18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í framhaldi af framsöguræðu minni um þetta mál voru fluttar þrjár ræður, að vísu mjög ólíkar. Fyrstu ræðuna flutti hæstv. landbrh. Þar var um að ræða mjög greinargóða skýrslu um ástand þessara mála. Í henni voru fólgnar ýmsar upplýsingar sem ekki hafa legið á lausu og er ég honum þakklátur að hafa komið þeim á framfæri við þing og þjóð. Af máli ráðh. mátti greinilega draga þá ályktun — og hefur hann eflaust ætlast til þess, að honum væri ljóst að hér væri við alvarlegt vandamál að etja, niðurgreiðslumál landbúnaðarins væru komin í nokkurt óefni, það væri verið að skoða vandamálið. Mér skildist að till. væru væntanlegar um nokkrar breytingar, sem vissulega er ekki vanþörf á, þótt ég geri mér auðvitað grein fyrir því að þess er varla að vænta að þær breytingar verði jafnróttækar og jafnvel gangi ekki í sömu átt og þær sem hér er lagt til að gerðar verði. Hafi flutningur þessa máls getað orðið til þess að flýta fyrir því að breyting til batnaðar verði gerð á því ófremdarástandi sem niðurgreiðslumálin eru komin í, þá fagna ég því.

Önnur ræðan, sem flutt var af hálfu hv. 6. þm. Norðurl. e., Inga Tryggvasonar, var og flutt af hófsemi og skynsemi og bar þess einnig alveg ótvíræðan vott, jafnvel enn skýrari vott en ræða hæstv. landbrh., að þessi reyndi forustumaður íslensks landbúnaðar gerir sér ljóst að hér er orðið við mikinn vanda að etja. Ég endurtek ekki meginatriði þess sem hann viðurkenndi að aflaga færi. Ég bendi aðeins á að með hófsömum orðum játaði hann að hér þyrfti að verða veruleg breyting á til batnaðar.

Þriðja ræðan, sem flutt var, var flutt af hv. 3. þm. Norðurl. v., Páli Péturssyni, og var því miður allt annars eðlis og skar sig alveg greinilega frá hinum ræðunum. Hún bar þess vott, að því er mér virtist, að hann skildi ekki upp eða niður í því vandamáli sem hér væri um að ræða. Hann viðurkenndi yfir höfuð alls ekki, eins og þeir gerðu báðir, hæstv. landbrh. og hv. þm. Ingi Tryggvason, að hér væri nokkurt vandamál á ferðinni. Hann talaði m.ö.o. af fyllstu grunnhyggni um þetta mál. Hvort það stafaði af þekkingarleysi á málinu eða skilningsleysi á því sem hann þó veit eða þekkir, um það skal ég ósagt láta. Þekkingarleysi þykir mér þó sennilegri skýring þegar haft er í huga að hv. þm. Páli Pétursson er náskyldur þeim margreynda og ágæta þm. Skúla Guðmundssyni og ég hafði satt að segja haldið að í ætt hans fyndist varla grunnhyggjumaður, en það er eins og undantekning sé til frá öllum reglum. Ég held að nauðsynlegt sé að það komi skýrt fram hvað hv. þm. Páll Pétursson í raun og veru veit um þessi mál, fyrir hverju hann hefur gert sér grein og fyrir hverju hann hefur ekki gert sér grein. Þess vegna vil ég leyfa mér að beina örfáum spurningum til hv. þm. Páls Péturssonar.

Veit hann að á framleiðsluárinu 1974–1975 var framleiðsla dilkakjöts 13 500 tonn, og veit hann að af þessum 13 500 tonnum voru flutt út 2 800 tonn eða 21% af framleiðslunni? Fimmta hvert tonn af kjöti, sem íslenskir bændur framleiddu, var flutt út og þess neytt af erlendum mönnum. Veit hv. þm. Páll Pétursson hvað fékkst fyrir þetta kjöt? Það fékkst fyrir það 49% af því sem kostaði að framleiða það, tæpur helmingur. M.ö.o.: íslenskir bændur selja erlendum neytendum: breskum, færeyskum, sænskum, norskum, um það bil fimmta hvert kjötkg sem þeir framleiða fyrir minna en helming sem það kostar að framleiða kjötið. Er þá ekki von að ég spyrji og biðji hann um að svara því alveg skýrt og skorinort, ef hann veit þessar staðreyndir, og af þeirri greind sem honum ætli að vera ættlæg, — svara því skýrt og skorinort: Telur hann þetta virkilega vera eins og það á að vera? Sér hann engan vanda í sambandi við þetta? Sér hann engan galla á því skipulagi sem hefur þetta í för með sér?

Mig langar líka til að spyrja hv. þm. Pál Péturssonar hvort honum sé kunnugt um hvað útflutningsbætur séu nú miklar. Ef honum kynni ekki að vera það, þá skal ég upplýsa að þær eru nú um 1000 millj. kr. M.ö.o.: íslenskir skattgreiðendur borga neytendum í Bretlandi, Færeyjum, Noregi og Svíþjóð og fleiri löndum 1 milljarð kr. fyrir að leggja sér til munns íslenskar landbúnaðarafurðir. Ég spyr hann enn: Ef hann veit þetta, telur hann virkilega að það sé um að ræða skipulag á málefnum þessa atvinnuvegar sem ekki þurfi úrbóta við? Sér hann ekki að hér er um vanda að ræða sem löngu er kominn tími til að tekið sé á af festu og alvöru.

Ég er viss um að hann veit hvað niðurgreiðslurnar eru miklar. Þær eru á þessu ári áætlaðar rúmar 4 600 millj. kr. Við erum sammála um að hér er um styrk til neytenda að ræða. Niðurgreiðslurnar eru ekki styrkur til bænda, ekki styrkur til landbúnaðarins, þær eru styrkur til neytenda til að geta keypt vissar vörur á lægra verði en ella mundi eiga sér stað. En veit hv. þm. Páll Pétursson hvað þessi upphæð er í raun og veru stór miðað við hinn smáa þjóðarbúskap íslendinga? Niðurgreiðslurnar eru orðnar hvorki meira né minna en 5% af ráðstöfunartekjum íslenskra heimila, 1/20 hluti af ráðstöfunartekjum íslenskra heimila. Þarf þá nokkurn að undra þótt sú spurning vakni, hvort tæpum 5000 millj. kr., sem íslenskir skattborgarar greiða úr sameiginlegum sjóði í neytendastyrk, sé eins skynsamlega varið og unnt væri með því að nota hann eingöngu til þess að greiða niður íslenskar landbúnaðarvörur og þó ekki allar og greiða þær niður í mjög misjafnlega ríkum mæli, eins og á sér stað og ég rakti í framsöguræðu minni og þarf ekki að endurtaka hér?

Þessi neytendastyrkur ríkissjóðs nemur hvorki meira né minna en sem svarar 28 þús. kr. á hvern fullorðinn mann í landinu. Hann nemur 28 þús. kr. á hvern fullorðinn mann í landinu. En hann er bundinn því skilyrði, þessi styrkur, að menn kaupi kjöt, mjólk, smjör, osta og fáeinar aðrar minni háttar landbúnaðarvörur — en ekki allar. Kaupi menn nautakjöt fá menn enga hlutdeild í styrknum. Kaupi menn kjúkling fá menn enga hlutdeild í styrknum. Er von að menn spyrji: Er sá skynsamur maður til sem telur þetta skipulag vera skynsamlegt? Hvers vegna á það að vera skilyrði að neytandinn kaupi endilega fyrir styrk sinn kindakjöt en ekki nautakjöt eða kjúkling? Hver sér vitið í þessu? Ég benti á það og vil undirstrika það, að í þessu felst auðvitað stórfellt misrétti milli framleiðenda landbúnaðarvöru, í því fyrst og fremst að sumar vörur skuli vera niðurgreiddar, en sumar alls ekki, — bað er auðvitað hallað stórlega á þá sem framleiða landbúnaðarvöru sem ekki fær eyri í niðurgreiðslu, — en það er einnig misrétti í hinu, hversu misjafnar niðurgreiðslurnar eru á einstakar landbúnaðarvörur sem þó eru niðurgreiddar. Kom það mjög skýrt fram í ræðu bæði hæstv. landbrh. og í ræðu hv. þm. Inga Tryggvasonar að þeir gera sér ljóst misréttið sem í þessu felst. En það örlaði ekki á því í einni setningu af því sem hv. þm. Páll Pétursson sagði að hann gerði sér grein fyrir að hér væri nokkurn skapaðan hlut við að athuga. Allt var nákvæmlega eins og það átti að vera, að því er manni best gat skilist.

Ég skal nefna nokkur einföld dæmi um það ranglæti sem í þessu felst gagnvart neytendum. Ég skal minna á ágætan félagsskap sem einhverjir hv. þm. eru e.t.v. aðilar að, en fjöldi íslendinga eru aðilar að, þ.e.a.s. náttúrulækningafélagsskapinn. Nú veit ég ekki, gat ekki fengið upplýsingar um það í matarhléinu, hvað margir félagar eru í náttúrulækningafélagsskapnum, en þeir eru mjög margir. Menn vita að þeir mega ekki borða kjöt, hvorki niðurgreitt kjöt né óniðurgreitt. En dettur nokkrum í hug að neita því að félagar í Náttúrulækningafélaginu séu neytendur, og sé þetta neytendastyrkur, hví eiga þeir þá ekki að fá hlutdeild í þessum styrk? En þeir fá ekki eyri vegna niðurgreiðslu á kjöti af því að þeir neyta ekki kjöts. M.ö.o.: þeir eru sviptir réttmætri hlutdeild, vil ég segja, í þeim styrk sem hv. þm. Páll Pétursson játar að allir neytendur eigi að fá og sé ætlaður neytendum. Félagar í Náttúrulækningafélaginu fá ekki krónu af þeim styrk, af þeim geysilegu fjárhæðum sem ganga til niðurgreiðslu á kjöti.

Ég skal gjarnan láta þess getið hér að þetta vandamál, sem ég er að nefna, var í upphafi mjög lítilvægt, og það er lítilvægt þar sem niðurgreiðslur eru tiltölulega lítill hluti af verði, og það hjálpar líka til þess að draga úr mikilvægi þess ef niðurgreiðslur eru hlutfallslega jafnmiklar. En þetta vandamál verður mikilvægt þegar niðurgreiðslur eru orðnar jafnmiklar og þær eru hér á landi, þegar þær eru farnar að nálgast 5% af öllum ráðstöfunartekjum sérhvers heimilis í landinu. Þá skiptir máli hvort menn fá hlutdeild í þessum niðurgreiðslum eða ekki.

Þá er tilfinnanlegt ranglæti að haga þessum neytendastyrk þannig að stórir þjóðfélagshópar fái ekki að njóta neins hluta af þessum neytendastyrk.

Hugsum okkur annað dæmi, afar einfalt dæmi. Hugsum okkur fullorðinn mann, — ég sé að hér situr læknir beint á móti mér, hann kannast eflaust við tilfelli eins og að læknir bannar fullorðnum manni, sem er orðinn fullþungur, að drekka mjólk og segir honum að drekka vatn í staðinn. Það getur átt sér algjörlega eðlilegar skýringar. Helstu mannsins getur orðið mjög gott af því að hann í eitt eða tvö ár drekki ekki mjólk sem hann kann að hafa gert mikið af áður og drekki vatn í staðinn. En það er ekki von að læknirinn hugsi út í það, það er ekki hans verk, — það er verk stjórnmálamanna og hagfræðinga að hugsa út í það, — að þessi fyrirskipun læknisins til þess manns, sem læknisráðsins þarfnast, að drekka vatn í stað mjólkur í tiltekinn tíma kostar hann stórfé, hún sviptir hann stórkosttegri hlutdeild í þessum tæpum 5000 millj. sem ríkið ver í neytendastyrk. Ég endurtel;: það er ekki hlutverk læknisins að hugsa út í það eða benda á það, en staðreyndin er þessi. Þetta læknisráð er sjúklingnum dýrt vegna þeirrar tilhögunar sem er á niðurgreiðslunum. Auðvitað gerum við ráð fyrir því að það sé ekki ætlast til að hann fari að kaupa kjöt í staðinn. Eina ráð hans til að halda hlut sínum í niðurgreiðslunum væri þá kannske að tvöfalda kjötneyslu sína. Ekki mundi það bæta holdafarið. Ég geri því ráð fyrir að hann mundi ekki taka það til bragðs. Líklegra væri að hann minnkaði kjötátið í kjölfar þess læknisráðs. Það er mjög líklegt að læknirinn, sem hefði ráðlagt honum að hætta að neyta mjólkur, segði honum að draga úr matarneyslu almennt og þar með neyslu á kjöti, og það rýrir kjör hans enn meir. En hvers á maðurinn að gjalda? Hvers vegna á það að bæta heilsu sína að læknisráði að kosta hann stórfé? (Gripið fram í) Þetta var alveg laukrétt athugasemd hjá formanni Dagsbrúnar, hann á að bæta á fjárhaginn hjá sér um leið. Þetta var alveg laukrétt. Ef við miðum við, eins og ég sagði áðan, allar niðurgreiðslur, fulla hlutdeild neytandans í niðurgreiðslum, sem er um 28 þús. kr., og ef neytandi af sjálfsdáðum, eins og meðlimur Náttúrulækningafélagsins mundi gera, eða þessi sjúklingur mundi gera að hluta, — ef maður af einhverjum ástæðum tæki þá ákvörðun að kaupa ekki íslenskar landbúnaðarvörur, þá missti hann af hlutdeild í neytendastyrknum sem nemur um 28 þús. kr. fyrir það gæti hann t.d. keypt sér föt, og það gæti vel verið að manninn vantaði föt. Hví í ósköpunum á hann að vera skyldugur til þess að kaupa einmitt 4–5 tegundir af landbúnaðarvörum til að fá 28 þús. kr. sem hann á rétt á, ef hann vill heldur kaupa föt sem hann getur fengið fyrir 28 þús. kr, fyrir þessa peninga? Einmitt í þessu, að skylda neytandann til þess að nota peninga sína í ákveðnu skyni, m.ö.o. skylda hann til þess að kaupa 4–5 tegundir af landbúnaðarvörum þegar hann vildi miklu heldur kaupa föt fyrir sömu upphæð, í þessu er fólgin kjaraskerðing. Það væri kjarabót að hann fengi 28 þús. kr. og gæti keypt sér föt fyrir þær. Eða ef hann, eins og ég nefndi í frumræðu minni, vildi kaupa hreinlætisvörur fyrir einhvern hluta af því sem hann er sviptur við það að minnka mjólkurkaup sín, minnka kjötkaup sín, minnka ostakaup sín, minnka smjörkaup sín, þá á hann auðvitað að vera frjáls að því. Ef hann minnkar mjólkurkaupin, smjörkaupin eða kjötkaupin og ekkert annað gerist, þá rýrna kjör hans vegna þess að hann missir hlutdeild í 4600 millj. En eins og ég sagði, hann á að hafa rétt til þess að kaupa t.d. áburð í staðinn fyrir það sem hann dregur úr kaupum sínum á t.d. kjöti eða smjöri.

Það einfalda dæmi, sem ég tók í frumræðu minni, túlkaði hv. þm. Páll Pétursson þannig að ég hafi ætlast til þess að neytendur ætu fötin eða ætu sápuna. Þetta var alveg sérstaklega greindarleg túlkun og sýndi annað tveggja, að hann skilur alls ekki um hvað málið snýst, botnar ekkert í því um hvað málið snýst, eða þá hitt, að kímnigáfan er ekki eins og hún var hjá frænda hans, Skúla Guðmundssyni.

Ég skal að síðustu benda á eitt enn sem undirstrikar ranglæti þess kerfis sem hér er um að ræða. Fátækur maður, fátæk fjölskylda kaupir lítið af kjöti, lítið af smjöri, lítið af rjóma. Fátæki maðurinn eða tekjulága fjölskyldan borðar fisk og smjörlíki í staðinn. Hvað þýðir þetta fyrir hana? Það þýðir að hlutdeild þessarar fjölskyldu í 4600 millj. er minni en meðalfjölskyldunnar. Tekjulága fjölskyldan fær minna af neytendastyrknum sem við skulum vera sammála um að kalla niðurgreiðslurnar, fær minna en meðalfjölskyldan. Er nokkur í vafa um það að tekjuhár maður, að ríkur maður kaupir tiltölulega meira af kjöti, hann borðar kjöt kannske fimm sinnum í viku þegar fátæki maðurinn leyfir sér aðeins 1–2 máltíðir í viku? Og hann kaupir smjör, en ekki smjörlíki, og hann kaupir rjóma. Hvað þýðir þetta? Það þýðir það að hann fær hlutfallslega miklu meira út úr niðurgreiðslunum, hann fær hlutfallslega miklu meiri neytendastyrk en bæði meðalfjölskyldan og fjölskyldan sem er tekjulág. Ég spyr: Er þetta réttlæti? Er þetta réttmætt? Nei, auðvitað ekki. Ég segi enn: Þetta vandamál skipti ekki verulegu máli meðan niðurgreiðslurnar voru 1/10 af því sem þær eru núna. Ef þær væru aðeins 1% af ráðstöfunartekjunum, þá væri þetta vandamál ekki alvarlegt. En þegar þær eru orðnar 1/20 hluti þeirra, þá er ranglætið orðið alvarlegt.

Það, sem þessi till. í raun og veru gengur út á, er að undirstrika að niðurgreiðslurnar eru neytendastyrkur. Neytendur eiga niðurgreiðsluféð. Ríkið greiðir þetta fé, sem auðvitað er tekið af skattborgurunum, til þess að auðvelda neytendum neyslu sína. Þá er auðvitað ekkert vit í því að það skilyrði skuli vera sett fyrir þessum neytendastyrk að hann skuli allur notaður til að kaupa 4–5 tilteknar neysluvörur. Neytandinn á að fá að ráða því sjálfur hvort hann kaupir þær landbúnaðarvörur, sem eru niðurgreiddar, eða landbúnaðarvörur, sem eru ekki niðurgreiddar, nautakjöt og kjúklinga, eða föt eða hreinlætisvörur eða fer í ferðalag norður í Húnavatnssýslu, svo að ég nefni ekki Suðurland sem virtist fara mjög í taugarnar á hv. þm. Páli Péturssyni um daginn. En það er líka margt að sjá í Húnavatnssýslu og hann gæti vel notað einhvern hluta af því, sem hann fengi af neytendastyrknum, til þess fara þangað og skoða sögufræga staði. Þar hefur margt gerst sögulegt á umliðnum öldum.

Kjarni málsins er þessi, að fyrst hér er um neytendastyrk að ræða, eins og fulltrúar bænda hafa lagt réttilega megináherslu á á undanförnum áratugum, og fyrst hann er orðinn jafnmikill og hér er um að ræða, þá á neytandinn að fá að ráða því sjálfur til hvers hann notar styrkinn. Annars er það þess konar skerðing á frjálsræði hans sem rýrir kjör hans. Það vita allir að þær tekjur, sem menn geta ráðstafað að eigin vild, sem þeir geta ráðstafað til að fullnægja þeim þörfum sem þeir sjálfir telja brýnastar, þær koma að mestum notum. Sé mönnum fyrirskipað að nota tekjur sinar á ákveðinn hátt, þá jafngildir það kjaraskerðingu.

Þetta er auðvitað meginskýringin á því að miðstjórn Alþýðusambands Íslands og samninganefnd þess gerðu í síðustu launaviðræðum það eitt af stefnuatriðum sínum gagnvart hæstv. ríkisstj. að núverandi fyrirkomulag niðurgreiðslna skyldi breytt, af því að breyting í þá átt að auka frjálsræði neytandans til þess að ráðstafa styrktarfénu mundi bæta kjör hans. Þetta var liður í kjarabótabaráttu launþegasamtakanna. Auk þess er hægt að sýna fram á og ég raunar hef sýnt fram á bæði um daginn og núna með lauslegum dæmum og ætti raunar að vera alveg auðskilið að breyting úr takmörkun styrksins við fáeinar vörutegundir í peningaupphæð, sem væri til frjálsrar ráðstöfunar, mundi auka tekjujöfnuð. Það mundi annars vegar bæta kjör neytendanna og hins vegar jafna kjör þeirra. Hvort tveggja er markmið sem vissulega er þess vert að því sé í alvöru gaumur gefinn og er auðvitað skýringin á því að gagnrýni á núverandi niðurgreiðslukerfi hefur orðið einn þáttur í launamálastefnu launþegasamtakanna eða þeirra samtaka sem eru innan Alþýðusambands Íslands.

Ég held að með þessum orðum mínum hafi ég vikið að því sem fram kom í hinum þremur annars ólíku ræðum. En ég vænti þess að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. allshn. og hún fái þar alvarlega athugun.