15.03.1976
Neðri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2554 í B-deild Alþingistíðinda. (2128)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða hér um frv. þetta í löngu máli, en ég hlýt að vekja athygli á því að hér er staðið að afgreiðslu mjög stórs máls á nokkuð sérkennilegan hátt. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. minni hl. sjútvn. um óviðurkvæmilega afgreiðslu málsins hér. Mér sýnist vera lítil ástæða til þess að standa á þennan hátt að afgreiðslu máls eins og þessa, vegna þess að hér er ekki um neinn meiri háttar ágreining að ræða. Ég hafði lýst því yfir við 1. umr. um málið fyrir hönd míns flokks að við gætum fallist á meginsjónarmið það sem fram kæmi í frv., þ.e.a.s. að gera ráðstafanir til þess að tryggja nokkru betur en nú er í gildandi lögum innheimtu á vátryggingariðgjöldum fiskiskipa í kjölfar þeirra breytinga sem þegar er búið að gera á áður gildandi lögum um vátryggingasjóð. Þannig er sem sagt samstaða um meginsjónarmiðið. Hins vegar gerði ég aths. við nokkur atriði sem ég tel að hafi verið full ástæða til að vekja athygli á, en það virðist vera að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra ábendinga, sem ég setti þar fram, af hálfu meiri hl. í sjútvn., og það er ekki orðið við því að gefa upplýsingar um málið, sem þó er fyllilega eðlilegt að séu gefnar um jafnmikið mál og hér er á ferðinni.

Það er þá í fyrsta lagi, sem ég vildi benda á, að hér er verið að gera ráðstafanir til þess að heimilt verði að innheimta með sérstökum hætti allt að 5% af heildarverðmæti afla fiskiskipa miðað við innanlandsverð og 4% af heildarsöluverðmæti afla erlendis, og það er gert ráð fyrir því í frv. að skv. þessari innheimtuheimild geti verið um að ræða innheimtu sem nemur 1000–1100 millj. kr. Þessi nýja aðferð er sem sagt tekin upp í staðinn fyrir þá breyt. sem gerð hefur verið á fyrra fyrirkomulagi um innheimtu þessara gjalda, og þá er rétt að átta sig á því hver sú breyting er. Skv. upplýsingum, sem hér liggja fyrir hv. þm., var áætlað að iðgjöld, sem innheimt yrðu með útflutningsgjaldi af sjávarafurðum skv. fyrra fyrirkomulagi, mundu nema á yfirstandandi ári 1182 millj. kr. hefði það fyrirkomulag haldið áfram óbreytt. Grein var gerð fyrir því að eftir þá breytingu, sem búið er að gera á þeim reglum, mundi Tryggingasjóður fiskiskipa halda eftir 613 millj. kr. samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar, eða m.ö.o. að iðgjaldainnheimta samkv. þessari aðferð rýrnar um 569 millj. kr. á ári, en í staðinn er hins vegar nú lagt til að taka upp innheimtu sem áætlað er að skili 1000–1100 millj. kr.

Hér er því verið að gera ráð fyrir miklu meiri gjaldtöku á þennan hátt en var áður í lögum, að vísu í öðru formi og að mínum dómi réttlátara formi. En því er að sjálfsögðu haldið fram, að það muni ekki af veita, þó að þessi háttur verði hafður á, að innheimta svona miklum mun meira á þennan sjálfvirka hátt en áður var gert ef innheimta eigi sem nemur öllum iðgjaldagreiðslum flotans. Þá er nú í fyrsta lagi við það að athuga, að það er engin ástæða að mínum dómi til þess að innheimta á þennan hátt alveg alla upphæðina, ekki frekar nú en áður var. Við því er ekkert að segja þó að vátryggingafélögin, sem tryggja flotann, þurfi að innheimta nokkuð, sem upp á vantar, hjá hinum ýmsu aðilum. Nú gefur það líka auga leið, að ef á, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að innheimta sem nemur nálega allri iðgjaldaupphæðinni fyrir allan flotann á þennan sjálfvirka hátt, ýmist með útflutningsgjöldum eða sérstöku gjaldi af lönduðum fiski, þá þýðir það að hér verður um að ræða sjálfvirka innheimtu umfram það sem ýmsir aðilar eiga að greiða af því að menn greiða ekki allir jafnt. Sumir þurfa að greiða hlutfallslega miklu meira en aðrir miðað við sinn afla. Aðrir komast af með að borga lægri iðgjöld og fiska þá jafnvel líka meira. Ef á að setja upp kerfi sem gerir ráð fyrir innheimtu á öllum iðgjöldum, þá verður farið inn á þá braut að innheimta meira en þörf er hjá sumum aðilum, en auðvitað mundi það ekki duga til fullrar innheimtu hjá þeim sem verst stendur á hjá. Þetta er að mínum dómi alveg óeðlilegt. Það á ekki að ganga inn á þessa braut.

En þegar menn gera ráð fyrir því að fara inn á þessa óeðlilegu braut, þá væri þó auðvitað lágmarkið bað að þannig yrði búið um hnútana að þeir, sem hafa t.d. á miðju ári eða síðari hluta árs sannanlega greitt allt það sem þeim ber að greiða samkv. þessum reglum, þá hafi þeir tvímælalausan rétt til þess að innheimta hjá þeim falli niður eða þeim verði skilað því fjármagni sem þeir hafa ofgreitt. En þá er þetta frv. þannig úr garði gert, svo háðulega, vil ég segja, að það gerir ekki einu sinni ráð fyrir þessu á eðlilegan hátt.

Í 3. gr. frv. segir um þetta atriði, með leyfi forseta: „Þó er heimilt að endurgreiða skipseiganda innistæðu skipsins fyrr séu vátryggingariðgjöld skipsins að fullu greidd.“ — Séu vátryggingariðgjöldin að fullu greidd, þá er heimilt að endurgreiða. Auðvitað ætti þetta að orðast þannig að það sé ekki heimilt að innheimta séu iðgjöldin að fullu greidd og það beri tvímælalaust að endurgreiða, það sé skylda að endurgreiða ef menn hafa greitt að fullu. En þarna er komið, eins og stundum er bent á, þetta „egta“ hjá kerfinu. Kerfið er ekki að virða rétt hinna einstöku aðila. Það segir bara: Við skulum hafa allan réttinn okkar megin. Við höfum að vísu heimild til þess, en við erum ekki skyldugir. Við gerum það bara ef okkur sýnist. — Og þegar svo haganlega er frá öllu gengið að sá aðili sem á að sjá um að endurgreiða í þessu tilfelli, hefur beinan hag af því, hann hefur tekjur af því að endurgreiða sem minnst, af því að það, sem honum er greitt, er lagt inn á sérstakan reikning og hann fær vexti af því og það eru einmitt þessar vaxtatekjur sem eiga að vera hans aðaltekjur fyrir hans snúninga í málinu, þá gefur auðvitað auga leið að hann mun ekki endurgreiða miklu meira en hann þarf tvímælalaust að gera. Þetta er vægast sagt óeðlilegt, og ég lýsi undrun minni á því að meiri hl. sjútvn. skuli skila frá sér frv. í þessum búningi. Þetta getur ekki verið af neinn öðru en því að meiri hl. hefur flumbrað afgreiðslu málsins, eins og hér hefur komið fram. Hann hefur lítið kynnt sér málið og honum er í rauninni alveg sama um hvað þarna stendur, það þurfi bara að drífa frv. í gegn.

Afstaða mín er sú, að ég sé enga ástæðu til þess að gera þessa sjálfvirku gjaldtöku á tryggingariðgjöldum víðtækari en áður var. Það er nægilegt að tryggja þennan sjálfvirka hátt á innheimtu sem nemur svipaðri fjárhæð og áður var. Ég vorkenni ekki þeim, sem vátryggja skipin, að sjá um að innheimta afganginn hjá þeim sem afgangur myndast hjá. Þeir hafa fengið nægilega tryggingu með því að hafa innheimtu á svipaðan hátt og áður var, og síðan á vitanlega að setja inn í lögin skýr ákvæði um að það sé beinlínis skylda að endurgreiða hafi verið oftekið og það sé ekki hægt að halda þessu fé fyrir mönnum að þarflausu.

Þá er hitt atriðið sem ég vék hér að við 1. umr. málsins, en það er að það fé, sem er innheimt á þennan hátt af útgerðaraðilum, ætti fremur að leggjast inn á reikning hjá Tryggingasjóði fiskiskipa heldur en að fara að blanda Landssambandi ísl. útvegsmanna inn í málið og koma þarna upp tveimur aðilum um sama atriðið. Mér er vel kunnugt um það að 9msir aðilar tryggingarfélaganna hafa gert till. um að þetta skuli allt renna beint til Tryggingasjóðs fiskiskipa, en fara ekki inn á sérstakan reikning hjá L.Í.Ú. Og það hafa ekki komið fram neinar frambærilegar skýringar á því, vegna hvers er verið að draga Landssamband ísl. útvegsmanna inn í þetta og láta þetta fé á sérstakan reikning hjá L.Í.Ú. Ég hef bent á það, að það er mikil hætta á því að það verði verra að koma við endurgreiðslu, þegar menn telja sig hafa greitt það sem þeim ber að greiða, þegar þarf að eiga við tvo aðila sem hafa fengið innheimtuaðstöðu með þessum hætti, hvor með sínum hætti. Það verður miklu verra að fá þessa aðila til þess að viðurkenna að útgerðareigandi sé búinn að greiða það sem honum ber þegar hann þarf fyrst að ræða við forstöðumann Tryggingasjóðs fiskiskipa og síðan við fulltrúa hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna og fá þá báða til þess að fallast á það að viðkomandi aðili sé raunverulega búinn að greiða allt sem honum ber heldur en ef þetta hefði verið allt hjá einum og sama aðila.

Ég vil segja að ég er algjörlega sammála því áliti, sem fram kemur hjá minni hl., og þeim till., sem þar eru gerðar. Ég tel að 1. brtt. á þskj. 415, sem gerir ráð fyrir því að í staðinn fyrir 5% innheimtugjald komi 3% og í staðinn fyrir 4% komi 31/2%, — ég tel að sú innheimta, sem þarna er gert ráð fyrir, mundi tryggja a.m.k. jafnmikla sjálfvirka innheimtu vátryggingariðgjalda og fyrri lög hefðu tryggt — a.m.k. jafnmikið. Hér er um að ræða að hér er verið að ganga miklum mun lengra. Ég vil einnig benda á það, að það er vissulega hættulegt að fara inn á þá braut í þessum efnum að ætla að gera svona innheimtu alla algjörlega skyldubundna með sameiginlegri prósentu yfir alla línuna. Hvað segja menn næst um það þegar olíufélögin í landinu koma og þau fara fram á að það verði sjálfkrafa tekin til greiðslu á olíuúttekt skipanna ákveðinn hundraðshluti af innlögðum afla og gert ráð fyrir því að sú innheimtuprósenta verði svo stór að hún dugi að jafnaði yfir allan flotann? Hvers vegna ekki að verða við því? Hví ekki að taka svo næsta útgjaldalið þar á eftir og hvern af öðrum þar til þetta er orðið algjörlega ríkisrekið í sambandi við allar greiðslur? Það var, eins og ég segi, engin ástæða til að tryggja hér meiri sjálfvirka innheimtu á iðgjöldunum en áður var í gildi. Ég hafði lýst mig fylgjandi því að það yrði gert, að tryggja þarna álíka mikla greiðslu og þá var, en umfram það sé ég enga ástæðu til þess.

En ég veit að hæstv. sjútvrh. leggur mikla áherslu á að málið nái fram að ganga sem fyrst, af því að það er komið fram yfir þann tíma sem gert var ráð fyrir að þessi lög kæmu til framkvæmda, og það vakir ekki fyrir mér á neinn hátt að tefja afgreiðslu málsins. Það er engin ástæða til þess. Það hefur mér ekki dottið í hug. En hitt segi ég, að þessi afgreiðsla er mjög óviðurkvæmileg og óeðlileg á allan hátt. Hér vantar upplýsingar um jafnstórt mál eins og þetta er, upplýsingar sem hér hefðu átt að fylgja með. Það hefði t.d. átt, eins og ég hef bent á áður, að liggja hér fyrir sæmileg grg. um rekstur Tryggingasjóðs fiskiskipa á s.l. ári, hvað iðgjöldin til hans voru mikil og hvað heildariðgjöldin af öllum flotanum voru mikil, eftir því sem menn vita best um nýliðið ár. Þetta hefði allt saman átt að koma fram, og ég veit að það eru til upplýsingar um þetta. Síðan hefði átt að koma fram á skilmerkilegan hátt, hvað menn áætli að iðgjöldin muni verða mikil á yfirstandandi ári, og gera grein fyrir þeirri hækkun sem hefði orðið á því frá árinu á undan, hvernig stendur á því. Þannig hefði þá komið skýrt fram að hér er verið að gera ráð fyrir meiri sjálfvirkri innheimtu á þessum gjöldum en hingað til hefur verið gert, eins og ég hef verið að benda á.

Það eru auðvitað ýmis önnur atriði sem hefðu átt að koma fram upplýsingar um. Þegar um svona mikla gjaldtöku er að ræða, þá auðvitað koma upp vandamál alveg augljóslega. Við vitum að það er þannig haldið á þessum málum að útgerðareigandi verður í mjög mörgum tilfellum af ýmsum ástæðum að greiða fyrst sjálfur viðgerð á tjónum. Þetta á sér t.d. stað þegar skip fer í tjónviðgerð erlendis og viðgerðin er þar greidd að fullu og öllu með aflaverðmæti skipsins. Og mörg fleiri tilfelli koma þannig til að útgerðaraðili greiði hreinlega tjónabæturnar fyrst sjálfur og á síðan sinn uppgjörsrétt á þann aðila sem sér um greiðslurnar að öðru leyti. En þegar búið er á þennan sjálfvirka hátt, að innheimta svona hátt gjald, þá hlýtur að koma í mörgum tilfellum til verulegrar endurgreiðslu og ber vitanlega að tryggja það að sú endurgreiðsla geti farið fram með eðlilegum hætti.

Ég hef lýst afstöðu minni til málsins. Ég er fylgjandi brtt. á þskj. 415 og hef gert grein fyrir afstöðu minni til málsins almennt.