17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2646 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er lagt fram í tilefni af því að verðlaun Norðurlandaráðs 1976, bæði á sviði bókmennta og tónlistar, hafa fallið íslendingum í skaut, þeim Ólafi Jóhanni Sigurðssyni rithöfundi og Atla Heimi Sveinssyni tónskáldi. að óbreyttum lögum er fjórðungur verðlauna þessara skattskyldur skv. ákvæðum G-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkisstj. telur eðlilegt að verðlaunin verði að öllu leyti undanþegin tekjuskatti og útsvari og er lagt til að sett verði almenn regla um skattfrelsi þessara verðlauna Norðurlandaráðs þannig að sömu reglur gildi einnig um þá íslendinga sem síðar kunna að hreppa verðlaun þessi.

Fram að þessu hefur tvívegis verið veitt undanþága frá skattlagningu heiðurslauna sem íslendingi hafa fallið í skaut erlendis frá og í eitt skipti veitt heimild í fjárl. til að endurgreiða verðlaunaþega skatt af slíkum verðlaunum. Þegar Halldór Laxness rithöfundur hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum voru þau undanþegin skatti og útsvari með l. nr. 32/1956 sem sett voru sérstaklega af því tilefni. Á sama hátt voru Sonningverðlaunin, sem sami rithöfundur fékk, undanþegin þessum gjöldum með l. nr. 41/1969. Í tilefni af því að Magnús Már Lárusson fyrrum háskólarektor fékk Henriks Steffensen-verðlaunin var veitt heimild í 41. tölul. 6. gr. fjárl. fyrir árið 1970 til endurgreiðslu skatts af þeim.

Á Norðurlöndum gilda mismunandi reglur um skattlagningu slíkra verðlauna. Á Íslandi hefðu bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, eins og áður segir, verið skattlögð að 1/4 hluta, en í Danmörku greiðist skattur af allri fjárhæðinni, í Svíþjóð eru verðlaunin skattfrjáls, en nokkuð vafamál virðist vera að hve miklu leyti verðlaunin eru skattskyld í Finnlandi og Noregi, en þó er talið líklegt að ekki sé krafist skatts af þeim. Á fundi menntmrh. Norðurlanda, sem haldinn var í Kaupmannahöfn fyrir skömmu, kom fram að dönsk stjórnvöld hafa í hyggju að gera bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs skattfrjáls, og af Íslands hálfu var lagt til að þau yrðu gerð skattfrjáls í öllum aðildarlöndunum. Íslandsdeild Norðurlandaráðs er frv. þessu meðmælt. Þá hefur málið og verið kynnt öllum þingflokkunum, er hafa lýst stuðningi sínum við málið.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.