23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2697 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

165. mál, snjómokstur á vegum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 346 er fyrirspurn frá hv. 5. þm. Vestf. sem hann hefur nú gert grein fyrir. Ég gæti með einni setningu eða svo svarað fyrirspurninni, en ætla að gefa skýringar á henni líka sem vegamálastjóri hefur samið. Það er búið að endurskoða þessar reglur, en ástæðunni til þess að þær eru ekki komnar til framkvæmda skal ég nú gera grein fyrir. Eins og ég áður sagði, þá er það grg. frá vegamálastjóra sem ég les hér, með leyfi hæstv. forseta:

„Í till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1974– 1977, sem lögð var fram á Alþ. fyrir ári, var í grg. gert ráð fyrir því að gildandi snjómokstursreglur frá árinu 1968 yrðu endurskoðaðar á árinu 1975. Í grg. kemur fram að fjárveiting til vetrarviðhalds var með tilliti til þessarar endurskoðunar hækkuð um 47 millj. kr. í 194.7 millj. Var þetta í fyrsta skipti frá því að byrjað var að semja sérstakar vegáætlanir að kostnaður við vetrarviðhald var aðskilinn frá kostnaði við sumarviðhald. Till. um 194.7 millj. kr. fjárveitingu til vetrarviðhalds var samþ. óbreytt á Alþ., og því var í rann og veru gengið út frá því að snjómokstursreglur frá 1968 yrðu endurskoðaðar á s.l. ári. Þar sem vegáætlun var eigi samþ. á Alþ. fyrr en 16. maí, var ljóst að endurskoðun á snjómokstursreglum gæti eigi komið til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi á s.l. hausti.

Sem kunnugt er var s.l. vetur sá snjóþyngsti sem menn muna og þá sérstaklega á Norður- og Austurlandi. Af þessum óvenjulegu snjóþyngslum leiddi hins vegar það, að kostnaður við snjómokstur á þjóðvegum varð mun meiri en verið hafði á undanförnum árum. Í júnílok 1975 var kostnaðurinn við vetrarviðhaldið orðinn 245 millj. kr. eða 50 millj. kr. meiri en fjárveiting nam við þessum lið fyrir allt árið 1975. Í grg. til rn. um þetta mál hinn 3. júlí s.l. áætlaði vegamálastjóri að hallinn á vetrarviðhaldi á árinu gæti orðið 130–170 millj. kr., miðað við óbreyttar snjómokstursreglur, en 153–261 millj. ef reglunum yrði breytt, eins og áformað var við gerð vegáætlunar. Var lægri talan miðuð við að snjóalög yrðu svipuð og meðallög undanfarinna ára, en hærri talan miðuð við að síðari hluti ársins 1975 yrði álíka snjóþungur og fyrri hluti ársins. Miðað við ofangreinda áætlun í grg. vegamálastjóra taldi rn. engan fjárhagslegan grundvöll vera fyrir því að láta áformaða endurskoðun á snjómokstursreglum koma til framkvæmda á árinu, eins og ráðgert hafði verið í vegáætlun. Var því unnið eftir óbreyttum snjómokstursreglum allt s.l. ár og hefur svo verið einnig það sem af er þessu ári.

Heildarkostnaður við vetrarviðhald árið 1975 var 328 millj. kr. og er það 132 millj. kr. umframfjárveiting frá vegáætlun. Þennan halla verður að greiða af fjáröflun Vegasjóðs á yfirstandandi ári. Horfir því þunglega um það að unnt verði í ár að hrinda í framkvæmd þeirri endurskoðun á snjómokstursreglum sem ráðgerð var á s.l. ári. Skal þess getið í þessu sambandi að Vegagerðin er vanbúin að tækjum til þess að annast snjómokstur umfram það sem gildandi snjómokstursreglur kveða á um.

Það er að sjálfsögðu miður farið að eigi reynist unnt að hrinda í framkvæmd þeirri endurskoðun á snjómokstursreglum á s.l. ári, sem gert var ráð fyrir í vegáætlun þessa árs. Óvenjulegt vetrarríki og fjárskortum af þeim sökum gerði þetta þó því miður óframkvæmanlegt. Hér er að sjálfsögðu um fjárhagslegt vandamál að ræða sem koma mun til athugunar við endurskoðun vegáætlunar síðar í vetur.“

Ég get bætt því við þetta svar, sem er mjög greinilegt, að þessu til viðbótar má geta þess að tekjur Vegasjóðs af mörkuðum tekjustofnum reyndust verulegri fjárhæð minni en gert var ráð fyrir í vegáætlun þeirri sem samþ. var í fyrra. Einnig með tilliti til þessa hefur þessum reglum ekki enn þá verið breytt. Verður ábyggilega erfitt að fást við vegáætlunina, sem nú er unnið að undirbúningi að, jafnvel þó að reglum um snjómokstur verði ekki breytt. En einnig hefur verið reynt að ná í meira af snjómoksturstækjum til þess að gera þetta auðveldara, og ef það tækist, þá mundi það geta bætt úr þörfinni. — Fleira hef ég ekki um þetta að segja.