17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2638 í B-deild Alþingistíðinda. (2174)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það kom fram í upphafi að það væri hugmyndin að þetta frv. færi til fjh: og viðskn. og hafði ég ekki ætlað mér að ræða neitt um málið hér. En þar sem nú er ákveðið að það fari til landbn. vil ég segja örfá orð (RA: Það hefur enn ekki verið ákveðið.) Ákveðið að leggja það til, afsakið.

Það, sem hefur komið fram og mestar umr. hafa orðið um, er hversu margir bankastjórar skuli vera við þennan banka. Ég lít ekki á það sem afskaplega stórt mál hvort við þennan banka eru tveir eða þrír bankastjórar. Það hefur verið sá háttur á hér á landi að bankastjórar hafa annast mjög mörg málefni bankans, og kom hv. síðasti ræðumaður inn á þann þátt. Ég geng út frá því að sá bankastjóri, sem þarna verður ráðinn til viðbótar, muni væntanlega skila allmiklu starfi og hann muni gera sitt hvað. Og það hefur komið hér fram greinilega að þeir menn, sem hafa annast bankastjórn, hafa ekki haft nægilegan tíma til að sinna málefnum bankans og þess vegna hafi þeir þurft að leita mun meir til aðstoðarmanna sinna, þannig að í mínum huga er þetta fyrst og fremst spurningin um það hvernig verkefnum er skipt, hvort verkefnin eru í höndum bankastjóranna sjálfra eða aðstoðarmanna þeirra, þannig að út af fyrir sig ætti þetta ekki að vera mikið kostnaðaratriði fyrir bankann.

Hins vegar verð ég að taka undir það sem hv. þm. Helgi Seljan kom inn á, að það er vissulega ástæða til þess að endurskoða valdsvið bankaráðs og bankastjórna, ef það er virkilega svo að með veigamikil mál sé farið fram hjá bankaráði, eins og hann kom inn á áðan, og eftir því sem mér skildist hefði bankaráð ekki talið sig hafa vald til þess að gripa fram fyrir hendurnar á bankastjórunum. Mér þykir það næsta furðulegt ef það er svo að bankastjórar og aðrir geti tekið veigamiklar ákvarðanir um kjör sín og annað og bankaráð hafi ekki heimild til þess að taka þar fram fyrir hendurnar á þeim og breyta þeirra ákvörðunum. Ef þetta er svo, þá er vissulega ástæða til breytinga. En í þessu frv. kemur fram að bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi Búnaðarbankans. Er þá ekki hér hreinlega um það að ræða að bankaráð hafi ekki beitt valdi sínu í þessu tilfelli? Það er allmikill munur á því. En ef bankaráð hefur ekki vald til þess að hafa yfirumsjón og skipa bankastjórum fyrir, þá er vissulega ástæða til þess að breyta hér um.

Það hefur einnig komið fram að með þessu frv. fái Búnaðarbankinn heimild til gjaldeyrisverslunar. (Gripið fram í.) Nú, en það hefur verið lögð á það áhersla að Búnaðarbankinn fái slíka heimild og þá væntanlega mun það verða Seðlabankinn sem taki slíka ákvörðun. Ég hef þá skoðun að það sé eðlilegt að Búnaðarbankinn hafi slíka heimild. Þetta er ekki spurning um það hvað við eigum mikinn gjaldeyri í þessu landi, heldur er það spurning um það að Búnaðarbankinn geti veitt sæmilega þjónustu. Búnaðarbankinn hefur útibú úti um land og útibú meira að segja á stöðum þar sem sjávarútvegur er stundaður, og það er afskaplega óþægilegt fyrir viðkomandi byggðarlag að geta ekki leitað til bankans á þeim stað um málefni sem þarf gjaldeyrisleyfi til, þannig að það er eðlilegt að þessi banki, þar sem hann er orðinn eins viðamikill og raun ber vitni, hafi heimild til slíks. Hins vegar hefur það verið mín skoðun að það hefði verið eðlileg ráðstöfun að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbanka Íslands. Ég held að það hefði farið vel á því að hér væru tveir sterkir ríkisbankar og hefði verið nægilegt, og það er enn þá mín skoðun að slík ráðstöfun hefði verið eðlileg. En ég skal ekki fara nánar út í þá sálma.

Ég stóð fyrst og fremst upp vegna ákvæðis í 16. gr., en þar stendur: „Reikningar bankans skulu endurskoðaðir af tveim endurskoðendum, sem Alþ. kýs hlutbundinni kosningu til tveggja ára í senn.“ Ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þessi mál til athugunar, að þetta atriði sé athugað betur. Bankar eru afskaplega viðamiklar stofnanir og þeir fara með ýmis málefni sem þarf vissulega að hafa eftirlit með. Það hefur aldrei veríð gerð nokkur krafa til þekkingar á þessum málum til þess að verða endurskoðandi í viðskiptabanka. Og það er í raun og veru fáránlegt að maður, sem endurskoðar banka, skuli ekki þurfa að hafa nokkra sérþekkingu á þeim sviðum. Það er að mínum dómi svona álíka og ég væri ráðinn sem yfirskurðlæknir á Landsspítala. Þetta er mál sem ég hefi lengi furðað mig á, löngu áður en ég kom í þessa stofnun, og þess vegna vænti ég þess að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, athugi hvort ekki sé rétt að breyta hér einhverju um og það sé gerð einhver krafa um þekkingu þeirra manna sem fá þetta vandasama starf og eiga vissulega að bera þar mikla ábyrgð.