23.03.1976
Sameinað þing: 68. fundur, 97. löggjafarþing.
Sjá dálk 2700 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

165. mál, snjómokstur á vegum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get nú ekki annað en tekið undir með fyrirspyrjanda. Mér finnst tímabært að breyta þessum reglum, því að það er satt að segja ákaflega mikið ólag á þessum snjómokstursmálum okkar. Það er hins vegar ljóst að til þess að hrinda hinum nýju reglum í framkvæmd þarf að útvega fjármagn og þetta verður auðvitað að haldast í hendur, en það þýðir ekkert annað en ganga að því verkefni. Það er að vissu leyti rétt hjá samgrh., að það er freistandi að byggja stórvirki í samgöngukerfinu og fjárfesta í varanlegum framkvæmdum. En það má ekki verða alfarið á kostnað hins þáttarins, því að meðan verið er að byggja þessar varanlegu og góðu framkvæmdir, þá verður náttúrlega að sjá fólkinu úti á landsbyggðinni fyrir viðunandi þjónustu. Ég t.d. tel að það sé algjört lágmark að opna leiðina til Akureyrar þrisvar í viku. Hún er ekki opnuð nema tvisvar í viku samkv. núgildandi reglum. Það þarf endilega að opna þrisvar í viku bæði Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði, — þetta eru veigamiklar samgönguæðar þeirra héraða sem þarna eiga hlut að máli, — sérstaklega líka vegna þess að uppbygging vega á þessum heiðum báðum hefur tafist ósæmilega, lent í allt of miklum undandrætti.

Snjómokstursmenn í vetur virðast hafa fengið skrekk í fyrra þegar kostnaður fór svona mikið fram úr áætlun vegna snjóþyngslanna og nú segjast þeir vera í eftirvinnubanni. En stormurinn er náttúrlega ekki í eftirvinnubanni og það snjóar og snjóar jafnt fyrir því þó að vegamenn verði að hætta þegar kvölda tekur.

Þetta eru háar tölur sem samgrh. fór með, 328 millj. til snjómoksturs í fyrra, en ég vildi forvitnast um hvort ekki væri hægt að fá sundurliðun á þessum snjómoksturskostnaði, t.d. hvað mikið af þessum 138 millj. fór til að opna Holtavörðuheiði og Öxnadalsheiði. Í vetur er miklu snjóléttara en var í fyrra, og þó að illa gengi í fyrravetur má það ekki verða til þess að drepa alveg úr okkur kjarkinn núna.