22.03.1976
Efri deild: 79. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2690 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

154. mál, sálfræðingar

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Það hefur margt verið sagt um mig frekar en að ég væri sérstaklega hæverskur og óframfærinn. En ég verð að gera þá játningu, að það er með nokkrum kvíða og ugg sem ég kem hér í ræðustól í þessari virðulegu deild til að taka þátt í umr. um jafnháakademískt hugtak og mér skilst að sálfræði hljóti að vera, að ég aumur, gjörsamlega ómenntaður maður skuli fara að leggja út á þá hættubraut að fara að leggja hér orð í belg.

Hér er til umr. í hv. þd. frv. til l. um sálfræðinga og rétt til þess að kalla sig sálfræðing. Ég hef ekki átt langa setu hér á þingi, en ég verð að segja það að mér finnst ískyggilega mikið hafa verið gert að því hér á hinu háa Alþ., meðan ég hef setið hér, að samþykkja löggjöf sem löggildi hin og þessi starfsheiti. Við höfum verið að löggilda félagsfræðinga og hina og þessa fræðinga. Allt hefur þetta átt frumorsök sína í því að hinn og þessi félagsskapur hefur talið nauðsynlegt að fá einhverja lagalega staðfestingu á starfsheitinu. Nú skal ég ekki á neinn hátt takast á hendur að vega eða meta réttmæti þess að menn eigi ekki rétt á því að kalla sig hinum og þessum nöfnum. En ég fæ ekki séð að hafi einstaklingur hlotið hina og þessa menntun geti hún ekki komið honum sjálfum að gagni og þá þjóðfélaginu, sem ég efast ekki um að sé efst í huga einstaklings þegar hann er að leita sér slíkrar menntunar. Hann er þar að þjóna sínum innri hvötum og þá einnig að miðla þekkingu sinni til annarra. Og að það þurfi nauðsynlega að staðfesta einhver lög eða setja einhverja ákveðna lagasetningu um starfsheiti einhvers ákveðins hóps, hvort það heitir sálfræðingur eða eitthvað annað, það fæ ég ekki séð að sé ákaflega þýðingarmikið. Hitt kemur svo í huga minn um leið, sú þróun sem alltaf er að verða meira og meira áberandi í okkar litla þjóðfélagi, að í lífinu sjálfu og í ýmissi hinni almennu kjarabaráttu og hinni almennu lífsbaráttu eða lífsgæðabaráttu, þá er eins og það sé í sívaxandi mæli að maður verður var við að þjóðfélagið er að skiptast í einhverja hópa þar sem höfuðverkefni og höfuðmark hvers hópsins út af fyrir sig virðist áberandi vera að geta haft sem þýðingarmesta og besta aðstöðu þegar á að fara að semja um kaup og kjör?

Nú er ég ekki með þessum orðum að segja að samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, verði beinlínis og endilega orsök að því að sálfræðingar sem slíkir, eftir að þeir hafa fengið löggildingu samkvæmt ákvæðum þessa frv., fari að gerast einhverjir hagsmunahópar. Hins vegar skulum við ekki útiloka það, að ef þetta frv. verður að lögum, þá erum við komnir með enn einn fræðingahópinn. Það er búið að gera ráð fyrir því að hann sé inni í fræðslukerfinu og öll orsök skapar afleiðingu.

Ég veit ekki af hverju ég fór að blanda mér inn í þessar umr. um sálfræðingana. Ég hef stundum verið að spyrja menntaða menn og fróða menn um hvað væri sál. Ekki hef ég fengið svar við því, og sumir hafa beinlínis sagt mér að það væri ekki enn þá búið að uppgötva fullkomið svar við þeirri spurningu. En mjög menntaðir og hámenntaðir menn hafa sagt mér að um það, sem var talin mikilvæg sálarfræði og merkilegar lífsskoðanir fyrir svo og svo löngum tíma, þá segi margur nútímasálfræðingurinn að það séu hreinar bábiljur og vitleysa sem þeir ágætu menn hafi þá verið að halda fram. Ég held því að allt sé eitthvað sveiflukennt í sambandi við þetta hugtak sem við köllum sálarfræði.

Í framsöguræðu hv. 10. landsk. þm. áðan var minnst eitthvað á gáfnapróf sem eitt af hlutverkum sálfræðinga. Er það alveg óafsakanlegt að manni detti nú í hug að þegar við værum búnir að starfa eitthvert árabil eftir þessum lögum og sálfræðingarnir komnir vel á veg og orðnir fleiri en þessir 34 sem mér skilst nú að eigi sína sálfræðilegu velferð undir því að Alþ. tryggi starfsheiti þeirra, þá fari að koma inn í fræðslukerfi þjóðarinnar krafa um að hinn almenni borgari verði að hafa svo og svo mikla greindarvísitölu til þess að verða talinn hæfur til eins eða annarra starfa? Við skulum svo segja að þróunin yrði á þá leið, að til þess að geta sótt um eitthvert ákveðið starf og verða gjaldgengur, þá yrði greindarvísitalan að ná einhverju ákveðnu marki. Svo verða náttúrlega þeir, sem ekki hafa mikla menntun á bak við sig, að sætta sig við það að til æðri starfa yrði greindarvísitalan að vera einhverjum stigum hærri. Það er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir slíkri tilhögun.

Í þessu sambandi langar mig til að hugsa örlítið lengra. Þessi stétt, sálfræðingar, á að fjalla um það mál sem þarna mundi vera um að ræða, að ákveða gáfnaprófið eða greindarvísitöluna. Nú skyldi það atvikast þannig að upp væri komin kjaradeila, opinberir starfsmenn búnir að fá verkfallsréttinn. Hvað gerðist í þjóðfélaginu ef þessi sálfræðingastétt, sem ein getur úrskurðað um greindarvísitöluna sem krafist er til ákveðinna starfa, sem á að framkvæma í þjóðfélaginu, þ.e. þau verða ekki skipuð nema umsækjendur fullnægi því ákvæði um gáfnaprófið sitt og hafi skilríki fyrir vísitölunni sinni, — hvað gerist svo ef þessi stétt er í verkfalli og ekki nokkur leið að fá vottorð um greindarvísitölu? Gæti ekki slíkt ástand valdið glundroða í þjóðfélaginu? Maður gæti haldið áfram lengur slíkum hugleiðingum.

Ég held að það sé kominn tími til fyrir hv. Alþ. að staldra dálítið við með allar þessar miklu löggildingar á starfsheitum. Ég get ekki séð að menn, sem á annað borð hafa aflað sér nauðsynlegrar þekkingar sem þjóðfélagið getur á hverjum tíma þurft á að halda til hinna ýmsu mikilsverðu starfa, að þeir geti ekki leyst það vel og farsællega af hendi og miðlað þjóðfélaginu sinni þekkingu og látið þjóðfélagið almennt njóta jákvæðra áhrifa af þeirra vísdómi án þess að þekking þeirra sé á einn eða annan hátt í einhverju einokunarformi að því er starfsheiti eða starfsrétt áhrærir. Þess vegna finnst mér og af því að ég er nú einhvern veginn þeirrar skoðunar að af öllu því, sem við erum að fjalla um þessa dagana, sé talið um sálina kannske hvað tvíræðast og í mestri óvissu, þá mætti gjarnan lofa þessu máli að