16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (2141)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar, að enda þótt það kunni að vera góðra gjalda vert af hálfu stjórnar Járnblendifélagsins að taka þetta mál til endurskoðunar í ljósi nýrra upplýsinga sem fyrir liggja um hagkvæmni þess að reka járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, — enda þótt það sé efalaust góðra gjalda vert, þá hygg ég að það hefði verið þrátt fyrir allt enn þá betri gjalda vert að Alþ. hefði athugað þetta mál öllu betur en gert var um þetta leyti s.l. ár þegar verið var að fjalla um lagafrv. um fyrirtæki þetta og samninga við Union Carbide. En þá lá svo mikið á að afgr. frv. þetta á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram komu í grg. með frv., á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú er verið að endurskoða, á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú reynast verið hafa kolrangar. Það lá svo mikið á að afgr. þetta frv. þá að framkvæmdir þarna efra, þær framkvæmdir sem nú stendur vandi af, voru hafnar áður en frv. hafði verið afgr. af hv. Alþ. Ein af forsendunum fyrir því, að nauðsynlegt væri að afgr. þetta frv. fyrir páska á því vori, var sú að járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði yrði endilega hreint að vera tilbúin til þess að taka við raforku frá raforkuveri því sem verið er að byggja fyrir þessa verksmiðju, — það væri alveg bráðnauðsynlegt að verksmiðjan væri tilbúin til þess að taka við þessari raforku svo að ekki yrði af því tjón fyrir Landsvirkjun að kaupandinn væri ekki tilbúinn.

Að vísu mun það nú vera svo um þessa nýju stoð sem reist skyldi undir atvinnulífi landsmanna, þessa nýju og traustu stoð og þetta byggðamál, þetta þýðingarmikla byggðamál fyrir borgfirðinga, eins og það var kynnt fyrir okkur hér á hv. Alþ., að öll gagnrýni stjórnarandstöðunnar á málið mun nú hafa reynst sönn vera. Það mun koma fram við endurskoðun þessa máls. En það er alveg bráðnauðsynlegt fyrir okkur að fá fullvissu fyrir því að hæstv. ríkisstj. leyfi nú Alþ. að vera með í ráðum um það hvernig afstýrt verði, eftir því sem hægt er, fjárhagslegu tjóni sem af því leiðir að anað var út í þetta fyrirtæki þrátt fyrir allt. Það er æskilegt að hv. Alþ. fái að fylgjast með því t.d. hvernig á nú að ráðstafa raforku sem afgangs verður samkv. því sem sagt var við afgreiðslu málsins í fyrra, ef frestað verður smíði þessarar verksmiðju um nokkur ár, en að fullu og öllu ef hætt verður við að reisa þessa verksmiðju.

Það var að því er virtist að gefnu óverulegu tilefni notað tækifærið, — hæstv. iðnrh. notar tækifærið að gefnu einhvers konar tilefni til þess að minna á afstöðu Magnúsar Kjartanssonar, sem hér er því miður fjarverandi í dag, til frv. um Járnblendiverksmiðjuna. Ég vil bara rifja það upp. nota tækifærið til þess að rifja það upp, að Magnús Kjartansson, eins og allir alþb.- menn hér á þingi greiddi atkv. gegn þessu frv. En ég fer nú ekki lengra út í þá sálma. Ég er vongóður um að það líði ekki mjög langur tími þangað til Magnús Kjartansson verði kominn hingað til þess að svara fyrir sig sjálfur.