17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst lýsa ánægju minni með framkomu þessa frv. og þakka hæstv. ráðh. fyrir þá greinagóðu skýrslu eða umsögn sem fylgdi frv. úr hlaði. Ég vil á sama tíma lýsa furðu minni á tali hv. síðasta ræðumanns sem hefur gleymt hér sínum plöggum, Helga Seljans, sem er bankaráðsmaður Búnaðarbankans. Maður skyldi ætla að hann talaði hér jákvæðara í sambandi við endurskoðun þá sem nú á sér stað í rekstri bankans.

Ég vil fyrst benda honum á að í 13. gr., sem hann vitnaði í, segir skýrt að bankaráð ráði helstu starfsmenn og trúnaðarmenn bankaráðsins við rekstur stofnunarinnar. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta: „Bankaráð ræður aðalféhirði og aðalbókara og stjórnendur útibúa bankans. Alla aðra starfsmenn ræður bankastjórnin og segir þeim upp starfi. Bankaráð ákveður laun starfsmanna bankans.“

Ég get ekki séð neitt ábótavant við þetta frv. Það tekur tvímælalaust fram hverjir ráða aðalstjórnendur hinna ýmsu deilda í bankanum, en segir svo í 14. gr., sem hv. síðasti ræðumaður vitnaði í, að bankastjórn Búnaðarbankans fari með æðstu daglega stjórn á starfsemi bankans, þ.e.a.s. reksturinn allan. Og ég get ekki séð hvernig í ósköpunum er hægt að reka stofnun ef bankastjórarnir eða forstöðumenn stofnunarinnar hafa ekki a.m.k. yfirumsjón og ákvarðanarétt í öllu því sem viðvíkur daglegum rekstri stofnunarinnar. Ég held að það sé ekki nokkur leið að ætlast til þess að bankaráð bankanna taki bókstaflega reksturinn að sér líka eða hafi fingur í hverju einasta máli sem bankastjórn annars hefur með höndum. Ég held að þetta hljóti að vera hugsanavilla.

Hitt er svo annað mál, að það getur verið að það sé alveg rétt að það sé kominn tími til þess að endurskoða bankakerfið í heild, eins og hv. síðasti ræðumaður tók fram, að uppstokkun bankakerfisins væri brýn nauðsyn sem fyrst. Það getur vel verið. En það er af allt annarri ástæðu en þeirri að hér liggi fyrir frv. um fjölgun bankastjóra í Búnaðarbanka Íslands. Ég held að það, sem þar knýi fyrst og fremst á, séu alls konar ráðstafanir sem gerðar hafa verið undanfarið af opinberum aðilum og þá kannske ekki aðallega bankakerfinu, heldur ríkisstj. og peningavaldinu, því að það er staðreynd að með bindifé og bindifjárpólitík, sem rekin hefur verið í bönkunum, hefur fólkið sjálfsagt skapað sér eigin gjaldmiðil, sem er víxlar og alls konar lánafyrirkomulag sem er utan við bankakerfið, en hefur svo smám saman þróast inn í bankakerfið. Þannig er víxlafyrirkomulagið orðið algildur gjaldmiðill manna á milli sem bankakerfið hefur tekið sem góða og gilda vöru og keypt og selt. Og þarna er mikill munur frá því sem ég þekki til eftir þó nokkuð margra áratuga veru erlendis, og þar hef ég einnig staðið í viðskiptum.

En ég vil aðeins taka undir það, að það er brýn nauðsyn að fjölga bankastjórum í Búnaðarbankanum. Eins og fram hefur komið bæði hjá bankaráðsmanninum, sem talaði hér síðast, og eins hjá hæstv. ráðh., er mikill vöxtur í Búnaðarbanka Íslands. Honum hefur auðsjáanlega verið stjórnað mjög vel og hann hefur sýnt árangur sem því miður er ekki sýnilegur í öllum bönkunum og mér er nær að segja ekki sýnilegur í hinum bönkunum. Það segir sig sjálft að það hlýtur að vera talsvert álag þegar bankastjórar þurfa dag eftir dag fyrir utan að sinna sínum daglegu störfum við rekstur bankans eða rekstur stofnunarinnar að sitja í 2–3 tíma — við skulum segja frá því kl. 10 á morgnana og fram undir kannske 1–2 á daginn — við að taka á móti gestum og viðskiptavinum bankans með hin ýmsu erindi og eiga svo eftirmiðdaginn, ef þeir hafa þá tíma til þess, að fara og fá sér að borða og sinna svo þessum erindum samdægurs. Ef ekki eiga að hlaðast upp óafgreidd erindi í stofnuninni, þá hljóta þeir að þurfa viðbótarstarfskrafta, ekki siður bankastjórarnir heldur en starfsliðið sjálft. Ég tel ekki að fjölgun bankastjóra í Búnaðarbanka Íslands sé sú sóun að það sé réttlætanlegt að bankaráðsmaður tali gegn henni, en komi þá með till. um að fækka frekar öðrum ríkisbönkum.

Í sambandi við þann vöxt sem hefur verið í bankakerfinu, þá held ég að hann hafi verið til góða frekar en hitt. Ég held að þetta sé mjög mikið þjónustuatriði fyrir fólkið. Jafnvel þegar Reykjavík var miklu minni að flatarmáli en hún er nú var orðið óþægilegt að þurfa að fara í banka í miðbænum hvaðan sem er úr bænum, — og nú held ég mig við Reykjavík eingöngu vegna þess að ég held að hv. síðasti ræðumaður hafi verið með Reykjavik í huga aðallega þegar hann talaði um fjölgun útibúa, — það var orðið erfitt fyrir fólk að komast í þessar þjónustustofnanir, fyrir utan að miðbærinn í Reykjavík er að verða meira og meira óaðgengilegur fyrir umferð á háannatíma, og fólk hefði þá þurft að hlaupa úr vinnu á þeim tíma sem bankinn er opinn. Nú eru komin útibú víðs vegar um bæinn og fólk getur notið þjónustu þessara peningastofnana má segja með stuttum fyrirvara og hvar sem er.

Ég veit ekki hvað hv. þm. meinar þegar hann talar um að þjónusta við almenning verði ekkert betri eða fyrirgreiðsla, þótt byggingar verði glæstari, þær hjálpi ekkert frekar hinum almenna borgara. Ég held að einmitt Búnaðarbankinn hafi haft þá pólitík frá því að ég fyrst fór að fylgjast með honum og þá var aðeins einn bankastjóri í bankanum, Hilmar heitinn Stefánsson, að greiða fyrst og fremst götu mannsins af götunni. Ég held að hann sé þekktastur fyrir það að ná til fjöldans, og það ætti bankaráðsmaður Búnaðarbanka Íslands að vita. Mér þætti gaman ef hann hefði fyrir því að kynna sér og upplýsa þá fjh.- og viðskn. — því ég tel að þetta frv. eigi meira erindi þangað en landbn. — um afgreiðslufjölda Búnaðarbankans á árinu og hvað af þeim fjölda eru atvinnurekendur, því ég tel að þessir vondu menn, sem hann talar um, séu atvinnurekendurnir, og hvað af þessum fjölda er litla fólkið, sem hann þykist tala fyrir. Ég held að hann komist að raun um að Búnaðarbanki Íslands hafi gert sér far um að ná til þessa fólks.

Það er kannske rétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnari Arnalds, að það sé rétt að samræma lög Búnaðarbanka Íslands og annarra ríkisbanka. Það held ég hljóti að vera sanngjörn krafa að um ríkisbankana yfirleitt gildi hið sama. En ég vil mótmæla því að það sé af einhverjum annarlegum hvötum og annarlegum áhuga að allt í einu, eins og skilja mátti af máli hv. 5. þm. Norðurl. v., sé hlaupið til nú og bankastjórum fjölgað. Ég lít svo á að það hafi verið brýn nauðsyn í langan tíma. Það eru ekki nein annarleg sjónarmið sem ráða því að till. kemur fram nú, um að bankastjórum sé fjölgað, eða bankakerfið hér sé orðið of viðamikið. Það getur vel verið að það sé orðið viðameira en eðlilegt er miðað við fólksfjölda, en það er áreiðanlega ekki svo miðað við það viðskiptakerfi sem við búum við, miðað við þá ásókn sem verður að vera á bankakerfið af einstaklingum og fyrirtækjum, vegna þess að það kemst enginn áfram með neitt, það hefur enginn möguleika á því lengur að svala athafnaþrá sinni öðruvísi en með aðstoð hins opinbera, og þetta er ríkisbanki sem hlaupið er til þegar fólk vill gera eitthvað. Það hefur enginn möguleika til þess að safna fé til þess að svala sinni athafnaþrá.

Ég held að það sé síður en svo, miðað við þá þjónustu sem bankakerfið veitir að það séu of margir bankastjórar eða of mikið starfslið í bönkum. Það getur vel verið að það hafi verið í málefnasamningi ríkisstj., — það er hér um bil það eina sem ég treysti hv. 5. þm. Norðurl. v. til að fara rétt með í sínum málflutningi, að það hafi verið í málefnasamningi ríkisstj. að fækka bankastjórum og fækka peninga- og lánastofnunum hérlendis, eins og hann orðaði það, og n. hafi komið sér saman um að sameina tvo ríkisbanka og — ég veit ekki hvort ég skildi hann rétt — stefna að því að hér yrði aðeins einn einkabanki. (Gripið fram í.) Já, ég bjóst við að það væri rétt skilið, enda væri annað lítt hugsanlegt úr þessari átt. Þetta er lífsskoðun sumra, að ríkinu beri að sjá öllum farborða og það beri að takmarka athafnafrelsi einstaklingsins á öllum sviðum. En ég vil mótmæla þessari skoðun. Ég vil gefa einkabönkum frjálst athafnasvið og svigrúm í þjóðfélaginu og að þeir geti með fullum rétti og á jafnréttisgrundvelli keppt við ríkisbanka og ríkisfyrirtæki almennt á öllum sviðum. Ég þekki ekki alla þá menn, sem hann taldi upp að hefðu verið skipaðir í þessa n., sem átti að endurskoða bankalögin og gera till. þar um en mér er nær að halda að það hafi allt verið ríkisstarfsmenn, allir úr ríkisstofnunum (Gripið fram í.) Úr öllum flokkum er eflaust alveg rétt. En þrátt fyrir að það séu góðir menn saman komnir í n., þá er ekki alltaf víst að það sé óumdeilanleg niðurstaða sem þessi n. kemst að. Einkarekstur á þessu sviði eins og öðrum á fyllilega rétt á sér, hann hefur margsannað það. Hann á að fá athafnasvið og frjálsræði til þess að vera keppinautur ríkisfyrirtækjanna á jafnréttisgrundvelli.

Um sameiningu Búnaðarbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands bjóst ég við að bankaráðsmaðurinn mundi segja eitthvað, en hann gerði það ekki. En ég er ansi hræddur um að sú sameining hafi fyrst komið til tals vegna vandamála, sem steðja að Útvegsbanka Íslands, og eins vegna þess að Búnaðarbanki Íslands sýnir góða stöðu. Þá þótti sjálfsagt að nota sterka bankann til þess að hjálpa þeim veika. En Búnaðarbanki Íslands á að fá að starfa frjálst og halda áfram að vera sterkur og ekki aðeins fyrir landbúnaðaraðilana, heldur einnig fyrir viðskiptalífið hér, því að það fer ekkert á milli mála að ekki síður en Landsbankinn og Útvegsbankinn hefur Búnaðarbankinn þjónað hinu almenna viðskiptalífi vel hér á landi. En aftur á móti á Útvegsbankinn við skiljanlega erfiðleika að etja vegna þess að útvegurinn hjá honum hefur gengið verr en áður var. Það hafa alls konar vandamál steðjað að útveginum og Útvegsbankinn hefur þurft að hlaupa undir bagga með hinum og þessum aðilum í vanda ef ekki átti að stöðva þennan aðalútflutningsatvinnuveg okkar. Það er því eðlilegt að hann sé í peningavanda, og það þarf að gera eitthvað til þess að hjálpa honum án þess að það sé á kostnað annarra bankastofnana. Það er ekki lítill baggi sem hefur hvílt á Útvegsbankanum og Landsbankanum líka undanfarið. Ég er ekki þar með að gera lítið úr þeirri þjónustu Búnaðarbanka Íslands sem snýr að útvegsmálum, vegna þess að Búnaðarbankinn hefur á ýmsum sviðum hlaupið undir bagga með útveginum líka, þótt ekki sé í ríkum mæli.

En ég sem sagt, eins og þið heyrðuð, vil styðja ríkisbankana. Ég held að þeir gegni ómetanlegu þjónustuhlutverki í okkar atvinnulífi. Það þarf að styrkja þá og styðja. En ég vil líka að einkabankarnir fái svigrúm til þess að veita þeim heilbrigða samkeppni.

Ég bjó eftir því líka að þessir boðberar valddreifingarinnar sem alþb.-menn hafa alltaf talið sig vera, þeir koma nú allt í einu upp þegar bankamál eiga hlut að máli og vilja sameina öll peningamál hjá einum bankamálaráðherra, viðskrh. Ég held að að það fyrirkomulag, sem er á þessum málum, sé mjög gott, og ég held að Búnaðarbankinn eigi áfram að vera undir yfirstjórn landbrh. og Iðnaðarbankinn undir yfirstjórn iðnrh. Ég sé ekki, að þar hafi komið fram neinir gallar á, og vil biðja þessa tvo ágætu valddreifingarpostula að endurskoða hug sinn til þess a.m.k. að hafa samræmi í málflutningi milli umr. hér á hv. Alþ. (Gripið fram í: Hvað eigum við að gera með Útvegsbankann?) Við eigum að styrkja hann. Og bankaráðið, svo að ég endi mál mitt á bankaráðinu sjálfu, — bankaráðið starfar eftir erindisbréfi sem ráðh. setur því, og bankastjórnin starfar eftir reglugerð sem bankaráðið setur bankastjórunum, og ég tel að það sé fullkomlega gott stjórnunarkerfi sem þar er í gangi.