17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2633 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem fram hefur komið í þessum umr., verð ég að segja það að ekki telur hv. 5. þm. Norðurl. v. mig vera hraðskreiðan í athöfnum ef hann telur til flýtisverka að ég skuli í nærri 5 ár vera búinn að sitja í starfi landbrh. og nú fyrst bera mig að því að breyta lögum Búnaðarbankans. Það verð ég að segja, að einhvern tíma hefði ég treyst mér skár til að taka til verka og með meiri hraða og án þess að það væri talið flaustursverk. Hins vegar var það alveg rétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að endurskoðun bankamála var eitt af samþykktunum í málefnasamningi vinstri stjórnarinnar og það atriði var í höndum þáv. bankamrh., hv. 2. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar, að koma því í verk. Það var líka rétt hjá honum að það var skipuð nefnd 5 manna, sem allt munu hafa verið bankamenn, ef ég man rétt, og hún komst að nafninu til að sömu niðurstöðu. Þó var mikið eftir til þess að hægt væri að leysa málið. Þar kom upp sú hugsun að setja Búnaðarbankann og Útvegsbankann í eitt, en það var bara eftir að finna leiðina, hvernig átti að framkvæma það. Og það þarf ekkert að fara í grafgötur um það, að það var ekki þingfylgi fyrir að koma því í verk. Ég get skýrt frá því að innan þess stjórnmálaflokks, sem ég tilheyri, var ekki fylgi fyrir því að þetta yrði gert. Ég vil þó bæta því við, að reynslan hefur sannað síðar að það er enn þá minna fylgi fyrir slíkri hugmynd nú.

Hins vegar kom síðar upp og einnig í ráðherratíð fyrrv. ríkisstj. sú hugmynd að setja ein lög um alla ríkisbankana. Það var m.a. ástæðan til þess að ég dró að láta gera það frv. sem ég hef nú lagt fram. Enn fremur hefur það gerst á þessum sama tíma að sá banki, sem ég er talinn vera æðsti maður yfir eða á á vissan hátt að bera ábyrgð á, hefur aukið umsvif sín geysilega mikið á þessum tíma og hvað mest nú á síðasta ári, og það gerir að verkum að ég tel brýna nauðsyn að breyta starfsemi hans. Ég segi það alveg eins og er og segi það hv. bankaráðsmanni í fullri alvöru, að ég vil ekki bera ábyrgð á því að einn maður beri ábyrgð á banka, sem er upp á 10 milljarða. En það veit þessi hv. þm. eins og aðrir, að bankastjórar eiga einnig sín frí eins og aðrir menn, auk þess sem annar bankastjórinn hefur bilað á heilsu, en sem betur fer náð sér mjög vel aftur og hans mikli dugnaður komið að góðum notum sem fyrr og ég vona að hann bresti ekki.

En að ætla einum manni yfirstjórn, þó að um tímabundið skeið sé, á banka sem hefur 10 milljarða í veltu. því á enginn að bera ábyrgð á. Ég vil líka segja það, að það er ekkert til bóta að úr sé bætt án lagaheimildar, en það hefur bankaráðið gert án þess að hafa til þess nokkra heimild. Hvorki bankaráðið né aðrir hafa borið það undir bankamrh. Þetta vildi ég segja, og þetta er því ekkert út í bláinn gert, auk þess sem ég, eins og ég gerði grein fyrir áðan, lít svo á að þessi banki með svo mikið fjármagn sé einmitt til þess að tryggja betur fjárhagsstöðuna í þjóðfélaginu að gera hann virkari í rekstri atvinnuveganna en hann hefur verið og getur ekki orðið nema hann fái gjaldeyrisréttindi líka.

Þessi tvö atriði eru að mínu mati það veigamikil að það er fullkomin ástæða til að samræma lög Búnaðarbanka Íslands við lög hinna ríkisbankanna, enda sé ég engar forsendur fyrir því hvers vegna svo ætti ekki að vera. Og það, sem ég tel að ég eigi hér helst afsökunar á að biðja, er að hafa dregið þetta svo lengi sem raun ber vitni um. En ég hef þegar gert grein fyrir því, að það hefur verið fitlað við ýmsar hugmyndir sem hafa gert það að verkum að ég hef reiknað með heildarlöggjöf. Fyrst var þessi sameiningarhugmynd og síðar heildarlöggjöf. Nú er eins auðvelt að gera hana og frekast er hægt eftir að þessi banki er kominn með löggjöf sem er í samræmi við löggjöf hinna bankanna. Þá er það ósköp auðvelt ef menn vilja.

Nú má um það deila hvort Búnaðarbankinn á að tilheyra landbrh. eða viðskrh. og þá allir ríkisbankarnir. Ég ætla ekki að gera það atriði að deiluatriði, og það hefur ekki verið af minni hendi sótt í að halda í það, enda tel ég það ekki vera mikið mál. Hins vegar finnst mér að það verði að miðast við hvernig fer t.d. um stöðu einkabankanna í því sambandi. Ef iðnrh. fer með Iðnaðarbankann, þá sé ég ekkí ástæðu til að þessu þurfi að breyta hjá Búnaðarbankanum. Þess vegna mun afstaða mín miðast við það sem þar kann. að koma fram.

Ég tel mig nú hafa svarað hv. 5. þm. Norðurl. v. um afstöðu Framsfl. til sameiningar bankanna, en ég tel ekki vera grundvöll fyrir sameiningu. Um sparnaðinn í þessu sambandi kom ýmislegt í ljós, ef ég man rétt, í skýrslu nefndarinnar. Talið var að Landsbankinn einn hefði fleira starfsfólk en Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn samanlagt. En það orkar nú allt tvímælis þegar gert er og einnig gat það verið um þetta atriði. Hitt er alveg rétt, og það er það sem er tilgangur þessa frv., að gera þennan banka að alhliða banka sem hefur viðskipti bæði með gjaldeyri og á öðrum sviðum.

Út af því, sem ég lagði til áðan, að vísa málinu til fjh: og viðskn., þá hef ég nú leitað upplýsinga um það hjá skrifstofustjóra, en gerði það áður eftir minni um meðferð þessa máls hér á Alþ. þegar ég hefði verið viðstaddur, en skrifstofustjóri gaf mér þær upplýsingar að það væri rétt munað hjá mér að búnaðarbankalögin hefðu verið til meðferðar hjá fjhn. þegar breytingar hefðu verið gerðar á þeim. En með tilliti til þess, að hér væri um heildarlöggjöf að ræða, taldi hann eðlilegra að landbn. fengi frv. til meðferðar. Ég mun því taka aftur till. mína og veita vini mínum, hv. 7. landsk. þm., rétt til þess að taka þátt í störfum n. sem um þetta fjallar. Ég leyfi mér, herra forseti, að gera till. um að það gangi til landbn. samkv. þessum upplýsingum.

Út af því, sem kom fram í ræðu hv. 7. landsk. þm., þá verð ég að segja það, að það er í fyrsta sinn sem ég tel mig hafa orðið fyrir vonbrigðum með þann ágæta mann. Mér finnst satt að segja að það sé komið alveg nóg af því hér á hv. Alþ. hv. þm. séu að taka undir slúður og aðdróttanir sem settar eru fram í blöðum eða á mannamótum. Ég hafði haldið að það hæfði ekki hv. þm., og ég vonaðist til að þessi hv. þm. væri ekki af þeirri gerð og veit reyndar að hann er það ekki þó að nokkurrar hrösunar gætti í ræðu hans áðan. Ég hef ekki látið gera till. um það í þessu frv. að kosið verði nýtt bankaráð. Jafnvel þó að sumir hefðu talið að nokkur ástæða væri til þess þá ætla ég þeim sem þar sitja, að búa við það sem er þangað til það gengur sér til húðar með eðlilegum hætti. En ég vonast hins vegar til þess að bankaráðsmenn þurfi ekki að vera að spyrja um störf sin, og mér finnst að þetta frv. taki af tvímæli um það, eins og kom fram hjá hv. 12. þm. Reykv. áðan. Hann benti á 13. gr. og 14. gr., og ég leyfi mér — með leyfi hæstv. forseta — að benda á 12. gr. Þar segir:

„Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Búnaðarbankans. Það gerir tillögur um reglugerð bankans, sem ráðh. setur, og ákveður verkaskiptingu bankastjóra.“

Í 11. gr. segir hvað fundir skuli vera margir og að bankastjórar eigi rétt til að sitja á fundum og gefa þar skýrslur sem bankaráðsmenn óska eftir.

Ég held því að þarna sé ekki neitt sem valdið geti misskilningi og sé ósköp auðvelt við að fást, ekki síst þar sem lögin eru algerlega felld að því sem gildir hjá öðrum bönkum. Hins vegar vonast ég til að það verði ekki háttur bankaráðsmanna að vera með umr. um slík mál á götum úti sem ekki eiga að vera þar, því að þeir vita náttúrlega af sinni ábyrgð sem slíkri í því starfi sem þeim er þar trúað fyrir.

Út af því, sem hv. 7. landsk. og hv. 5. þm. Norðurl. v. viku hér að um Stofnlánadeild og veðdeild, þá verð ég að segja það að mjög hefði ég nú óskað eftir því í fyrrv. stjórn að ég hefði átt vísan stuðning þeirra þá eins og hann virðist vera nú, því að ekki er því að neita að stundum þurfti sitt til þá ekki síður en nú til að koma áfram málum þessarar deildar. Hins vegar, eins og ég gat um í ræðu þeirri sem ég flutti við setningu Búnaðarþings, óskaði ég eftir því að Búnaðarþing tæki á þessum málum, bæði veðdeildar og Stofnlánadeildar Búnaðarbankans, þar sem brýna nauðsyn bæri til. Og það er alveg rétt, eins og kom fram hjá hv. 7. landsk. þm., að Búnaðarþing tók vel og myndarlega á þessum málum og endurskoðun að till. þess mun verða gerð. Það breytir engu þó að frá þessum þætti í starfsemi Búnaðarbankans sé gengið með eðlilegum hætti og hann sé gerður samhljóða því sem gerist í öðrum bönkum.

Ég sé ekki ástæðu til að tína hér fleira til. Ég get endurtekið það að lokum, að með þessari lagabreytingu er verið að gera þrennt. Það er verið að samræma lög Búnaðarbankans lögum hinna ríkisbankanna, það er verið að tryggja starfsemina eins og best er hægt með mannahaldi, og það er verið að gera Búnaðarbankann færan um að verða enn þá virkari aðili í atvinnurekstri landsmanna en nú er. Ber brýna nauðsyn til að svo sé, ekki síst þar sem bankinn er jafnsterkur og raun ber vitni um.