17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2190)

3. mál, skákleiðsögn í skólum

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Að því er fram kemur í nál. menntmn. hefur menntmrn. hinn 24. febr. ritað n. bréf þar sem henni er tilkynnt að rn. hafi með samþykki ríkisstj. ráðið stórmeistarana í skák, þá Friðrík ólafsson og Guðmund Sigurjónsson, til þess að annast skákkennslu í útvarpi og sjónvarpi og til þess að fara í skóla víðs vegar um landið og efna til fjölteflis til þess að örva áhuga á skák og veita íeiðbeiningar. Ráðningartímabilið er frá 1. janúar 1976 og fyrst sinn sinn, uns öðruvísi kynni að verða ákveðið. Með hliðsjón af þessu mun ég greiða atkv. með till. n., þar eð það er rétt, sem segir í áliti hennar, að með þessari ákvörðun ríkisstj. hafi verið fullnægt þeirri höfuðstefnu sem fram kemur í frv.

Ég get þó ekki látið hjá líða að benda á að lagasetning hefði verið heppilegri en ráðherraákvörðun þótt síst beri að vanmeta hana. Þegar ég veitti menntmrn. forstöðu og réð Friðrik Ólafsson til þess að sinna sama verkefni og hér er um að ræða heyrðist sú rödd að lagaheimild skorti til þeirrar ákvörðunar rn. Ég taldi Friðrik Ólafsson þá hafa svo algjöra sérstöðu og vera svo mikilvægan íslenskri skáklist að ég taldi réttlætanlegt að fylgin ekki fyllstu kröfum um formsatriði varðandi ráðningu hans. Hitt gerði ég mér ljóst, að ætti að verða framhald á hliðstæðri starfsemi, og á því taldi ég og tel enn hina brýnustu nauðsyn, þá yrði nauðsynlegt að setja löggjöf um slíka starfsemi. Þess vegna flutti ég frv., sem hér er til lokaafgreiðslu, þegar á síðasta þingi. Ég tel heppilegra að það hefði verið samþ., því að það ern ekki aðeins Friðrik Ólafsson og Guðmund Sigurjónsson sem nauðsynlegt er að ráða til skákkennslu og skákleiðbeininga. Við eigum sem betur fer fleiri afburða skákmenn sem hlotið hafa alþjóðlega titla í skák. Ingi R. Jóhannsson hefur hlotið slíka alþjóðaviðurkenningu og Jón Kristinsson hefur staðist fyrri hluta þeirrar keppni sem nauðsynleg er til þess að hljóta titil stórmeistara. Þeir, sem að réttu lagi hefði átt að ráða til að stuðla að eflingu skákíþróttar á Íslandi eru því fjórir, en ekki tveir. En látum það vera. Tveir eru betri en enginn. Vonandi verða þeir bráðum ekki bara fjórir, heldur enn þá fleiri.

Að svo mæltu kemst ég ekki hjá því að víkja örfáum orðum að meðferð þessa máls á þingi í fyrra og nú á þessu þingi. Hún er vægast sagt mjög undarleg. Það er kunnara en frá þurfi að segja að það hefur verið haft mjög á orði undanfarin ár að virðing Alþ. sé að þverra. Stjórnmálamenn eru taldir njóta minnkandi álits. Valdhafar sæta vaxandi gagnrýni. Ýmsir hafa talið þessa gagnrýni ósanngjarna, jafnvel talið hana til þess fallna að spilla fyrir skilningi manna á gildi lýðræðis. Þessar raddir hafa verið háværastar meðal ungs fólks. Ýmsir eldri menn hafa talið þetta unga fólk vera á villigötum, það sé of óþolinmótt. Það skilji ekki að það hljóti að taka tíma að fram úr málum sé greitt með lýðræðislegum hætti á grundvelli þeirrar umr, og þeirrar málamiðlunar sem jafnan sé nauðsynleg. En því miður er allt of mikið til í þessari gagnrýni. Stjórnvöld verða æ lágkúrulegri í ráðstöfunum sínum. Glöggt dæmi um þetta er einmitt afgreiðsla þessa máls sem á ekkert skylt við stjórnmál og mér er fyllilega ljóst að ekki verður talið til stórmála frá almennu sjónarmiði. Það er engu að síður skýrt dæmi um hversu lágt ráðamenn geta lagst og þá um leið skýring á því síminnkandi áliti sem þeir njóta með þjóðinni.

Eins og kom fram í ræðu hv. frsm. n. flutti ég í þinglok í fyrra frv. um skákleiðsögn í skólum. Það hlaut einróma meðmæli menntmn. þessarar hv. d. með nokkuð breyttu orðalagi. Að fenginni jákvæðri umsögn þeirra umsagnaraðila, sem leitað hafði verið til, var fyrrv. menntmrh. hæstv., Magnús T. Ólafsson, frsm. n. Vegna mikilla anna þingsins undir þinglok var hins vegar ekki talinn tími til þess að afgr. málið í Ed., en núv. hæstv. menntmrh., Vilhjálmur Hjálmarsson, lýsti því yfir, og kvað það gert eftir að hafa rætt málið við hæstv. fjmrh., að hann væri frv. fylgjandi. Ég ræddi málið persónulega við bæði hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. og varð það að samkomulagi að afgreiðsla frv. skyldi bíða til hausts, þá skyldi það afgr. eins og menntmn. hafði lagt til, og lýsti ég þessu samkomulagi í stuttri ræðu við lok umr.

Síðan flutti ég málið þegar í upphafi þessa þings, þegar í október. Mér óskiljanlegur dráttur varð á að menntmn., sem lýtur formennsku flokksbróður menntmrh., afgr. málið. Ég orðaði það oftar en einu sinni við formanninn hvað ylli drættinum, en hann kvað það aðallega annir sinar vegna starfa í fjvn., sem allir vita að er mjög önnum kafin á fyrri hluta þings. En svo gerist það hinn 24. febr. að hæstv. menntmrh. tekur ákvörðum um að framkvæma með stjórnvaldsákvörðun það sem frv. var ætlað að lögfesta og lætur ekki svo lítið að skýra flm. frv. frá því þrátt fyrir umr. og orðaskipti í vor. Ég veit ekki hverjir kalla þetta að kunna mannasiði. Ráðh. vildi m.ö.o. ekki að frv. yrði afgr., heldur gera sjálfur það sem frv. fjallaði um. Að svo búnu átti n. auðvitað engan annan kost en að afgr. málið með þeim hætti sem hún hefur nú lagt til og ég fyrir mitt leyti mun samþ.

Sjá ekki allir hvað hér hefur verið á ferðinni í raun og veru? Stjórnarandstæðingur flytur mál, sem á ekkert skylt við stjórnmál og er algjörlega ópólitískt í eðli sínu. Það hefur almennt fylgi. Það hefur meðmæli allra flokka í menntmn. þessarar hv. d., mun raunar hafa verið rætt í öllum þingflokkum og enginn ágreiningur verið um það. Ég geri samkomulag við hæstv. menntmrh. á s.l. vori um að afgreiðsla frv. skuli bíða til hausts. Þessu samkomulagi er lýst í þingræðu og birt í þingtíðindum. Síðan er málið flutt skv. samkomulaginu, en þá má ekki samþ. það. Af hverju? Á því getur engin önnur skýring verið en að það er flutt af stjórnarandstæðingi. Þegar smámál frá almennu sjónarmiði er afgr. með þessum hætti, þegar jafnsmáskítlegur hugsunarháttur ræður gerðum ráðh. í litlum efnum, við hverju má þá búast þegar hin stærri viðfangsefni eru til úrlausnar. Satt að segja hefði ég trúað mörgum mönnum fremur til slíkra vinnubragða en Vilhjálmi Hjálmarssyni. Hann var form. fjh.- og viðskn. á stjórnarárum ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, en þar vorum við þá fulltrúar stjórnarandstöðu, Matthías Á. Mathiesen, Matthías Bjarnason og ég. Við áttum ágæta samvinnu við formann n. og fulltrúa stjórnarfl. í n. Aldrei hvarflaði það nokkru sinni að nokkrum okkar þáv. stjórnarandstæðinga að hegða okkur neitt í líkingu við það sem Vilhjálmur Hjálmarsson hefur gert í þessu máli. En þegar þannig er unnið á æðstu stigum stjórnkerfisins, í sjálfu stjórnkerfinu, þá er ekki von að virðing almennings fyrir valdhöfum fari vaxandi.