16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (2139)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Út af ræðu og fyrirspurn hv. 2. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar, vil ég taka fram að þegar þeirri endurskoðun lýkur, sem ég gat um í svari mínu áðan, mun hún vera kynnt Alþ. og skýrsla gefin um stöðu málsins.

Varðandi vangreiðslu vinnulauna vil ég einnig taka það fram, að ég hef beint til forráðamanna Járnblendifélagsins að gera það sem hægt er til að greiða úr þeim erfiðleikum.

Hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, ræddi hér nokkuð um lögin um ríkisábyrgð á launum við gjaldbrot, sem ég hafði drepið á, og kom því að' að þetta væru lög sem Magnús Kjartansson fyrrv. ráðh. hefði beitt sér fyrir. Mér finnst fara mjög vel á því að hv. þm. dregur inn í umr. nafn Magnúsar Kjartanssonar, slíkan áhuga sem hann hefur sýnt á því máli frá upphafi og slíkur frumkvöðull sem hann var um stofnun Járnblendifélagsins.

En varðandi þessi lög Magnúsar Kjartanssonar, þá er svo ákveðið í 4. gr. að rn. er bannað að inna af hendi nokkrar greiðslur vegna vangoldinna launa fyrr en úrskurður um gjaldþrotaskipti eru gengin, þannig að hendur ríkisstj. eru að þessu leyti bundnar með lögunum. En þar sem hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Vesturl., hefur nú snúið sér frá mér og beint frekari spurningum til hv. 2. þm. Vestf., Steingríms Hermannssonar, læt ég hér staðar numið.