15.03.1976
Neðri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

158. mál, vátryggingariðgjöld fiskiskipa

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna ákaflegra sérstæðrar ræðu hv. þm. Jóns Skaftasonar. — Ég vil strax í upphafi lýsa því yfir að ég vil ekki verða til þess að tefja þetta mál á einn eða annan hátt fyrir hæstv. ráðh. Það er síður en svo tilgangurinn. Hins vegar finnst mér að okkur, sem settir erum í n. eins og hv. sjútvn. d., beri skylda til að vinna samviskusamlega að okkar verkum, okkur beri skylda til þess að kanna málin og okkur beri skylda til þess að teita upplýsinga um þau. Ef þessar upplýsingar liggja ekki fyrir eftir umr. í Ed., því skyldi maður þá ekki reyna að fá þær upplýsingar þegar málið er tekið fyrir í hv. Nd.?

Það, sem ég sagði um meðferð þessa máls, var allt satt og ekkert af því var hrakið í ræðu hv. þm. Jóns Skaftasonar. Það kann að vera að hv. þm., sem er þekkt prúðmenni og ég viðurkenni það, hafi þótt orðavalið nokkuð á annan veg en hann hafði vonast til af mínum vörum af eðlilegum ástæðum, þ.e.a.s. að það hafi verið eitthvað harðara heldur en hafi farið vel í hans diplómatísku eyrum. En ég tel að það, sem ég sagði um þetta mál í fyrri ræðu minni, hafi allt saman verið rétt og það standi óhrakið enn.

Meðferð málsins í hv. Ed. var ákaflega lík því sem stóð til að yrði í hv. Nd. Það var haldinn einn fundur um málið og undir nál. þar skrifa fjórir menn, þar af þrír úr stjórnarfl., en fulltrúi okkar úr Alþb. átti þess ekki kost að sitja þann fund. Ég athugaði hvort um einhverjar umsagnir hefði verið að ræða, hvort það hefði verið leitað umsagna og að hvaða leyti málið hefði verið kannað í meðferð n. í Ed. Um það segir ekkert einasta orð. Það virðist ekkert hafa verið kannað, heldur bara hóað saman fundi í nokkrar mínútur og málið afgr. og skrifað undir þetta þegjandi og hljóðalaust, enda fór það í gegn næstum því umræðulaust í deildinni.

Að ég hafi verið að tala um að þetta væri eitthvert sérstakt þinghneyksli og annað í þeim dúr, það er ekki heldur alveg hárrétt hjá hv. þm. Mér finnst að þó að þm. óski eftir upplýsingum og vilji fá að vita um viss atriði í sambandi við stórmál, sem verið er að afgr., að það þýði ekki það að þeir séu að reyna að draga afgreiðslu málsins. Það stóð aldrei til af minni hálfu. Ég vildi bara. fá að vita um viss atriði og það fleiri en eitt atriði sem ég spurði um. En hvernig voru svörin á þessum nefndarfundum þegar við vorum að fjalla um þetta mál, þegar ég var að spyrja um ákveðin atriði í tengslum við málið? — Þú getur bara séð þetta í grænu bókinni. Ég skal tala við hæstv. ráðh., sagði formaðurinn. Ég skal hringja í Jóhann Friðfinnsson, sagði hv. þm. Guðlaugur.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson brá sér í símann til þess að ræða við hæstv. ráðh. eftir að ég hafði spurt um þetta atriði í 3. gr. Það hafði ekki hvarflað að honum að fara að velta vöngum yfir þessu ef hann hefði ekki fengið fsp. um það. Það var ein fsp. Þegar ég spurði um hvernig greiðslum hinna ýmsu bátastærða hefði verið háttað áður og hvernig það mundi verða með þessu, þá var mér bara vísað í að lesa þessa þrjá grænu kladda þarna. En ég vil spyrja bara hv. þm. Jón Skaftason: Er það með þessum hætti sem þm. eiga að fá upplýsingar um mál sem er verið að fjalla um, stærðarmál, að einn bjóðist til að hringja út í Vestmannaeyjar, annar vilji hafa spjall við ráðh. og þriðji vísi manni á að taka sér eina lexíu í grænu bókunum? Er það svona sem á að fara að þessu? Ég vil ekki gera úr þessu mikið mál, en ég sé enga ástæðu til þess að vera að reyna að standa hér upp og verja þetta með einhverju kattaklóri. Ég hefði haft hægt um mig í sporum hv. þm. Jóns Skaftasonar, en ekkert verið að flíka slíkum vinnubrögðum. Þetta auðvitað nær ekki nokkurri einustu átt.

Ég neita því algjörlega og vísa því til föðurhúsanna að minn málatilbúnaður í sambandi við afgreiðslu þessa máls hafi verið eitthvað ómerkilegur. Ég hafði þetta frv. í höndunum. Ég var að vísu búinn að kynna mér nokkuð þessa grænu bók og hvað hafði verið borgað í þessa sjóði. Það sem ég vildi gera með því að fá þessar upplýsingar, það var að þær lægju fyrir öðrum hv. alþm. Ég þóttist vita eitthvað af þessu, en ég vildi að þingheimur hefði þó eitthvað í höndunum um það hvernig vissum hlutum í sambandi við þetta mái væri háttað, þannig að hv. þm. vissu hvað þeir væru að greiða atkv. um, en væru ekki hreinlega að afgr. þetta umhugsunarlaust, skoðunarlaust og þekkingarlaust. (Gripið fram í.) Ég skal ekki fullyrða um það vegna þessarar spurningar hv. þm. Jóns Skaftasonar hvort þeir hafi afgr. þetta svona í Ed. Ég kann ekki að svara fyrir það. Ég vil ekki vera að fullyrða neitt um það. En hitt er svo annað mál, að þeir afgr. þetta þó þannig í hv. Ed. að það stendur hvergi nokkurs staðar á blaði neitt annað en það að þeir hafi samþ. frv. eins og það er, engar skýringar, engar umsagnir og ekkert af því tagi. Ég get ekki fallist á það að maður virðist vera undir einhverri pressu með því að draga afgreiðslu málsins. Það hefur enginn farið fram á það við mig að draga afgreiðslu málsins á neinn handa máta. Ég vildi bara standa að þessu á þann hátt sem ég tel að hv. þm. eigi að gera: að reyna að kynna sér málin að svo miklu leyti sem hægt er þannig að Alþ. verði ekki einu sinni enn með réttu sagt vera bein afgreiðslustofnun fyrir vinnunefndir úti í bæ, jafnvel þó að þær vinni vel. Ég tel að afgreiðsluháttur á þessu máli sýni einmitt, eins og fleiri mál sem hafa verið afgr. á hinu háa Alþ. í vetur, að það stefnir einmitt í þessa átt, því miður.

Ég sé ekki ástæðu til þess að segja miklu meira um þetta að sinni. Þó get ég ekki stillt mig um aðeins að kasta fram þeirri spurningu í sambandi við 3. gr, hvernig stendur á því að ekki má setja í lög að það sé skylt að endurgreiða skipseiganda innistæðu o.s.frv. í staðinn fyrir að það sé aðeins heimilt, ef menn fara fram á það hver á eftir öðrum, hv. þm. Tómas Árnason, hv. þm. Guðlaugur Gíslason og ég meðal annarra, að þetta skuli greitt. Af hverju má þá ekki segja bara: Það skal greiða þetta fyrr ef menn eru búnir að borga að fullu — í staðinn fyrir að hafa heimild í lögunum — bara heimild? Ég skil það ekki að mönnum þyki betra að fá yfirlýsingu frá ráðh. heldur en að hafa það alveg skýlaust svart á hvítu í lögunum sjálfum. Þetta finnst mér óskiljanlegt.