22.03.1976
Efri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

15. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er í tveimur köflum. Fyrri kaflinn er um breytingar á 40.–42. gr. hegningarl. sem fjalla um reynslulausn fanga, en síðari kaflinn, sem fjallar um breytingu á 232. gr. hegningarl., varðar aftur röskun á friði einstaklinga.

Ákvæði hegningarlaga um reynslulausn fanga hafa staðið að mestu óbreytt frá því að hegningarlögin voru sett 1940. Þær till., sem settar eru fram í þessu frv., eru að meginefni til byggðar á till. norrænu refsilaganefndarinnar sem skilaði álitsgerð um reynslulausn árið 1970.

Helstu breytingarnar, sem lagt er til í frv. að gerðar verði á ákvæðunum um reynslulausn, eru þær, að lagt er til að lágmarkstími, sem fangi hafi afplánað áður en hann fær reynslulausn, sé styttur frá því sem er í núgildandi lögum. Er um það ákvæði í 1. gr. þessa frv. sem er um breyt. á 40. gr. laganna. Var upphaflega, þegar frv. var lagt fram, gert ráð fyrir því að fangi gæti fengið þessa svokölluðu reynslulausn þegar hann hefði afplánað fjóra mánuði, í stað þess að það eru eftir gildandi lögum 8 mánuðir, en þessu tímamarki var breytt í Nd. þannig, að í staðinn fyrir 4 mánuði var lagt til að fangi gæti fengið reynslulausn eftir að hann hefði tekið út 3 mánuði af refsitímanum. Á þessa breytingu fellst ég að sjálfsögðu. Hún er í samræmi við það sem hefur verið ákveðið a.m.k. nú þegar í einu Norðurlandanna.

Það eru svo sett í þessari grein nokkur frekari ákvæði um það hvenær reynslulausn megi veita og má segja að þau gangi í þá átt að rýmka heimildina frá því sem nú er.

Hins vegar eru í 2. gr. frv., sem er breyt. á 41. gr. hegningarlaganna, ákvæði um sjálfan reynslutímann og þau skilyrði sem fanga eru sett. Má segja að þar sé aftur á móti vikið frá þeim ákvæðum, sem sett voru um það efni í lög 1961, og til þess sem ákveðið var upphaflega í hegningarlögunum, þ.e.a.s. að reynslutíminn geti staðið lengur en er eftir gildandi lögum eða allt að 5 ár. Og þá er gert ráð fyrir því að reynslutíminn geti staðið lengur en nemur þeim tíma sem eftir er óafplánaður af refsingunni.

Í 3. gr., sem fjallar um breyt. á 42. gr., eru ákvæði um hvernig við skuli brugðist ef aðili rýfur þau skilorð sem honum voru sett við reynslulausnina. Er þar lagt til að sett verði fyllri ákvæði en nú er um meðferð slíkra mála. Er þar í fyrsta lagi sett fram sú meginregla að fremji aðili eitt brot eftir að hann hlaut reynslulausn, þá ákveði dómstóll, sem fjallar um nýja brotið, refsingu í einu lagi fyrir nýja brotið og eftirstöðvar af eldri refsivist, og skal þá beitt sömu meginreglum og um skilorðsrof skv. skilorðsbundnum dómi.

Í öðru lagi er lagt til í 2. málsgr. 3, gr. að það sé háð ákvörðun dómsmrh. hvort eftirstöðvar refsingar séu teknar út ef önnur skilyrði eru rofin eða hvort einungis sé breytt skilyrðum, svo sem reynslu- eða tilsjónartími lengdur.

Þá er í þriðja lagi lagt til að heimilt sé að láta hefja þegar í stað afplánun eftirstöðva ef um er að ræða skilorðsrof sem fólgin eru í ótvíræðu broti á almennum hegningarlögum, enda þótt dómstóll hafi ekki enn fjallað um nýja brotið. Þetta á við þegar aðili hefur játað brot sitt eða óyggjandi gögn benda til að hann hafi framið það, svo sem ef hann er staðinn að verki. Þetta eru nokkuð önnur ákvæði heldur en tilsvarandi ákvæði í gildandi hegningarlögum.

Í niðurlagi 3. gr. er mælt svo fyrir að það megi beita ákvæðum um reynslulausn þegar veitt er skilorðsbundin náðun.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þennan kafla þessa frv., en í II. kaflanum eða 4. gr., sem fjallar um breyt. á 1. málsgr. 232. gr. hegningarlaga, er lagt til að refsimörk við röskun á friði annars manns breytist á þann hátt sem í gr. er lýst, þ.e.a.s. þau eru hækkuð og geti varðað allt að 6 mánaða fangelsi. Skv. núgildandi ákvæðum er hámarksrefsing varðhald allt að 6 mánuðum. Þau refsimörk, sem hér er lagt til að tekin verði upp, eru í samræmi við ákvæði hegningarlaga Norðurlandaþjóða sem fjalla um þessi brot.

Þá er lagt til að gildistími lögregluáminningar verði lækkaður, áminningin gildi í 5 ár, en helsta þýðing þessarar breytingar er sú, að ef þetta ákvæði verður að lögum er hægt að beita mann gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn stendur, en á því getur einmitt oft verið þörf því að sú röskun á friði, sem um getur verið að ræða og birst getur í mismunandi myndum, getur verið svo alvarleg að það sé full ástæða til þess að möguleiki sé eftir lögum til að beita gæsluvarðhaldi þó að maður hafi ekki gerst sekur um annars konar hátterni en þá sem í gr. segir, að ásækja mann, ofsækja hann með bréfum eða ónáða hann á svipaðan hátt, t.d. í síma eða því um líkt, en að slíkum ásóknum kveður talsvert og þess vegna ástæða til að taka allhart á því.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að mælast til þess að frv. verði vísað til 2. umr. að þessari umr. lokinni og til hv. allshn., en eins og ég hef þegar tekið fram hefur frv. þetta gengið þegar í gegnum Nd. og var þar samþ. óbreytt að undanskilinni þessari breyt., sem ég gerði grein fyrir, að tímamarkinu var breytt úr fjórum mánuðum í þrjá.