04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

30. mál, kjaradómur og launamál opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Sem svar við fyrri lið fsp. hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar, vil ég segja eftirfarandi:

Þann 17. okt. s. l. barst fjmrn. bréf frá fulltrúum og varafulltrúum BSRB í Kjaradómi og Kjaranefnd þar sem einstaklingar þessir sögðu af sér störfum í Kjaradómi og í Kjaranefnd. Í framhaldi af bréfi þessu skrifaði rn. BSRB svofellt bréf :

„Fjmrh. hefur borist bréf, dags. 17. 1_0. m., undirritað af fulltrúa og varafulltrúa BSRB í Kjaradómi, þeim Inga Kristinssyni og Þórhalli Halldórssyni, og fulltrúa og varafulltrúa BSRB í Kjarnefnd, þeim Kristjáni Thorlacius og Sólveigu Ólafsdóttur, þar sem þessir einstaklingar segja af sér störfum í Kjaradómi og Kjaranefnd.

BSRB er viðurkennd heildarsamtök skv. 1. málsgr. 3. gr. l. nr. 46/1973 og hvílir því á bandalaginu sú skylda að nefna dómanda og varadómanda í Kjaradóm, sbr. 15. gr. l. nr. 46/1973, og nefndarmann og varamann í Kjaranefnd, sbr. 24. gr. sömu laga. Í báðum tilvíkum skal skipun gilda til 4 ára í senn. Skipunartími þeirra fulltrúa BSRB, sem áður voru nefndir, bæði í Kjaradóm og Kjaranefnd, er frá 1. okt. 1973 til 30. sept. 1977 og er því einungis liðlega hálfnaður.

Með vísan til þess svo og þess, að ljóst er, að BSRB er lögskylt að nefna og eiga fulltrúa í Kjaradómi og Kjaranefnd, er bandalaginu hér með tilkynnt að fjmrh. telur að afsagnir ofangreindra fulltrúa BSRB í Kjaradómi og Kjaranefnd geti þá fyrst verið teknar til greina er BSRB hefur nefnt aðra fulltrúa í þeirra stað.

Þeim einstaklingum, sem hér eiga hlut að máli hefur í dag verið sent afrit þessa bréfs.“ Þessu bréfi svaraði BSRB með eftirfarandi bréfi, dags. 31. okt.

„Bandalaginu hefur borist bréf rn., dags. 30. þ. m., varðandi úrsögn fulltrúa BSRB úr Kjaradómi og Kjaranefnd.

Í tilefni af þessu vill bandalagið staðfesta að úrsögn fulltrúa þess úr hinum lögskipuðu gerðardómum var skv. einróma ályktun á sameiginlegum fundi stjórnar BSRB, samninganefndar og verkfallsréttarnefndar bandalagsins 16. þ. m.“

Eins og fram kemur í bréfi rn. lýtur rn. svo á að BSRB eigi enn fulltrúa í Kjaranefnd og Kjaradómi.

Þar sem dómurinn hefur enn ekki verið kvaddur saman síðan bréfaskipti þessi áttu sér stað hefur ekki á það reynt hvort bandalagið ætli að virða gildandi lög um kjarasamninga eða ekki. Því verður ekki trúað að óreyndu að BSRB fari ekki að gildandi lögum í þessum efnum.

Sem svar við 2. lið fsp. hv. þm. vil ég segja þetta :

Mál Bandalags háskólamanna og BSRB eru nú til meðferðar hjá Kjaradómi. Engu að síður verður áfram reynt að ná samkomulagi, og ekkert er því andstætt að sátt verði gerð á meðan úrlausn fyrir dómi hefur ekki fengist. Frestun til dómsuppkvaðningar er til n. k. áramóta.