17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

195. mál, skattfrelsi bókmennta- og tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Þingflokkur Alþb. fagnar því, að þetta frv. er fram komið, og mun veita því brautargengi hér á Alþ. Í þessu frv. felst að bókmennta- og tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs, sem íslendingum hlotnast, skuli vera skattfrjáls. Vissulega væri rétt að mínum dómi að öll verðlaun til listamanna, innlend sem erlend, sem listamönnum hlotnast, væru skattfrjáls og væri það Alþ. til sóma að samþ. slíkt í eitt skipti fyrir öll. En fram að þessu hefur sú leið verið farin að taka ákvörðun um skattfrelsi einstakra verðlauna hverju sinni.

Eins og vikið er að í grg. og kom fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh., þá eru fordæmi fyrir því að aflétt hafi verið skattbyrði af verðlaunum sem íslenskir listamenn hafa hlotið erlendis. Alþ. hefur réttilega litið svo á að óeðlilegt væri að ríkið hagnaðist fjárhagslega á þeim heiðri sem íslenskum listamönnum veitist á þennan hátt. Í þessari afstöðu Alþ. felst einnig viðurkenning á því að sá heiður, sem þannig hlotnast einstökum listamanni, sé um leið sómi sýndur íslensku þjóðinni allri er varpi birtu á þá menningu sem kynslóðir hafa varðveitt og listamenn ávaxtað.

Verðlaunaveitingin til Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og Atla Heimis Sveinssonar vakti gleði í brjóstum allra íslendinga. Engum blandast hugur um verðleika þeirra. Auk þess fór verðlaunaveitingin fram við alveg sérstæðar aðstæður sem menn munu lengi minnast. Þessir tveir listamenn áttu vissulega erindi á þing Norðurlandaráðs, annað og meira en hið augljósa erindi að sækja verðlaun þau sem þeim höfðu hlotnast.

Þegar veist er að lífsbjörg okkar íslendinga erum við gjarnan knúnir til þess í vöru okkar að sanna sjálfan tilverurétt okkar sem þjóðar. Engin slík kvöð hvílir á stórþjóðum sem sækja fram með ofbeldi í skjóli hergagna sinna. Á þingi Norðurlandaráðs fjölluðu fjölmargir stjórnmálamenn um rétt okkar til að lifa í þessu landi, en verðlaunaveitingin til íslensku listamannanna fyrir afrek þeirra gaf orðum stjórnmálamannanna gildi og merkingu. Ljóð og tónlist, sem þóttu bera af öðru er gert hafði verið sams konar á Norðurlöndum á s.l. ári, mátti vera mönnum sönnun þess að tilveruréttur okkar verður ekki vefengdur. Afrek listamannanna tveggja réttlættu kröfur stjórnmálamannanna. Um leið og ég leyfi mér að óska þessum tveimur listamönnum til hamingju með verðlaunin hér úr þessum ræðustól, þá ber einnig að þakka þessum mönnum starf þeirra.