17.03.1976
Efri deild: 78. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (2177)

198. mál, Búnaðarbanki Íslands

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil enn þá beina skeytum mínum að hv. síðasta ræðumanni, 5. þm. Norðurl. v., og fyrirgefa honum margt og þ. á m. hans síðustu ummæli. En svo vill til að ég er vanur að beina skeytum mínum þangað sem ég ætla að senda þau. Hvort það er formaður Sjálfstfl. eða varaformaður, sem verður fyrir þeim, það verður bara að ráðast af þeim málum sem eru til umr. hverju sinni. En ég hef hingað til ekki verið feiminn við að beina mínum skoðunum í þá átt sem ég hef talið þurfa. Það kemur mér ekkert á óvart þó að það finnist maður með sjálfstæða skoðun og hún fari ekki saman við mína skoðun eða hæstv. ráðh. Framsfl. Þar af leiðandi tel ég það ekki neitt til þess að benda sérstaklega á þó að hv. þm. Halldór Ásgrímsson hafi aðra skoðun en flokksbróðir hans, hæstv. ráðh. En þetta er mál sem alþb.- menn eiga oft erfitt með að skilja, hvernig í ósköpunum getur staðið á að það þróast í öðrum flokkum.

En ég vil beina því til hæstv. ráðh. að verði skipuð ný endurskoðunarnefnd um bankamál, þá verði hún ekki eingöngu skipuð ríkisstarfsmönnum eða starfsmönnum úr ríkisbönkum, heldur fái aðilar frá hinu frjálsa bankakerfi að vera þar með, þannig að það heyrist aðrar raddir en þær sem eru á launum hjá ríkinu.

Og ég vil taka undir það, sem hv. 1. landsk. þm., Jón Árm. Héðinsson, sagði, að ég harma að hæstv. ráðh. skyldi skipta um skoðun og óska nú eftir því að frv. yrði sent til landbn. í staðinn fyrir fjh.- og viðskn. Það liggur við að ég greiði atkv. gegn hugmynd ráðh. (Gripið fram í.) Já, ég met það og þess vegna mun ég líklega standa að því. En ég vil — og það er aðalástæðan til þess að ég stend hér upp aftur, — leiðrétta þann misskilning, ef um misskilning hefur verið að ræða hjá hv. 1. landsk. þm., að ég er síður en svo að reyna að tefja fyrir málinu, tefja fyrir því að Búnaðarbanki Íslands fái gjaldeyrisleyfi, með því að gera kröfu um að einkabankarnir fái gjaldeyrisleyfi samtímis. Það er langt frá því Ég álít sjálfsagt að Búnaðarbanki Íslands fái gjaldeyrísleyfi — og þótt fyrr hefði verið. Svo er annað mál hvort Búnaðarbanki Íslands græðir eitthvað á því. En það er áreiðanlega mikið til í þeim skýringum sem hv. 5. þm. Austf. gat um, að það er sjálfsagt mjög hagkvæmt fyrir útibúin úti á landi að Búnaðarbanki Íslands geti afgreitt á staðnum gjaldeyri til þeirra íbúa landsins sem ekki búa hér við dyr gjaldeyrisbankanna. En þessi röksemdafærsla á alveg eins við um þá sem skipta við Búnaðarbankann hér í Reykjavík. Það er óhentugt og satt að segja ekki nokkrum manni bjóðandi, þótt það hafi viðgengist um langan tíma, að einn og sami viðskiptaaðilinn skuli þurfa að ganga á milli tveggja stofnana til að fá afgreitt eitt mjög lítið og ómerkilegt yfirfærslumál. Þeir, sem skipta við Búnaðarbankann yfirleitt og eru í viðskiptum við útlönd, þurfa fyrst að taka fé út úr Búnaðarbankanum og labba með það yfir í Landsbankann eða Útvegsbankann til þess að ljúka þar seinni hlutanum af þessu eina litla máli sem gjaldeyrisyfirfærsla er. Það er kominn tími til þess að hætta þessum eltingarleik á milli stofnana. Ég vil að það komi hér alveg skýrt fram, að þó að ég sé talsmaður einkaframtaks og í þessu máli einkabankanna, þá vil ég ekki að kröfur frá mér eða einkabönkunum verði til þess á einn eða annan hátt að tefja fyrir því að Búnaðarbanki Íslands fái gjaldeyrisréttindi. Það er sjálfsögð krafa og spor fram í tímann sem átti að vera búið að taka fyrir löngu.

Ég hefði gjarnan viljað taka meiri þátt í umr. og deila svolítið við hv. 7. landsk. þm., Helga Seljan. Hann vitnaði í deilur innan bankaráðs Búnaðarbankans sem gera það ókleift að ég eða aðrir en þeir, sem eru í bankaráðinu, geti tekið þátt í þeim deilum, og hefðu þessi ummæli hans ekki átt neitt erindi inn í þingsalina af þeim orsökum.

Ég skal nú reyna að stytta mál mitt, herra forseti, og hlaupa yfir mest af því sem ég er búinn að punkta niður. Ég vil aðeins mótmæla þeirra aths., sem kom frá Halldóri Ásgrímssyni, hv. 5. þm. Austurl., varðandi, held ég, 15. gr. frv. sem hér liggur frammi, í sambandi við endurskoðun. Ég held að það séu til mjög bókhaldsfróðir menn án þess að þeir séu endurskoðendur að mennt. Ég álít þá fullkomlega færa og í sumum tilfellum kannske færari en endurskoðendur, þá menn sem hafa tekið endurskoðunarpróf, til þess að endurskoða fyrirtæki eins og bankastofnanir, þannig að ég vil ekki útiloka alla aðra en löggilta endurskoðendur frá því að vera endurskoðendur bankanna. Ég held að það geti verið alveg rétt að hv. þm. sé betri endurskoðandi heldur en yfirskurðlæknir. En ég held að það sé hægt að finna mjög góða og bókhaldsfróða menn sem geta endurskoðað þessar stofnanir, hvort sem þeir eru löggiltir eða ekki löggiltir. Aðalatriðið er að þeir séu bókhaldsfróðir, og ég tel ólíklegt að þingflokkarnir velji ekki bókhaldsfróða menn til endurskoðunar á stofnunum sem Alþ. á að velja menn í.

Ég hef ekki meira um þetta mál að segja annað en það að ég mun veita málinu minn stuðning og vona að það komist sem fyrst í gegnum Alþingi.