17.03.1976
Neðri deild: 82. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

3. mál, skákleiðsögn í skólum

Frsm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég verð nú að segja það, að síðari hluti ræðu hv. 9. þm. Reykv. kom mér mjög á óvart, og ég átta mig hreinlega ekki á því hvað hann er að fara. Annaðhvort er þetta svona mikill ákafi og dugnaður sem er að sprengja hann, ellegar þá að þetta er ofurkapp sem ég verð að segja að er allt að því sjúklegt í svona máli, eða þá hreinlega að maðurinn er taugaveiklaður. Ég get ekki ímyndað mér að hann þurfi að vera neitt undrandi á því þó að svona sé, eins og ég er búinn að skýra hér frá með ákaflega hógværum orðum hvernig þessi gangur málsins hefur verið í n., að hann skuli þá bregðast svona við. Og hann leyfir sér jafnvel að kenna ráðh. um það hvaða afstöðu sjö alþm. úr mismunandi flokkum hafa haft til þessa máls. Því fer víðs fjarri að hæstv. menntmrh. hafi nokkur áhrif haft á gerðir einstaki., um. í þessu máli. Því fer víðs fjarri. Hann hefur ekki einu sinni haft áhrif á afstöðu mína til þessa máls. Ég verð að segja það alveg eins og er, að þó við í menntmn. séum ekki menn til þess að fullnægja ofurkappi eða metnaði hv. 9. þm. Reykv. í stóru og smáu, þá má hann ekki sprengja af sér öll bönd í málflutningi. Og ég endurtek það, að það kemur mér ákaflega einkennilega fyrir sjónir hvernig hann bregst við þessu, og vil vísa því algjörlega á bug að þetta mál hafi fengið á nokkurn hátt óeðlilega meðferð hér í þinginu. Það hefur fengið á allan hátt, bæði fyrr og síðar, fullkomlega þinglega meðferð og sem betur fer í mjög góðu samstarfi við flm., eins og ég má minnast frá fyrra þingi. Hitt skal ég játa, að ég hafði af því dálitlar áhyggjur þegar við gengum frá þessu máli fyrri partinn í mars og hv. flm. var erlendis, þá hafði ég svolitlar áhyggjur af því að hafa ekki sagt honum frá afgreiðslunni. En ég taldi ekki ástæðu til að tefja þetta mál þangað til ég næði sambandi við hv. flm., enda virtist mér að þessi málsmeðferð væri fullkomlega eðlileg miðað við málsástæður og fullkomlega þingleg.

Það er nú ekkert þó að hv. þm. beini spjótum sínum gegn okkur í n. og til mín sem form. n. og frsm., en ég vil ekki að hæstv. menntmrh. sé ranglega brugðið um afskipti af þessu máli því að þau hefur hann ekki haft. Hitt er ljóst, að við í n. fylgdumst með hvað var að gerast í þessu máli og við vissum af viðtölum við menntmrn. að það var búið að ráða menn til þeirra starfa sem þetta frv. gekk út á, og við fengum það staðfest með bréfi 24. febr.

Ég held að hv. flm. þessa máls megi vel við það una að hafa verið forgöngumaður þessa máls hér á þingi og að hann hefur átt verulegan þátt í því að þetta mál hefur fengíð þá lausn sem reyndin er, að það er búið að ráða báða skákmeistara okkar, stórmeistarana okkar í skák, búið að ráða þá báða á föst laun hjá ríkinu þannig að þeir ættu að hafa þokkalega afkomu sem atvinnumenn í skák. Ég hugði svo sjálfur og ég hygg að það hafi verið skoðun menntmn.manna yfirleitt að það væri þetta sem hv. þm. vildi fyrst og fremst koma fram, en ekki endilega í hvaða formi það væri gert eða hvort fullnægt væri að öllu leyti eigin metnaði hans í málafylgju.