18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki tengja þessar umr. mikið, enda hef ég því miður ekki getað fylgst með þeim öllum. Mér fannst þó ræða hv. 9. þm. Reykv. áðan vera með þeim hætti að ástæða væri til þess að kveðja sér hljóðs, enda þótt margt af því, sem réttmætt væri að mínum dómi að segja við þeirri ræðu, hafi þegar komið fram í ræðu hæstv. landbrh. og ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Mér fannst áðan, þegar hv. 9. þm. Reykv. var í stólnum, að því væri líkast að þar stæði maður sem aldrei hefði setið í ríkisstj. og aldrei hefði hugleitt efnahagsvandamál á Íslandi. Þetta stemmir auðvitað mjög svo illa þegar þess er gætt, að hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason var í 15 ár samfleytt í ríkisstj. og er hagfræðingur að mennt og hefur flutt margar ræður um efnahagsmál og var enda viðskrh. í sinni ráðherratíð.

Hv. þm. lagði mikla áherslu á að láta það koma fram sem sína skoðun að niðurgreiðslur á búvörum væru neytendastyrkur, þessi neytendastyrkur væri orðinn úr hófi hár, svo hár að það kerfi, sem niðurgreiðslur eru byggðar á, væri gersamlega gengið úr skorðum og gerbreyta þyrfti um á þá lund að afhenda neytendum þetta fé í vasa eftir höfðatölureglu, en með því væri verið að taka upp ríkisþurfalingsframfærslu á landslýðnum. Ég sé á grg. með þessari till.hv. þm. rekur það þar, enda þótt ég heyrði ekki að hann kæmi að því í ræðu sinni áðan, að niðurgreiðslur á búvörum hafa alla tíð verið fyrst og fremst hagstjórnartæki stjórnvalda til þess að hafa heimil á verðbólguþróun. Og þó að vissu leyti megi segja að niðurgreiðslur séu neytendastyrkur, þá er þó hitt miklu þýðingarmeira atriði, að þær eru teknar upp sem hagstjórnartæki til þess að vega gegn verðhækkunum. Niðurgreiðslur koma að sjálfsögðu neytendum til góða í lækkuðu vöruverði og þær koma einnig að nokkru framleiðendum til góða á þá lund að framleiðsla þeirra verður auðseljanlegri í samkeppni við aðra sambærilega vöru. Hins vegar er það svo, að framleiðendur, þ.e. bændur, hafa a.m.k. sjaldan eða ég held helst aldrei beðið um að niðurgreiðslur væru teknar upp eða þær hækkaðar.

Í sambandi við niðurgreiðslur almennt vil ég láta það koma fram sem mína skoðun, að ég tel að þær séu orðnar mjög háar, og get tekið undir það með flm. þessarar till., að ég tel að þær hefðu átt að takmarkast við ákveðið hlutfall af verðmæti framleiðslunnar meira en gert hefur verið. Og ég vil einnig bæta því við, að niðurgreiðslur, þetta hagstjórnartæki stjórnvalda, hafa að ýmsu leyti verið misnotaðar af flestum eða öllum ríkisstj. sem hafa beitt þeim síðan þær voru teknar upp. Ég segi að þær hafi verið misnotaðar, vegna þess að þeim hefur verið beitt sveiflukennt, þær hafa verið hækkaðar stórlega í stökkum og án þess að skeytt væri um að það væri framleiðslunni og e.t.v. verðlagsþróuninni í heild að öllu leyti fyrir bestu. Veð mjög háum niðurgreiðslum er framleiðslan sem sé komin í þá hættu einnig að verði þær skyndilega skertar, þá stigur verðið á vörunum skyndilega og hætt við að valdi sölutregðu. Þetta er stóra hættan sem í því er fólgin fyrir framleiðendur að niðurgreiðslum sé beitt í mjög ríkum mæli.

Nú er það svo, að þrátt fyrir að þessi hafi orðið raunin á, þá er tiltölulega einfalt að lækka niðurgreiðslur smám saman, ef miðað er við að haldist sambærileg verðlagsþróun í landinu og gerst hefur á síðari árum. Þær mundu lækka og eyðast smám saman að verulegu leyti ef þær væru ekki hækkaðar að magni til. Þetta held ég að komi mjög til greina til þess að hafa hemil á að þessi útgjaldaliður fjárlaga stígi ekki upp úr öllu valdi.

Í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv., að forustumenn launþegasamtakanna hafi t.d. fyrir gerð nýgerðra kjarasamninga gagnrýnt niðurgreiðslukerfið verulega og talið að aðrar leiðir væru heppilegri í sambandi við útgjöld ríkisins til þessara þátta, þá má vel vera að hér sé rétt með farið, og veit ég það raunar, a.m.k. að sumu leyti. Hitt er þó einnig rétt að hafa í huga að stundum hefur það gerst við kjarasamninga að forustumenn launþegasamtakanna hafa lagt mikið upp úr því og jafnvel sett sem skilyrði fyrir því að kjarasamningar næðust að niðurgreiðslur væru hækkaðar. Það er því ekki með öllu a.m.k. hægt að undanskilja launþegasamtökin ábyrgð á því að niðurgreiðslurnar í heild hafi stigið svo sem raun ber vitni á undanförnum árum. Ég man t.d. ekki betur en ég hafi heyrt því fleygt að þegar kjarasamningar voru gerðir á síðasta ári, þá hafi það beinlínis verið krafa launþegasamtakanna og skilyrði fyrir því, að samningar gengju saman, að ríkissjóður yki niðurgreiðslur sem svaraði 840 millj. á ársgrundvelli við þá kjarasamninga. Þetta var gert, enda þótt allir viti í hvern stakk ríkissjóður var búinn til þess að mæta slíkum auknum útgjöldum. Ég tel að þetta út af fyrir sig hafi verið mjög svo óheppileg ráðstöfun og hefði betur verið hægt að komast hjá slíku.

Ég skal ekki fara langt út í að meta það hvort aukin hagsæld almennings í landinu mundi fylgja því að það væri farið að deila þessu fé út eftir höfðatölu og gera þjóðina beint að ríkisþurfalingum. En hæstv. landbrh. sagði áðan að sú leið væri dýrari og hefði aukinn kostnað í för með sér. Til viðbótar er ekki hægt að loka augunum fyrir því, sem hv. 9. þm. Reykv. virðist gera gersamlega, að með því að binda niðurgreiðslur við tilteknar framleiðsluvörur, í þessu tilviki framleiðsluvörur bænda, þó er þó að hluta verið að styðja íslenska framleiðslu og með því að gera hana samkeppnisfærari í verði miðað við ýmsa aðra matvöru. Sá mismunur, sem er á niðurgreiðslu milli framleiðslugreina, hefur verið skýrður hér og er fullkomlega réttlætanlegur þegar þess er gætt að sumar búvörur eru nálega einvörðungu framleiddar af innfluttu fóðri.

Í sambandi við þá gagnrýni, sem oft hefur komið fram frá hv. 9. þm. Reykv. á framlög hins opinbera til landbúnaðarins og ýmsir aðrir hagspekingar hafa tekið undir og tekið upp á sína arma, þá vil ég slá því föstu fyrir mína parta að íslenskur landbúnaður þarf ekki að bera kinnroða fyrir þann stuðning sem hið opinbera veitir honum hér á Íslandi, sé miðað við það sem gerist meðal fjölmargra annarra þjóða. Ég er ekki hér með í höndunum gögn til þess að gera samanburð á þessum vettvangi. Þau gögn eru þó til. og ég tel að íslenskir bændur geti borið höfuðið hátt gegn þeim áróðri sem þyrlað hefur verið upp á móti bændastéttinni í þessu tilviki, og séu hvergi eftirbátar starfsbræðra sinna meðal margra annarra þjóða í afköstum eða hvað snertir verð framleiðslunnar.

Það hefur komið hér fram að sumar framleiðslugreinar landbúnaðarins eru þegar mjög þýðingarmiklar í útflutningi landsmanna. Þær eru enn fremur í heild mjög mikilvæg undirstöðugrein í iðnaði og iðnþróun þjóðarinnar, ekki síst sauðfjárafurðir sem sýnist hvað helst beint skeytum að. Það er enda svo að það virðist koma skýrt fram í skýrslum og áætlunum sérfræðinga að ýmsir þættir landbúnaðarframleiðslunnar, ekki síst ullar- og skinnavörur, verði stórum vaxandi þáttur í iðnaðarframleiðslu og útflutningsverðmæti þjóðarinnar á komandi árum. Enda þótt við höfum þarna yfir að ráða mjög þýðingarmiklum pósti í dag, þá á verðgildi hans eftir að vaxa stórlega og jafnvel allt að tvöfaldast miðað við sama magn og nú er framleitt í landinu. Það er þjóðarnauðsyn að framleiðsla landbúnaðarins minnki ekki, vaxi fremur ásmegin heldur en hið gagnstæða. Og það er engum greiði gerður, hvorki neytendum í þessu landi né öðrum, með því að halda sífellt uppi árásum á þessa atvinnugrein og framleiðslu landbúnaðarins í heild.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, enda óþarft. Ég tel að út af fyrir sig geti komið til greina, eins og raunar er farið fram á í sjálfri tillgr., að huga að því frekar en gert er hvort ástæða væri til að hluti af því fé, sem fer til niðurgreiðslna á búvöru, gangi til landbúnaðarins á frumstigi framleiðslunnar til að lækka á þann hátt verð vörunnar. Ég tel að það komi vissulega til greina. Athuganir á því sviði hafa oft farið fram. Lítið hefur út úr því komið annað en það, sem hér hefur verið frá greint af hv. 3. þm. Norðurl. v., að á síðasta ári var greidd niður að hluta áburðarhækkun. En ég tel að það sé fjarri öllum sanni og komi ekki til nokkurra mála að fallast á það, sem var megininntak ræðu hv. 9. þm. Reykv., að það fé, sem varið er til niðurgreiðslna á búvöru, sé tekið og því ráðstafað beint til neytenda, eins og hann orðaði það, eða til landsmanna eftir höfðatölu eða einhverri annarri reglu og þjóðin þannig gerð að ríkisþurfalingum.