23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2699 í B-deild Alþingistíðinda. (2233)

165. mál, snjómokstur á vegum

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði, þá var það ekki ljóst í maí hve dýr snjómoksturinn yrði, því að það tekur nokkurn tíma að gera hann upp og hafði engan grunað þá að snjómokstur færi svo fram úr áætlun eins og raun varð á. Og öllum hv. þm. fannst það mikið að veita um 200 millj. kr. í snjómokstur eins og gert var. Hins vegar reyndist það 133 millj. of lágt og þarf því engan að undra þó að ekki væri hægt á sama tíma að breyta reglunum, þegar það svo bættist við að tekjur af bensíngjaldi voru um 200 millj. kr. lægri en reiknað var með og þungaskatturinn, sem áætlaður var við afgreiðslu vegáætlunarinnar, skilaði sér ekki heldur, svo að það urðu allmiklar vanheimtur á tekjum.

Ég held að það muni ekki gagna okkur hv. þm. þó að við breytum reglum ef við ekki höfum fleiri krónur úr að spila í þeim efnum. Og þá er það alltaf matsatriði hvort á að nota þær til þess að byggja upp vegi og viðhalda þeim eða í snjómokstur. Það getur verið matsatriði. Menn munu þá reyna að halda í það síðara eins og tök eru á.