18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2657 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

129. mál, stofnlánasjóður vegna stórra atvinnubifreiða

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Atvmn. hefur haft til athugunar till. til þál. á þskj. 228 um stofnlánasjóð vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla, flm. Helgi F. Seljan, Karvel Pálmason og Páll Pétursson, á þessa leið: „Alþ. ályktar að skora á ríkisstj, að hlutast til um að komið verði á fót stofnlánasjóði eða stofnlánadeild, sem hefði það hlutverk að veita stofnlán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum.“

N. hefur athugað þessa till. og látið frá sér fara svo hljóðandi nál. á þskj. 409:

N. hefur athugað till. og kynnt sér umsagnir er borist höfðu allshn. um till. á síðasta þingi. N. mælir eindregið með samþykkt till. og telur eðlilegt að ræktunarsamböndum verði gefinn kostur á aðild að sjóðnum. — Alþingi, 10. mars 1976. Páll Pétursson, form. og frsm., Gils Guðmundsson, fundaskr. Sverrir Hermannsson. Jón G. Sólnes. Karvel Pálmason. Steingrímur Hermannsson.“

Þessi till. hefur verið flutt á tveimur þingum áður, en hafnaði í allshn, og vannst ekki tími til að afgr. hana. Allshn. hafði aflað umsagna, m.a. frá Félagi vinnuvélaeigenda og Landssambandi vörubifreiðastjóra, og báðir þeir umsagnaraðilar lögðu eindregið til að till. hlyti samþykki.

Svo sem kunnugt er hefur engin lánastofnun talið sér skylt að lána til kaupa á stórum atvinnubifreiðum. Byggðasjóður hljóp í fyrravor undir bagga og lagði inn fé í Iðnaðarbankann, sem síðar var endurlánað þar í samstarfi við samtök vörubílstjóra á langleiðum. Þetta fé var of lítið þar sem þörfin var brýn og nánast einungis um víxilfyrirgreiðslu að ræða.

Hvað varðar vinnuvélakaup hefur Byggðasjóður lánað einstaklingum í mörgum tilfellum allt að 30% af kaupverði, en þó er Byggðasjóður fyrst og fremst viðbótarlánasjóður. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur lánað lítinn hluta af kaupverði vinnuvéla. ræktunarsambanda, en allt of lítinn, þannig að endurnýjun á vélakosti ræktunarsambanda hefur tafist mjög alvarlega. Búnaðarþing tók um daginn þetta mál til meðferðar og ályktaði að fela stjórn Búnaðarfélags Íslands að fá því framgegnt, eins og segir í ályktun þingsins, að Byggðasjóður láni til vélakaupa ræktunarsambanda. Miðað sé við að heildarlán til vélakaupa séu 80% af kaupverði og í stað ákvæða í núgildandi lögum um fyrningarsjóð ræktunarsambanda kæmi ákvæði um framlag í stofnlánasjóð ræktunarsambanda, framlag ræktunarsambanda til stofnlánasjóðs sé miðað við ákveðinn hundraðshluta af tekjum af vélavinnu.

Atvmn. taldi eðlilegt að skoða þessi mál öll í samhengi þar sem vandinn er að ýmsu leyti hliðstæður. Mér er enn fremur kunnugt um að forráðamenn Búnaðarbankans hafa verið að velta þessum málum fyrir sér og leita að leiðum til lausnar á vandanum.

Hv. þm. til glöggvunar vil ég að lokum rifja upp það sem segir í grg. með till. og lesa þar örstuttan kafla, með leyfi forseta:

„Um fjármögnun sjóðsins eða deildarinnar hlýtur að miklu að verða að fara svipaðar leiðir og gilda gagnvart öðrum stofnlánasjóðum.

Aðeins skal bent á tvær eðlilegar leiðir: Annars vegar, að Framkvæmdasjóður leggi til lánsfé, og í öðru lagi komi til gjald frá eigendum þessara atvinnutækja, sem þeir skiluðu til sjóðsins eftir vissum reglum. — Um margt væri eðlilegast, ef um stofnlánadeild yrði að ræða, þá yrði hún í einhverjum ríkisbankanum.“