17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það væri sannarlega fyllsta ástæða til þess að fara hér nokkrum orðum um ýmsar skringilegar röksemdir sem fram komu í máli hæstv. landbrh. hér áðan til stuðnings þeim áformum að fjölga bankastjórum við Búnaðarbankann. En vegna þess að ég veit að hæstv. forseta er umhugað að ljúka fundinum hið fyrsta, þá skal ég ekki tefja menn á því að fjalla um málflutning ráðh. Ég býst hins vegar við að mörgum hafi þótt dálítið kynlegt að heyra að úr því að fjármagn bankans væri komið upp í 10 milljarða, heila 10 milljarða, þá væri það orðinu ábyrgðarhlutur, algerlega óforsvaranlegt, að aðeins tveir menn stjórnuðu bankanum héðan í frá. Ja, ljótt er að heyra! Það hlýtur þá að vera orðið hættulegt ástand í ríkisbúskapnum með þá 60 milljarða sem fjmrh. verður að velta á hverju ári. Með sömu rökum virðist manni að það þyrfti að fjölga fjmrh. landsins úr einum og upp í átján til þess að þeir væru ekki með svona hræðilega stórar upphæðir í höndunum. En auðvitað sjá allir að röksemdir af þessu tagi eru ekkert annað en gamanyrði í besta falli.

Varðandi málið í heild er auðvitað kjarni þess sá að verið er að þenja út bankakerfið með því að fjölga bankastjórum, og reyndar virðist einnig ætlunin að fjölga starfsliði í bankakerfinu sem fæst við gjaldeyrismál.

Hæstv. ráðh. reyndi mikið að losa sig frá stefnu Framsfl. í þessu máli, og auðvitað er það í raun og veru kjarninn í þessu máli hver er stefna Framsfl. í sambandi við bankakerfið og hver hefur verið stefna flokksins.

Ég verð að segja það, að mér þótti hæstv. ráðh. fara æði-léttilega með staðreyndir hér áðan varðandi sögu þessa máls. Ráðh. kemst ekki undan þeirri staðreynd að Framsfl. tók þátt í gerð málefnasamnings þar sem skýrt var kveðið á um að bönkum skyldi fækkað, að þeir skyldu að einhverju leyti sameinaðir, og flokkurinn verður auðvitað að vera tilbúinn að svara því hvernig hann hugðist framkvæma þetta heit sitt. Um það þarf í sjálfu sér ekki að vera neinn vafi ríkjandi vegna þess að eftir að n. hafði verið skipuð um þetta mál til að gera till. og í henni átti sæti einn fulltrúi framsóknarmanna, Jóhannes heitinn Elíasson, þá komst n. einróma að þeirri niðurstöðu að haga skyldi sameiningunni með þessu hætti, að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann, og mér dettur ekki annað í hug en fulltrúi Framsfl. í n. hafi haft samráð við sinn flokk þegar hann komst að þessari niðurstöðu.

Ekki nóg með þetta. Lengra náði nú ekki sagnfræðin hjá hæstv. ráðh. Hann minntist ekki einu einasta orði á það að í kjölfar þessa nál. flutti ríkisstj., sú ríkisstj. sem hæstv. ráðh. átti sæti i, frv. til l. um viðskiptabanka í eigu ríkisins, og það liggur fyrir að hæstv. ráðh. hefur sjálfur samþ. að þetta frv. yrði flutt, — frv. sem felur í sér að þessir tveir bankar verði sameinaðir. Þetta var flutt sem stjfrv. veturinn 1973–1974. Mér þótti dálítið einkennilegt að hæstv. ráðh. skyldi ekkert víkja að því hvernig þá bar til að hann samþykkti flutning þessa frv., en virðist nú sjálfur vera annarrar skoðunar. Ég segi „sjálfur“ vegna þess að ég hef engar heimildir í höndunum fyrir því að Framsfl. í heild hafi skipt um skoðun í þessu máli. Ég heyrði hæstv. landbrh. lýsa því yfir áðan að hann teldi að afstaða Framsfl. til þessa máls væri sú að sameining kæmi ekki til greina. Ég verð að bryggja hæstv. ráðh. með því að ég vildi þá gjarnan fá upplýsingar um hvort þetta sé formleg flokkssamþykkt eða ekki. Ég dreg það satt að segja í efa að svo sé. Og ég vil minna hæstv. ráðh. á að það er ekki aðeins að flokkurinn hafi staðið að þessu máli í fyrsta lagi með gerð málefnasamningsins, í öðru lagi með því að n., sem fulltrúi flokksins átti sæti í, komst að þeirri ákveðnu niðurstöðu og í þriðja lagi með því að standa að flutningi stjfrv. um þetta mál, heldur er það staðreynd að við hinar síðari vinstristjórnarviðræður, sem fram fóru í júlímánuði 1974, þegar rætt var um hvort unnt væri að mynda nýja vinstri stjórn undir forsæti hæstv. núv. dómsmrh., Ólafs Jóhannessonar, þá lýsti hæstv. núv. dómsmrh. yfir því í þeim samningaviðræðum að Framsfl. samþykkti það að á komandi kjörtímabili yrði frv. um sameiningu ríkisbankanna, sem þá þegar hafði verið lagt fram sem stjfrv., það yrði að lögum ef af þessari stjórnarsamvinnu yrði. Hæstv. dómsmrh., sem þá var forsrh., raunverulega boðaði það með yfirlýsingu að á komandi kjörtímabili mundi Framsfl. hafa þá stefnu að framfylgja þessum einróma niðurstöðum bankamálanefndar.

Ég verð því að biðja hæstv. landbrh. afsökunar á því að ég skuli ekki taka yfirlýsingu hans sem góða og gilda með því einu að hlýða á hana hér á þinginu. Ég vil gjarnan fá að vita með hvaða hætti það hefur gerst að Framsfl. hefur horfið frá þessari stefnu, sem svo oft hefur verið undirstrikuð. Og ég satt að segja vil lýsa því yfir að ég trúi því ekki að flokkurinn sé horfinn frá þessari stefnu, enda er skemmst að minnast þess að fyrir örfáum mínútum lýsti einn af þm. flokksins því yfir að hann væri þessari stefnu fylgjandi. Og ég býst við að svo sé um æðimarga aðra þm. Framsfl., hvað sem líður yfirlýsingu hæstv. landbrh.

Um málflutning hv. þm. Alberts Guðmundssonar sé ég ekki ástæðu til að hafa mörg orð. Hann var svolítið að velta fyrir sér hvað ég hefði verið að segja í sambandi við einkabankana. Ég vil bara upplýsa það að ég var að lesa upp úr nál. sjálfu, þar sem segir: „Miðað við núverandi aðstæður í bankamálum virðist eðlilegast að ná því markmiði með fækkun hlutafélagsbankanna í einn eða tvo.“ Þetta voru sem sagt ekki aðeins mínar skoðanir í málinu, þetta voru skoðanir banhamálanefndar undir forsæti Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra sem þarna komu fram, en einn af þeim, sem skrifuðu undir þetta nál., var Magnús Jónsson, þáv. varaformaður Sjálfstfl. Það fer því ekkert milli mála að þegar hv. þm. beinir skeytum sínum að mér í þessu sambandi, þá er hann einnig að beina skeytum sínum að þáv. varaformanni Sjálfstfl.