18.03.1976
Sameinað þing: 66. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

72. mál, niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hygg að ég þurfi ekki að tefja þessa umr. svo mjög, þar sem margt hefur þegar verið tekið fram af því, sem ég hefði viljað segja, eftir að ég kvaddi mér hljóðs. Eigi að síður þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum að þeirri till. sem hér er til umr., og eru það þá aðallega tveir þættir hennar sem ég ætla að koma hér lítils háttar inn á.

Í fyrsta lagi var vakin athygli á því af 1. flm. till., hv. 9. þm. Reykv., að niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum væru orðnar hér hjá okkur óþarflega háar eða myndu nema um 4600 millj. kr. á þessu ári. Þetta er alveg rétt, og ég hygg að menn séu honum yfirleitt sammála að það er erfitt að sætta sig við það að niðurgreiðslur skuli þurfa að vera svo háar sem þær eru. Mér þykir einnig vænt um að hann hefur nú í þessum umr. hér í þingi viðurkennt það að niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum eru styrkur til neytenda, eins og hann kallaði það sjálfur. Vitaskuld eru þær til þess gerðar að einstaklingarnir með þjóðinni eigi hægara með að kaupa sinar þarfir. En það, sem gagnrýni þessa hv. þm. beinist fyrst og fremst að, er að skipulag þessara mála sé óskynsamlegt og það eigi að haga þessum niðurgreiðslum á allt annan hátt en hér er gert og hefur verið gert. Um þetta get ég verið honum alveg hjartanlega sammála. Og ég er ekki í nokkrum vafa um það, að ef horfið hefði verið að því ráði að láta bændur ráða einhverju um hvernig þessar niðurgreiðslur eru ákveðnar og hvernig þeim er hagað milli einstakra greina landbúnaðarins, þá væri þetta allt í betra horfi en það er nú. Það má vera að þetta þyki furðuleg fullyrðing, en ég hygg að hún réttlætist þegar það er haft í huga að þetta er ekki gert til neins annars en þess að halda niðri vísitölu framfærslukostnaðar og þá hafa stjórnvöld leiðst í þá freistingu að greiða niður fyrst og fremst þær vörutegundir sem ódýrast var að greiða niður. Mér þykir því vænt um að hafa fengið að þessu leyti nýjan liðsmann í þessu efni.

Annað atriði, sem ég vildi lítils háttar koma að, eru útflutningsuppbætur sem ganga til að greiða niður það magn af landbúnaðarvörum sem flutt er úr landi. Ég þarf ekki að rifja það upp fyrir hv. 9. þm. Reykv. til hvers þessir fjármunir eru ætlaðir. Það veit ég að honum er ljóst. Þeir eru fyrst og fremst til komnir af því að það hefur komið í ljós og er öllum íslendingum vitanlegt að landbúnaður á Íslandi er ærið misviðrasamur og það er erfitt að hafa hann meira að segja jafnstöðugan og hann er í ýmsum löndum sunnar í álfu. Þrátt fyrir það að íbúar Mið-Evrópu eigi við hagstæðara tíðarfar að búa að ýmsu leyti heldur en við, þá fréttum við af því æði oft að þar verður uppskerubrestur ekki síður en norður á Íslandi, og ég hygg að það þurfi einnig að jafna þá hluti fyrir framleiðendurna þegar verst gegnir. Ég vil minna á það, sem öllum ætti þó að vera í fersku minni, að á s.l. sumri hefur fóður sem fénaðinum er ætlað í vetur, orðið um 13–25% rýrara að fóðurgildi um megnið af landinu heldur en í meðalári. Þess vegna er ekkert undarlegt þó að bændum þyki mikils um það vert að eiga einhverja tryggingu til þess að jafna sveiflur sem verða í framleiðslunni. Ég er ekki að tala um að það eigi að bæta þeim upp þessa fóðurrýrnun strax. Hún á eftir að koma fram í framleiðslunni, hún verður minni en annars hefði orðið eða kostnaðarsamari, og þá er mikils um vert að eiga þessar útflutningsuppbætur til þess að geta jafnað milli góðra og vondra ára.

Árið 1974 var gott framleiðsluár um allar sauðfjárafurðir, það hygg ég að mönnum komi saman um. Hv. 9. þm. Reykv. tók það fram að af framleiðslu ársins 1974–1975 hefðu verið flutt út um 20% af því dilkakjöti sem til féll í landinu. Ég verð nú að segja það, að mér þykir ekkert furðulegt þó að það kæmi upp á því ári sem var einna best í landinu, því að þar sem við höfum um 800 þús. dilka til þess að farga, þá þarf ekki að muna mjög miklu á hverju falli til þess að þar komi upp tilfinnanlegur munur. Þegar þetta fer saman, að það er mikil nauðsyn að geta jafnað á milli ára, þá er sú leið, sem valin hefur verið, að ætla um 10% af heildarframleiðslu landbúnaðarins til uppbóta á útfluttar afurðir, í raun og veru ekkert mikil trygging hjá því sem þyrfti að vera til þess að taka skakkaföllin alveg af. Fram á það er ég ekki að fara. En ég tel mjög mikilvægt að þetta haldist til þess að landbúnaðurinn verði stöðugri og menn freistist ekki til þess að flýja frá atvinnugreininni fyrir erfiðleika sem yfir hana ganga. Og ég vænti þess að mönnum sé ljóst, ekki síst hér í Reykjavík og í umhverfi Reykjavíkur, á þessum vetri hversu háskalegt það er þegar þannig hefur tekist til um framleiðslu t.d. á mjólkinni að hana vantar sárlega. Og því fremur verður það tilfinnanlegt þegar gjaldeyrisstaða landsins er slík að það verður mjög erfitt að sinna því að kaupa inn til landsins jafndýrar vörur og mjólkurvörurnar eru ef við eigum að flytja þær að.

Ég þarf ekki að taka það fram, það hefur verið gert hér á undan mér, að þessu dilkakjöti, sem við erum að flytja út, fylgir það að við eigum möguleika á því að eiga stórkostlega verðmæt hráefni til iðnaðarins sem framfærir fjölda fólks í landinu. Og ég vil láta það koma hér fram að á árinu 1975 voru fluttar út ullarvörur, unnar að mestu leyti, fyrir 1420 millj. kr., mestallt unnar vörur, og það þarf enginn að segja mér að það mundi ekki muna um það á vinnumarkaðinum ef þessi ullarvara hefði ekki verið unnin hér í landinu. Þá er einnig rétt að láta það koma hér fram, að loðskinn og loðsútuð skinn voru flutt út fyrir 663 millj. kr. og óunnar gærur fyrir 297 millj. kr., þannig að heildarútflutningur þessara vara, sem koma beint frá sauðfjárræktinni, nemur 2380 millj. kr. Ég verð að segja það þeim mönnum, sem eru að ræða um landbúnað og breytingar á þeirri stefnu sem þar hefur verið viðhöfð, að þeim er hollt að reyna að skoða málið allt í einni heild. Það er ekki hægt að taka út úr þessu einn einstakan þátt. Það verður að skoða málið í einni heild.

Ég hygg, herra forseti, að ég þurfi ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta. En ég vil, um leið og ég lýk máli mínu, geta þess að þegar hv. 9. þm. Reykv. var að ræða um skipulagið á niðurgreiðslunum sem hann jafnvel er höfundur að — ég er ekki alveg viss um það samt — þá þótti mér sú ræða æðiskopleg, og ég komst ekki hjá því að það rifjaðist upp fyrir mér vísa sem ég einu sinni heyrði um fyrrv. þm. og er á þessa leið:

Meinleg gleymska manninn hrjáði;

meðan í stjórn og þingi sat,

en uppi í menntamálaráði

mundi hann allt sem hugsast gat.