17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2648 í B-deild Alþingistíðinda. (2187)

199. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Gils Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég tel ekki þörf á því að fylgja þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum og þarf því ekki þeirra hluta vegna að verða löng töf á öðrum störfum þingsins. En ég hef leyft mér að flytja frv. um ákveðna breyt. á þingsköpum Alþ. Sú breyt. er einföld í sniðum og fjallar um alveg tiltekið atriði sem ég hygg að hv. þdm. sé svo kunnugt að ekki þurfi að fara þar um mörgum orðum.

Umr. um utanríkismál hygg ég að óvíða á þjóðþingum séu eins fyrirferðarlitlar og hér löngum á Alþingi íslendinga. Það eru sjálfsagt ýmsar ástæður sem til þess liggja. En ég hygg þó að ekki spillti það í neinu störfum þingsins þó að það gæfi sér örlítið oftar og örlítið meira tóm til þess að fjalla um utanríkismál og þá alveg sérstaklega þá þætti utanríkismála sem snerta okkur íslendinga og við íslendingar erum þátttakendur í eða aðilar að.

Þegar ég var fyrst kjörinn á þing mátti heita að það væri viðburður ef beinar raunverulegar umr. yrðu hér um utanríkismál á breiðum grundvelli. Þær fléttuðust gjarnan inn í umr. um fjöldamörg mál, en að tekin væri sérstök umr. um utanríkismál, það var viðburður ef svo var fyrstu ár mín hér á Alþ. Þá var og kalda stríðið í algleymingi og lá við að frá ýmissa sjónarmiði væru utanríkismál eins konar feimnismál sem ekki ætti að ræða um á Alþingi íslendinga. Utanrmn. var á þeim tíma algjörlega óstarfhæf og nánast ekki kvatt til funda í henni hvað sem á dundi í sambandi við utanríkismál. Og það var eitt og annað á þeim árum. Þetta breyttist sem betur fór fyrir u.þ.b. 7–8 árum.

Ég tel, og vil gjarnan að það komi fram hér, að Emil Jónsson, þáv. utanrrh., hafi átt mjög góðan og heilladrjúgan þátt í því að breyta þarna til frá því sem áður hafði verið, áður en hann tók við stjórn utanríkismála. Það var Emil Jónsson sem að vísu samkv. sérstakri ósk hóf þann góða sið að leggja fyrir Alþ. sérstaka skýrslu um utanríkismál einu sinni á ári og síðan fóru fram umr. um hana. Eins og frá er sagt í grg. var hin fyrsta skýrsla af þessu tagi flutt á Alþ. 24, febr. 1969 og umr. fóru þá fram um hana sama dag og fram á kvöld.

Ég held að fullyrða megi að þessi háttur, sem upp var tekinn fyrir nokkrum árum, sé slíkur að allir alþm. telji eðlilegt og raunar sjálfsagt að honum sé fram haldið a.m.k. einu sinni á ári gefi Alþ. sér tóm til þess, einn eða gjarnan tvo daga ef ástæða er til, að ræða um utanríkismál og þá alveg sérstaklega þátt Íslands og íslenskra fulltrúa í stefnumótun og störfum á sviði alþjóðamála eða fjölþjóðamála.

Núv. hæstv. utanrrh. hefur haldið þessum sið og lagt fram árlega skýrslu um utanríkismál og oftast hafa farið fram umr. um hana. Það er hins vegar hvergi ákveðið í lögum að slíkt skuli gert. Ég tel eðlilegt að það verði nú gert og þó alveg sérstaklega að ákveðið verði hvenær slík umr. um utanríkismál skuli fara fram. Aðalgallinn á þessum umr. undanfarin ár hefur verið sá að skýrslan hefur því miður einatt komið fram svo seint á þingi að lítið tóm og stundum ekkert tóm hefur gefist til þess að ræða hana með þeim hætti sem eðlilegur verður að teljast. Eins og segir í grg., þá var það þannig árið 1973 að umr. um skýrslu utanrrh. fóru fram 16. apríl en þinglausnir voru þá tveimur dögum seinna eða 18. apríl. Árið 1974 var skýrslan lögð fram einhvern af síðustu dögum þingsins og þá gafst ekkert tóm til þess að ræða skýrsluna. Þingrofið, sem þá stóð fyrir dyrum, kom í veg fyrir að þessi skýrsla yrði rædd að því sinni, þar sem hún hafði komið svo seint fram. Og í fyrra, árið 1975, fóru umr. um skýrslu utanrrh. fram 13. maí, en þinglausir voru 16. maí. Þegar umr. um utanríkismál fara fram í þinglok, þá gefur auga leið að þær falla í skugga þess að þá er verið gjarnan að afgr. mörg mál og ekki tóm til þess að sinna í raun og veru neinu máli til þeirrar hlítar sem eðlilegt mætti teljast. Og alveg sérstaklega er það bagalegt, þegar almenn umr. um utanríkismál, bæði það sem skeð hefur á liðnu ári og það sem fram undan er í þeim efnum, fer fram, að þá skuli þær umr. að verulegu leyti drukkna í þingslitaannríkinu.

Með tilliti til þessarar reynslu tel ég eðlilegt að Alþ. ákveði nú eða mjög fljótlega það tvennt, að fest sé í lög að slík skýrsla um utanríkismál og umr. um hana skuli fara fram einu sinni á ári og í öðru lagi að valinn verði til þess að flytja og ræða slíka skýrslu heppilegur tími, — tími þegar hægt er að sinna þessum málum og þegar þau falla ekki algjörlega í skuggann af öðrum málum.

Ég hef bent á það og geri um það till. í frv. mínu að marsmánuður verði valinn til þessa. Annar tími kemur að sjálfsögðu fyllilega til greina, en þó hvorki tíminn rétt fyrir jólaleyfi né tími sem hugsanlega væri undir þinglok, jafnvel ekki heldur tíminn rétt fyrir páska sem ég hygg óheppilegan líka.

Ég sé ekki ástæðu, hæstv. forseti, til þess að fjölyrða öllu meira um þetta einfalda mál, en vænti þess að sú n., sem fær það til meðferðar, kanni það. Ég vona að hún og hv. þingdeild komist að þeirri niðurstöðu, að það sé bæði eðlilegt og æskilegt að festa í lögum ákvæði um þau tvö atriði sem ég hef hér nefnt, að slík skýrsla um utanríkismál eins og flutt hefur verið undanfarin ár verði lögð fram og rædd og að til þess sé valinn tími sem talist getur heppilegur á þann veg að umr. um utanríkismál verði ekki algjört aukaatriði eða falli í skugga af þingslitum.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.