16.03.1976
Sameinað þing: 65. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2152)

122. mál, hönnun bygginga á vegum ríkisins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta skulu aðeins vera fá orð. Ég vil þó lýsa yfir algeru samþykki mínu við þessa till., tel hana mjög tímabæra og sjálfsagða og raunar einkennilegt að hún skuli ekki fyrir löngu hafa komið fram. Sýnir það í raun og veru litla hugkvæmni okkar alþm. almennt.

Það er ábyggilega tímabært að stinga hér við fótum. Frsm. og flm. till. rakti það svo vel að við það þarf ekki að bæta. Við vitum að allt of margar byggingar á vegum hins opinbera í dag eru nánast minnisvarðar yfir arkitekta, en lítið annað. Dýrleiki bygginganna er oft ekki í neinu samræmi við hagkvæmni eða þau not sem á af byggingunum að hafa, og séð höfum við dæmi þess að því glæsilegri sem byggingin er, því meira í hana lagt, þá er hún að sama skapi óhagkvæmari til þess hlutverks sem hún á að gegna. Og oft virðist manni svo að ytra útlit skipti þar næsta mestu máli, en innri hagkvæmni mun minna. Ég get vel skilið arkitektana, að þeir vilji slá hver annan út í glæsilegum byggingum. Þarna er hörð samkeppni og sá, sem hefur gert fallega byggingu, hann hefur von um að fá fleiri og glæstari verkefni á sina könnu, en sá, sem hefur gert kannske hagkvæma byggingu, en ekki svo sérstaklega útlitsfallega, hann aftur verði undir í samkeppninni og það valdi því að þessi óskapnaður, sem okkur finnst oft vera í þessu, komi út úr dæminu.

Hinu er svo alveg rétt að vekja athygli á, sem hv. flm. gerði reyndar líka, að þessir arkitektar fá vissan stuðning og hann ekki óverulegan frá ýmsum opinberum aðilum, — aðilum sem oft gera óhóflegar kröfur varðandi þessar byggingar, og jafnvel þeir, sem fjármálaábyrgðina eiga að bera, taka oft óþarfan lúxus algerlega fram yfir einfalda og þægilega lausn.

Í flestum tilfellum, sem ég þekki til, er lítið á heimamenn hlustað, þeir hafa fjarska lítið vit hér á og auðvitað allra síst gagnvart arkitektúrnum. Og ég veit dæmi þess að einfaldri, hagkvæmri lausn, í alla staði viðunandi varðandi tiltekna opinbera byggingu, var hafnað, ekki þó af arkitektum, þótt merkilegt megi virðast, heldur af þeim sem áttu hér að sjá um af hálfu ríkisins, og önnur leið farin í staðinn, — leið sem hefur komið þessu viðkomandi sveitarfélagi mjög illa, orðið því hreinlega ofviða. Þarna var ekki arkitektum um að kenna. Þeir voru jafnvel tilbúnir í það að gera ómerkilega byggingu og ómerkilega teikningu eins og heimamenn fóru fram á. En þá sögðu bara hinir opinberu aðilar hér fyrir sunnan: Nei takk, það skyldi ekki gert svona.

Hv. flm. minntist á skipan opinberra framkvæmda. Á síðasta þingi var flutt till. um endurskoðun þeirra laga. Ég spurðist fyrir um það, hvernig þessu liði, nú í vetur. Það kom í ljós, að hæstv. fjmrh. hafði gleymt þessari till., en hún rifjaðist upp fyrir honum með fsp. Hann hafði þá nýlega falið þeim aðila, sem þarna á nú reyndar gleggst til að þekkja, fjvn., að athuga þetta mál, og ég vænti þess að hún hafi tekið til óspilltra málanna varðandi þann þátt sem að henni sneri. Það er ábyggilega full þörf á því að endurskoða þau lög, eins og ég benti á í fyrra í framsögu fyrir þeirri till. Hins vegar hefur því stundum verið haldið fram að eftirlit með opinberum framkvæmdum sé býsna stór liður, þetta svokallaða eftirlit sé býsna stór liður í kostnaðinum við nýbyggingar. Ekki veit ég hvað hæft er í þessu. En sumir þeirra, sem sjá um byggingarnar, eins og arkitektarnir, hafa haldið því fram að þetta eftirlit oft á ári slagaði jafnvel töluvert upp í hönnunarkostnaðinn. Ekki veit ég sönnur á því, en ef þetta er rétt, þá erum við komnir á töluverðar villigötur með þetta svokallaða eftirlit. Og allavega veit ég að það kostar töluverða fjármuni, þó að ég viðurkenni að það sé visst gagn að því án efa.

Hv. flm. minntist einnig á að það þyrfti að gæta hófs varðandi þá teiknistofu sem þeir flm. leggja hér til að komið verði á fót. Ég er vitanlega alveg sammála því. Hann vitnar í tæknideild Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Hún getur verið okkur töluvert til viðvörunar í því efni. Hún vann mjög gott verk og hefur unnið mjög gott verk í sambandi við teikningar til hinna einstöku húsbyggjenda. Síðan var verksvið hennar víkkað út og hún fór út í það að sjá um leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga, þær fáu sem hafa komist í gang enn þá, og þá fór það út yfir öll takmörk. Mér er sagt að þeir kostnaðarreikningar, sem þessi tæknideild hafi sent frá sér varðandi þessar leiguíbúðir, hafi verið svo hrikalegir að ef miðað er við þær 1000 leiguíbúðir sem á nú að byggja, — hvenær í ósköpunum sem það verður nú fullklárað, það er þegar komið á þriðja framkvæmdaárið og lítið hefur áunnist í þeim efnum, — en mér er sagt að kostnaðarreikningarnir hafi verið það háir að ef miðað væri við þessar 1000 íbúðir mundi þessi kostnaður af hálfu þessarar tæknideildar samsvara 300 venjulegum lánum úr húsnæðismálastjórn, miðað við gömlu töluna, 1 millj. 760 þús., þ.e.a.s. kostnaðurinn hafi verið milli 400 og 500 millj. Þannig litu þeir reikningar út og þó voru þeir reikningar, sem ég sá, yfir blokkarbyggingar, íbúðir í blokkarbyggingum, og á hverja íbúð áttu að leggjast, ég man nú ekki nákvæmlega töluna, nokkur hundruð þús. bara frá þessari tæknideild. Þessu hefur nú verið kippt í lag, að því er ég best veit, og húsnæðismálastjórn litið á þetta alvarlegum augum og tekið þetta mál föstum tökum. Vonandi verða svona mistök ekki framar þar, og þessi mistök gætu einfaldlega orðið til þess að menn gættu líka hófs ef út í þá framkvæmd væri farið sem mér þykir sjálfsögð og styð eindregið, að hér verði komið á fót teiknistofu ríkisins sem yrði falin hönnun bygginga á vegum hins opinbera, eins og til er tekið í tillögunni.

Ég sem sagt styð þessa till. eindregið og vona að hún fái hér skjótan framgang og með væntanlega jákvæðri endurskoðun á skipulagi opinberra framkvæmda geti orðið öllum til góðs sem hlut eiga að máli.