnum. Hinu er ekki að neita, að fjárþörf vegna leiguíbúða sveitarfélaganna gengur á fjármagn Byggingarsjóðs til annarra hluta, og þarf í rauninni ekki fleiri orðum um það að fara. Hér er um mjög alvarlegt mál að ræða.

Annað atriði, sem valdið hefur nokkrum erfiðleikum, er að þegar lögin um leiguíbúðir sveitarfélaga voru sett var ekki hugsað nægilega um hvernig þetta félli að húsnæðismálakerfinu að öðru leyti. Nú hefur komið í ljós að margir hafa verulegan áhuga á verkamannabústöðum í landinu og þarna hefur orðið nokkur árekstur í milli. Þess hefur orðið vart að þar sem menn höfðu fyrirætlanir um verkamannabústaði hafa sumir hætt við þær fyrirætlanir til að snúa sér að þessum leiguíbúðum, og þeir, sem mestan áhuga hafa í sambandi við verkamannabústaðina, hafa haft — og hafa tjáð mér það ýmsir — miklar áhyggjur af þessu atriði.

Allt þetta þarf auðvitað að endurskoða. En það er rétt, fyrst leiguíbúðirnar eru sérstaklega gerðar hér að umtalsefni, að vekja athygli á þessu tvennu, að málið var ekki nægilega undirbúið, hvorki séð fyrir tekjustofni né hugað að því hvernig þetta félli að kerfinu.

Nú var á s. l. sumri skipuð sérstök n. manna í samráði við bæði Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og fleiri aðila til allsherjarendurskoðunar á húsnæðismála lögunum, þar sem m. a. ákvæðin bæði í lögum og reglugerð um leiguíbúðir koma til athugunar.

Ég vil taka það fram að ég er hv. fyrirspyrjanda, Helga F. Seljan, alveg sammála um að æskilegt sé að hækka hámarksupphæðina til kaupa á eldri íbúðum. Hún var hækkuð á síðasta þingi úr 80 millj. á ári í 160 millj., en ég tel að það væri mikil þörf á að hækka hana enn.