16.03.1976
Sameinað þing: 64. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

312. mál, nýjungar í húshitunarmálum

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það virðist ljóst vera að það hafi komið í ljós við þessar hagkvæmniskannanir að þetta nýja tæki, sem hefur verið fundið upp, muni sýna a.m.k. jafngóða hagkvæmni á við bestu katla af hvorri tegund sem fyrir eru í landinu, auk þess nýmælis að geta blandað saman í einu og sama hitunartæki hitunaraðferðum með tveimur ólíkum orkugjöfum. Ég held að það liggi því alveg ljóst fyrir að hér er um mjög þarft nýmæli að ræða þar sem þessi uppfinning er, — nýmæli sem gæti komið sér mjög vel fyrir þau landssvæði sem geta ekki, a.m.k. í sjáanlegri framtíð, vonast til annars en að halda áfram olíuhitun að öllu óbreyttu. Undir slíkum kringumstæðum held ég að kæmi mjög vel til greina að gera sérstakt átak til þess að minnka kostnað við húshitun á slíkum svæðum. Og ég bendi á, að það kemur a.m.k. mjög til álita að þarna sé fundin leið til þess að draga úr húshitunarkostnaði. Það er mjög ánægjulegt þegar íslenskur uppfinningamaður á hlut að slíku eins og hér um ræðir, og mér finnst sjálfsagt, ef niðurstöðurnar verða í þá átt sem hæstv. ráðh. lýsti, að hið opinbera reyni að leggja eitthvað af mörkum til þess að auðvelda slíkum manni starf hans.