18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Eins og flest annað í ræðu hv. 9. þm. Reykv., þá er það rugl að ég sé frændi Skúla Guðmundssonar, enda er hann búinn að komast að hinu sanna í því máli.

Því er verr að ég er ekki frændi Skúla Guðmundssonar. Það mundi vafalaust koma sér vel fyrir okkur báða, okkur hv. 9. þm. Reykv., ef við hefðum sumt af kostum Skúla Guðmundssonar til að bera, einkanlega þessa skýru og rólegu hugsun. En það hefði nú komið sér vel fyrir hv. 9. þm. Reykv. þegar hann stóð hér í stólnum áðan og hugsaði sem hraðast.

Hann fór að hlýða mér svolítið yfir landbúnaðarframleiðsluna. Ég veit það ósköp vel að þetta ár, sem hann vitnaði til, var gott framleiðsluár og það var flutt út dilkakjöt þá. Landbrh. er hins vegar búinn að benda honum á að það er ómögulegt að fá ull eða gærur nema með því að hafa einhverjar kjöttægjur líka, og það er þó alltaf nokkur lærdómur sem hann hefur upp úr þessum umr. Útflutningsuppbætur eru vissulega nokkuð há tala, en bað er vitaskuld hægt að kaupa vörur erlendis í staðinn fyrir þann gjaldeyri sem þó þrátt fyrir allt fæst fyrir þessar útfluttu landbúnaðarafurðir. Og mér þótti vænt um að hæstv. landbrh. rakti það hér rækilega að ríkissjóður hefði hagnað af útflutningi landbúnaðarafurða.

Ég hélt því hvergi fram í ræðu minni að niðurgreiðslukerfið væri agnúalaust, síður en svo. Ég benti meira að segja á leið til þess að lækka niðurgreiðslurnar um 550 millj. með því að fella niður söluskattinn af landbúnaðarvörum, en hann er sem kunnugt er á sumum þeirra. Ég lét þess enn fremur getið að bændur hefðu ekki beðið um auknar niðurgreiðslur á sölustigi. Hins vegar hafa þeir iðulega óskað eftir því að niðurgreiðslur yrðu teknar upp á framleiðslustigi, en það hefur gengið illa að fá stjórnvöld til þess að þræða þá leið. En þó var það gert í fyrravor og gafst vel þegar áburðarhækkun var dempuð með niðurgreiðslu á framleiðslustigi.

Vandamál náttúrulækningamanna ætla ég nú að leiða hjá mér því að ég held að þau hafi nú ekki verulega mikil áhrif. Það er unnið að því að jafna niðurgreiðslur á landbúnaðarvörur, og það er vel að svo sé. Ég held að hv. þm. hafi misskilið lífsbaráttu þessara feitu manna. Ég held að það liggi ljóst fyrir, að þessi feiti maður þurfi ekki eins mikið í fæðiskostnað — og það fannst mér formaður Dagsbrúnar vera að reyna að benda honum á þótt hann skildi það ekki — ekki eins mikið í fæðiskostnað og sá sem endilega þarf að brenna kjötinu.

Ég reyndi að gera grein fyrir því í ræðu minni í fyrradag hvers vegna ég teldi ekki eðlilegt að fella niður útflutningsuppbæturnar. Þetta er sveiflukenndur atvinnuvegur og ýmsir þættir í landbúnaðarframleiðslu eru svo óvissir að það er gersamlega útilokað að ætla sér að ákveða hvort heldur árið fyrir fram eða þótt maður færi yfir lengri tímabil, t.d. gerði 5 ára áætlun, hvað þungt hvert lamb yrði haustið eftir. Þetta er undir svo mörgum þáttum komið að það er ómögulegt að ráða algerlega í það.

Framsetning hv. þm. á klausunni um þvottaduftið og sá hugmóður, sem þá var í honum, varð þess valdandi að ég hef sennilega misskilið hann. Mér þykir reglulega vænt um það ef hann borðar ekki hreinlætisvörur í ógáti, og ég bið hann að gera það aldrei nokkurn tíma, því að ég er viss um að þær eru óhollar í magann.

Ég reyndi að gera grein fyrir því hvaða mun ég teldi vera á neysluvenjum ríkra manna og fátækra. Ég held að það komi ekki fyrst og fremst fram í mataræði. Það kemur fram í ferðalögum, það kemur fram í bílakosti, það kemur fram í íbúðarkostnaði og öðru fremur en mataræði. Hvað viðkemur fiski, þá er hann ekki tiltölulega miklu ódýrari matur heldur en landbúnaðarafurðir, eins og málum er háttað í dag, og er það kannske að sumu leyti óeðlilegt. Smjörlíki er ekki heldur miklu ódýrara en smjör miðað við gæði, og það kann að vera nokkurt ósamræmi í því líka.

Ég minntist ekki á Suðurland í ræðu minni, ekki frekar en það væri ekki til, og er það þó náttúrlega stórkostlega merkilegur partur landsins. Hins vegar talaði ég um Kanaríeyjar og Mallorca, en það er allt annað. Að endingu held Og að hv. þm. hefði heldur átt að fá sér niðurgreitt dilkakjöt í hádegismatinn, en ég hef lúmskan grun og nánast vissu um það að nú hafi hann illu heilli étið folald.