23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (2230)

165. mál, snjómokstur á vegum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Allt frá árinu 1972 munu hafa verið í endurskoðun reglur þær sem gilt hafa varðandi snjómokstur á þjóðvegum. Reglur þessar tóku gildi í ársbyrjun 19fi8, og enginn vafi er á því að mjög mikil nauðsyn og brýn er á því að endurskoðun fari fram á þeim og þeim sé breytt frá því sem þær voru og eru.

Í umr. hér á Alþ. hinn 13. maí 1975 lét hæstv. samgrh. svo um mælt að nýjar reglur, endurskoðaðar, mundu taka gildi á haustinu 1975. Þetta var sagt um þær mundir sem vegáætlun var hér til umr. og þá gert ráð fyrir því að tekjur til þess að framkvæma þessar nýju reglur yrðu teknar við afgreiðslu á vegáætlun.

Mér vitanlega hafa ekki í framkvæmd verið neinar breytingar á þessum reglum. Ég hef því leyft mér að leggja fram á þskj. 346 fyrirspurn til hæstv. samgrh. um það, hvort lokið sé þeirri endurskoðun sem staðið hefur nú í nokkur ár á þeim reglum sem hér um ræðir. Ég vænti þess, að í svari hæstv. ráðh. hér á eftir verði staðfesting á því sem hann lét um mælt hér við umr. við afgreiðslu vegáætlunar, að búið sé að endurskoða þessar reglur og að þær nýju hafi þá tekið gildi.