04.11.1975
Sameinað þing: 11. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

290. mál, virkjunarrannsóknir á Fljótsdalsheiði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég vil fyrst leiðrétta tvennt í ræðu fyrirspyrjanda, hv. 7. landsk. þm., Helga F. Seljans.

Ég gat þess í svari mínu að eins og málin liggja nú fyrir, þá telur hönnunarstjórn og þeir, sem að Bessastaðaárvirkjun vinna, að fullnaðarúrvinnsla gagna, sem fyrir liggja, muni væntanlega liggja fyrir síðari hluta vetrar, þannig að þá væru möguleikar að taka fullnaðarákvörðun um virkjunina. Hv. þm. hefur ekki heimild til að túlka þessi ummæli þannig að ég hafi gefið fyrirheit um að síðari hluta vetrar yrði tekin fullnaðarákvörðun. Ég vil taka fram að þegar menn gefa upplýsingar, eftir því sem fyrir liggur, frá stofnunum eða starfsmönnum sem að málum vinna, þá eru þær um það sem er gert ráð fyrir og kann að vera spáð sem líklegu, en ekki að það sé tekið sem loforð eða fyrirheit ráðh. Það er alveg heimildarlaust.

Í öðru lagi er það ekki rétt hjá hv. þm. að ég hafi á s. l. vori í umr. í Ed. sakað hann um fávisku í sambandi við umr. um þessi mál. Því fer fjarri, því að mín skoðun hefur verið og er sú að hv. þm. sé greindur, góður og gegn maður. Það hefði aldrei hvarflað að mér að bregða honum um fávisku.

Varðandi fyrirspurnina um Alusuisse, þá gat ég þess hér að það fyrirtæki, sem mun vera aðaleigandi að verkfræðilegu ráðgjafarfyrirtæki svissnesku, hafi sent erindi til viðræðunefndar um orkufrekan iðnað, — það hittist nú svo á að hvorugur þeirra alþm., sem eiga sæti í þeirri n., er hér staddur nú, — og að viðræðunefnd um orkufrekan iðnað hafi samþ. tilmæli Suisse Aluminium. Ég sé að þessi beiðni Alusuisse hefur verið samþ. á fundi viðræðunefndarinnar eða stóriðjunefndar 14. maí s. l. En mér finnst bæði hjá hv. 7. landsk. þm. og enn fremur hjá hv. 3. landsk., Ólafi Ragnari Grímssyni, gæta ákaflega mikils misskilnings varðandi þátt erlendra aðila eða sérfræðinga í áætlanagerð um fallvötn og virkjunarmál hér. Þeir þykjast þurfa að vara alvarlega við því og mótmæla því að nokkrir útlendingar komi þar á nokkurn hátt nærri. Það er því ástæða til að rifja það upp til þess að komi í veg fyrir svona misskilning að erlendir verkfræðingar, erlendir sérfræðingar og erlend ráðgjafarfyrirtæki og félög hafa á undanförnum árum og áratugum margsinnis starfað að virkjunaráætlunum og virkjunarrannsóknum hér á landi. Það má nefna fyrst — það voru stórvirkjanir þeirra tíma — þegar Sogið var virkjað. Þá var jafnan erlendur sérfræðingur eða erlendir sérfræðingar raunar hafðir með í ráðum um rannsóknir og áætlanagerð. Það má nefna það að á árunum 1953–1959 gerðist það að ríkisstj. eða raforkumálastjórnin íslenska samdi við bandarískt stórfyrirtæki, sem heitir Harza Engineering í Chicago, um að gera mynsturáætlun eða aðaláætlun við virkjun Hvítár og Þjórsár. Það er rétt að geta þess að þessi ákvörðun mun líklega hafa verið tekin á tíma fyrri vinstri stjórnarinnar. Þessi athugun var kostuð af sérstökum sjóði á vegum Marshallhjálparinnar. Þegar svo þessar frumáætlanir og mynsturáætlanir um Þjórsá og Hvítá lágu fyrir, þá var fengið annað erlent fyrirtæki, norskt ráðgjafarverkfræðifyrirtæki, til þess að endurskoða þessa áætlun. Síðar gerist árið 1962 að Harza, þessu bandaríska fyrirtæki, er falið að gera fullnaðaráætlun og útboðslýsingu á 210 mw. virkjun við Búrfell með tilheyrandi háspennulínum. Nokkrum árum síðar var svissnesku fyrirtæki, Electrowatt, falið í samvinnu við íslenskt fyrirtæki, Virki hf., að gera áætlanir og útboðslýsingar um 150 mw. virkjun í Tungnaá við Sigöldu, og þannig mætti áfram telja.

Nú vil ég skýrt taka það fram, að skoðun mín er sú að við eigum við allar rannsóknir og áætlanagerð okkar auðlinda að nota og nýta fyrst og fremst íslenska starfskrafta, og sem betur fer er það í mjög vaxandi mæli að við eigum góðum sérfræðingum og sumum þeirra á heimsmælikvarða á að skipa. Það verður að vera meginsjónarmið okkar að íslenskir sérfræðingar vinni að slíkum rannsóknum og áætlanagerðum. Hins vegar skulum við einnig hafa í huga að það er vafalaust gagnlegt fyrir okkur sjálfa og ég býst við beinlínis eftir óskum íslenskra sérfræðinga að stundum sé einnig leitað til og haft samráð við erlenda sérfræðinga. Undirbúningur þessara stórvirkjana, sem ég nefndi, Sogsvirkjunar á sínum tíma, Búrfellsvirkjunar, Sigölduvirkjunar og einnig almennar athuganir á nokkrum stórfljótum, benda til þess að íslendingar hafi sjálfir á undanförnum áratugum talið eðlilegt að reyna að nýta erlenda starfskrafta eða erlenda sérfræði að einhverju leyti. Þess vegna er harla undarlegt þegar tveir alþm. rísa hér upp og eru haldnir heilagri vandlætingu og hneykslun út af því að einhverjir útlendingar hafi áhuga á að fylgjast með undirbúningi að virkjun íslenskra fallvatna eða annarra auðlinda, m. a. vegna þess að þegar að því kemur að virkja, þá hefur yfirleitt tíðkast hjá okkur að við höfum haft samráð við erlend fyrirtæki um endanlegan undirbúning, og auk þess eru þessi stórverk jafnan boðin út, ekki aðeins innanlands, heldur ekki síður erlendis. Ég sé ekki að hér sé á nokkurn hátt staðið óeðlilega að eða á annan veg en tíðkast hefur og þótt eðlilegt hér um langan aldur. En ég vil undirstrika það og endurtaka, að ég tel að meginstefnan og aðalsjónarmið okkar eigi að vera að nýta fyrst og fremst íslenska starfskrafta.