04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (220)

290. mál, virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að flytja þetta mál hér inn í þingsalina. Það er greinilega ljóst af svörum hæstv. ráðh. að málinu er á engan hátt lokið þar með. Því er ekki að leyna að heimsóknir fulltrúa erlendra stóriðjufyrirtækja hingað til lands og þá sérstaklega til Austurlands á undanförnum mánuðum hafa vakið í hugum margra spurningar um hver sé tilgangur þessara heimsókna og hvers eðlis séu samskipti íslenskra stofnana við þessi stórfyrirtæki. Það þarf ekki að fylgjast lengi með eða lesa sér mikið til um starfshætti erlendra stórfyrirtækja til að komast að því að fulltrúar þeirra gera sér ekki slíkar ferðir, hvað þá heldur leggja í töluverðan kostnað þeirra vegna, án þess að hafa fengið um það einhver vilyrði eða von — rökstudda von — um góðar viðtökur af hálfu stjórnvalda í viðkomandi landi. Það eru ekki vinnubrögð erlendra stórfyrirtækja í heiminum í dag að hefja í upphafi formlegar viðræður. Það eru vinnubrögð erlendra stórfyrirtækja að smátt og smátt skáskjóta sér inn í stjórnkerfi viðkomandi lands og festa sig þar smátt og smátt í sessi uns þau hafa nokkurn veginn tryggt sér niðurstöðurnar áður en hinar formlegu viðræður hefjast.

Ég átti von á því að hæstv. iðnrh. mundi ekki veita tæmandi svör við þeirri fyrirspurn hér í dag sem hv. þm. Helgi Seljan bar fram. Ég vona að mér verði forlátið það. Þess vegna bar ég fram fyrir fram viðbótarfyrirspurn til hæstv. iðnrh. til þess að sýna þá fulla hreinskilni í þessari afstöðu minni, að hún kæmi ekki fram eftir á, heldur fyrir fram. Og henni var útbýtt hér í Sþ. í dag Ég vil þannig gefa hæstv. ráðh. tækifæri til þess að athuga þetta mál formlega aftur og koma aftur hér fram fyrir hæstv. þingheim og gefa ítarlegri skýrslu um öll samskipti íslenskra stjórnstofnana við erlenda aðila varðandi virkjunarmál og stóriðju á Austurlandi, hvort sem það er Suisse Aluminium eða aðrir, og gefa ítarleg svör við því hvort einhvers konar tengslum formlegum eða óformlegum, samstarfsnefndum óformlegum eða formlegum, hafi verið komið á með fulltrúum íslenskra aðila og þessara fyrirtækja.