04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (214)

30. mál, kjaradómur og launamál opinberra starfsmanna

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að uppi hefur verið og er enn alvarleg deila milli ríkisins annars vegar og opinberra starfsmanna hins vegar, þ. e. a. s. BSRB, Bandalags háskólamanna og lækna. Hér er um að ræða eitt alvarlegasta vandamál sem nú er við að etja í íslenskum efnahagsmálum, í íslensku þjóðlífi, þar eð ljóst er af opinberum fregnum að mikið ber á milli samningsaðila, ríkisvaldsins annars vegar og starfsmanna þess hins vegar.

Skv. gildandi lögum átti málið að ganga til Kjaradóms 1. nóv. s. l. Úrskurður hans átti síðan að falla fyrir árslok og ný laun skv. honum að taka gildi 1. júlí n. k. Nú hefur það hins vegar gerst, sem aldrei hefur gerst áður og hlýtur að teljast til stórtíðinda í íslenskum kjaramálum, að fulltrúar opinberra starfsmanna hafa sagt sig úr Kjaradómi.

Af þessum sökum hef ég leyft mér að bera fram þá fsp. til hæstv. fjmrh. hvort hann telji að Kjaradómur sé starfhæfur og fær um að kveða á um laun opinberra starfsmanna eftir að fulltrúar þeirra hafa sagt sig úr dómnum, og jafnframt vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., til þess að undirstrika hversu alvarlegt mál hér er á ferðinni, hvernig ríkisstj. hyggist bregðast við því ástandi sem nú hefur skapast varðandi launamál opinberra starfsmanna. Ég tel ekki aðeins opinbera starfsmenn sjálfa eiga eðlilegan og sjálfsagðan rétt á því að vita hvern gagn ríkisstj. hugsar sér að hafa á þessu máli öllu eftir að það algjörlega óvenjulega ástand hefur skapast að fulltrúar opinberra starfsmanna hafa sagt sig úr dómnum, og það er ekki aðeins eðlileg ósk, að opinberir starfsmenn vilji vita hvar þeir standa, heldur allir sem hafa hagsmuna að gæta í sambandi við þá kjarasamninga sem vitað er að munu hefjast um næstu áramót eða fyrir næstu áramót, því að frá þeim tíma eru samningar launþegasamtaka yfirleitt lausir. Það varðar alla þessa aðila, aðila vinnumarkaðarins yfirleitt, við hverju má búast í samskiptum ríkisvaldsins annars vegar og opinberra starfsmanna hins vegar. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þessa fsp. til hæstv. fjmrh.