16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (2140)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Vesturl., las hér upp úr Tímanum. Það er yfirleitt rétt sem stendur í því blaði og það er rétt sem stendur í því um þetta mál. Það sem haft er eftir mér þar. Blaðamaður frá Tímanum hafði samband við mig í gær og var með ýmsar upplýsingar sem voru margar rangar. Ég reyndi að leiðrétta það. Það sem hv. fyrirspyrjandi las, með leyfi hæstv. forseta, hljóðaði svona: „Að sögn Steingríms verður endanlega úr því skorið á næsta fundi í stjórn járnblendiverksmiðjunnar hvort hætt verði við að reisa verksmiðjuna.“ Þessi hluti er rétt eftir mér hafður. Síðan heldur áfram: „en eins og fram kemur hér að framan virðast nokkrar líkur á því að Union Carbide hætti þátttöku í fyrirtækinu.“ Það er ályktun af þeirri athugun sem Union Carbide hefur gert, eins og ég skýrði frá. Það er hans mat. Ég taldi mér ekki fært að kveða upp neinn dóm um það. Ég benti hins vegar á, eins og fram kemur í þessari grein og ekki var lesið upp, að járnverð hefur farið hækkandi nú upp á síðkastið og kann það vel að breyta viðhorfum Union Carbide til þessa máls.

Ég hef einnig talið að það hljóti að verða tekin ákvörðun um þetta endanlega á næsta fundi. Ég sit að vísu ekki í stjórn fyrirtækisins en samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef, sýnist mér að það hljóti að verða, því að það er ákaflega erfitt að láta mál sem þetta hanga nánast í lausu lofti lengi. Mér er kunnugt um að sú skýrsla, sem Union Carbide hefur gert, er nú í endurskoðun, eins og hér kemur fram, og á að liggja fyrir með endanlegum niðurstöðum von bráðar.

Ég vil svo segja almennt um þetta mál, að að sjálfsögðu hefur enginn aðill, hvorki Union Carbide né íslenska ríkið, áhuga á því að leggja í atvinnurekstur ef hann er ekki arðbær. Það er ekki nema virðingarvert að málið sé skoðað mjög vandlega, og mér sýnist að stjórn þessa fyrirtækis hafi valið þann kostinn að skoða málið að nýju mjög vandlega eftir það mikla verðfall sem varð og kom óvænt á s.l. ári á stáli, og ferrósílikon fylgdi þar á eftir því að sú framleiðsla er mjög tengd framleiðslu stáls, enda notað í því sambandi eingöngu. Þetta helst því mjög í hendur. Það kom einnig fram við það markaðsástand, sem þá skapaðist, að norðmenn ráða mjög svo markaðsverði. Norðmenn héldu áfram að framleiða í birgðir, eftir því sem ég hef frétt, og nutu til þess fjárhagsaðstoðar hjá sinni ríkisstj. Það voru svo norðmenn sem ákváðu verðlækkun á þessu efni. Með tilliti til þessa veit ég ekki betur en að stjórn fyrirtækisins hafi öll talið sjálfsagt að skoða þetta mál nákvæmlega.

Ég sé ekki ástæðu til að ég fari að ræða þetta mál hér nánar nú. Ég stóð upp eingöngu vegna þess að þessu var beint til mín út af því sem birtist í Tímanum í gær.