04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

25. mál, húsnæðismál

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er auðvitað enginn tími til þess að gera nein skil að ráði umr. um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga á þeim stutta tíma sem hér er til umráða. En ég vil eigi að síður nota þann tíma til þess að undirstrika sérstaklega það sem hér er raunar komið fram, kom fram hjá hv. þm. Páli Péturssyni, að einmitt þetta mál, leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga, er að mínu viti mjög stórt mál fyrir landsbyggðina og er full ástæða til að haga svo vinnubrögðum í sambandi við framkvæmd þess máls að það nái þeim tilgangi sem raunverulega var til ætlast á sínum tíma. Nú er það að vísu rétt, sem kom fram hjá hæstv. félmrh., að það var ekki, að því er ég best veit, séð fyrir sérstökum tekjustofni vegna þessara framkvæmda. Það var ekki heldur gert í reynd í sambandi við framkvæmdir í Breiðholti, en þær nutu eigi að síður nokkurs forgangs meðan þær framkvæmdir stóðu yfir og standa að vísu yfir að hluta enn, þannig að að því leyti er þetta nokkuð sambærilegt. En staðreyndin er eigi að síður sú að leiguíbúðirnar hafa orðið hornreka í kerfinu og er nauðsyn á að breyta því.

Þetta er sem sagt brennandi mál hjá hinum ýmsu sveitar- og bæjarfélögum úti á landsbyggðinni, — mál sem þau sveitarfélög hafa bundið miklar vonir við að yrði til þess að leysa það mikla húsnæðisvandamál sem uppi hefur verið og er raunar enn á landsbyggðinni, en hefur því miður ekki sem skyldi komið að þeim notum sem reiknað var með. Mér er um það kunnugt að fyrrv. hæstv. félmrh. hafði uppi um það hugmyndir og var búinn að láta vinna að því nokkuð að flýta byggingu þessara leiguíbúða, að stytta byggingartímann a. m. k. um eitt ár, þannig að það kæmi á fjórum árum sem upphaflega var ætlað að kæmi til framkvæmda á fimm árum. Það er greinilegt að í þetta hefur komið afturkippur, þannig að það er ekki séð enn hvort þetta mál kemst raunverulega fram á þeim tíma sem því var upphaflega ætlað, hvað þá heldur að tíminn styttist, eins og uppi voru hugmyndir um á sínum tíma. En það er vissulega mjög nauðsynlegt að breyta hér um. Það væri nauðsynlegt að breyta því ákvæði í lögum, sem hér um ræðir, í skyldu að þessu leyti, ekki heimild, og í öðru lagi að breyta þeirri reglugerð, sem nú er í gildi, varðandi þá möguleika sem sveitarfélögin hafa til þess að losa sig úr þessum framkvæmdum eða réttara sagt að selja viðkomandi íbúðir. Þetta þarf hvort tveggja að athuga og er brýn nauðsyn á að það verði gert fyrr en síðar.